Ráð, nefndir og stjórnir
Borgarstjórn kýs í margvísleg ráð, nefndir og stjórnir sem starfa í umboði borgarstjórnar. Í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar er tilgreint hvaða ráð, nefndir og stjórnir um ræðir en það er borgarstjórn sem kýs fulltrúa sína í þær.
Hvað viltu skoða næst?
Kosið í ráð, nefndir og stjórnir
Borgarstjórn kýs í ráð og nefndir til að fara með tiltekin mál, en þær starfa eftir sérstökum samþykktum sem tilgreina hlutverk, verkefni og ábyrgð hverrar og einnar.
Borgarstjórn kýs sjö fulltrúa og sjö til vara til að sitja í til fjögurra ára í senn í fagráðum borgarinnar sem eru eftirfarandi:
- Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð
- Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð
- Skóla- og frístundaráð
- Velferðarráð
- Umhverfis- og skipulagsráð
- Stafrænt ráð
Þá kýs borgarstjórn í eftirfarandi ráð og nefndir í fjögur ár í senn:
- Almannavarnanefnd. Einn fulltrúa og tvo til vara.
- Barnaverndarnefnd. Fimm fulltrúa og fimm til vara.
- Endurskoðunarnefnd. Þrjá fulltrúa og þrjá til vara.
- Aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks. Þrjá fulltrúa og þrjá til vara.
- Fjölmenningarráð. Tvo fulltrúa og tvo til vara.
- Íbúaráð. Þrjá fulltrúa í hvert og þrjá til vara. Íbúaráð eru níu talsins.
- Innkaupa- og framkvæmdaráð. Fimm fulltrúa og fimm til vara.
- Brú lífeyrissjóður. Þrjá fulltrúa í stjórn og þrjá til vara.
- Öldungaráð. Þrjá fulltrúa og þrjá til vara.
Borgarstjórn kýs einnig til eins ár fulltrúa í eftirfarandi stjórnir:
- Faxaflóahafnir. Fjóra fulltrúa og fjóra til vara.
- Orkuveita Reykjavíkur. Fimm fulltrúa og fimm til vara.
Borgarstjórn kýs fulltrúa í yfirkjörstjórn, hverfiskjörstjórnir og undirkjörstjórnir, auk varamanna, eftir ákvæðum kosningalaga.
Borgarstjórn og/eða borgarráð kýs eða tilnefnir fulltrúa sína í ýmsar stjórnir, ráð eða nefndir samkvæmt ákvæðum laga og reglugerða eða samkvæmt sérstökum samþykktum.