Stafrænt ráð

Teikning af fólki tala saman og vinna við skrifborð.

Stafrænt ráð var stofnað á fundi borgarstjórnar 21. júní 2022. Formaður ráðsins er Alexandra Briem. Samþykkt fyrir ráðið var staðfest af borgarstjórn 20. september 2022.

Stafrænt ráð starfar í umboði borgarráðs með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í samþykkt þessari, samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019 með síðari breytingum og eftir því sem lög mæla fyrir um, sbr. einnig heimild í 1. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Stafrænt ráð skal móta stefnu í gagnsæis-, lýðræðis-, stafrænum- og þjónustumálum, ásamt innri og samfélagslegri nýsköpun, taka ákvarðanir og gera tillögur til borgarráðs hvað varðar verksvið þess. Jafnframt hefur ráðið eftirlit með rekstri þjónustu og nýsköpunarsviðs og að samþykktum og stefnumörkun Reykjavíkurborgar á verksviði ráðsins sé fylgt. Þá fer ráðið með önnur þau verkefni sem borgarráð ákveður.

Þjónustu og nýsköpunarsvið og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa annast framkvæmd stefnu og verkefna ráðsins og samskipti við aðrar stofnanir borgarinnar. Ráðið starfar þvert á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar að þeim verkefnum sem ekki heyra undir þjónustu- og nýsköpunarsvið eða, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.

Stafrænt ráð er skipað sjö fulltrúum kjörnum af borgarstjórn og jafnmörgum til vara. Borgarstjórn kýs formann og skal hann vera borgarfulltrúi. Ráðið kýs sér varaformann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Kjörtímabil ráðsins er hið sama og borgarstjórnar.

Starfsmaður ráðsins er Eva Pandora Baldursdóttir eva.pandora.baldursdottir@reykjavik.is.