Íbúaráð

Íbúaráð Reykjavíkurborgar eru lifandi samstarfsvettvangur íbúa, bakhóps hverfisins, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda.

Með íbúaráðunum er ætlunin að styrkja tengingu og stytta boðleiðir milli íbúa og stjórnsýslu borgarinnar og styðja við möguleika íbúa á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Útsendingar frá fundum

Fundum íbúaráða er streymt í gegnum YouTube síðu Reykjavíkurborgar.

Hlutverk og verksvið

  • Styrkja tengingu og stytta boðleiðir á milli íbúa og stjórnsýslu borgarinnar 
  • Stuðla að aukinni upplýsingagjöf til íbúa 
  • Styrkja möguleika íbúa til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og vekja athygli á áskorunum innan hverfisins
  • Styðja við og auka samstarf innan hverfanna og efla félagsauð innan þeirra

Íbúaráðin standa að kynningu skipulags, framkvæmda og þjónustu borgarinnar í hverfunum og beita sér fyrir því að samráð verði haft við íbúa, allt eftir eðli máls hverju sinni. Íbúaráð skulu fá til kynningar auglýstar breytingar á skipulagsáætlunum er snerta hverfið, meginbreytingum á þjónustu auk kynninga á stærri framkvæmdum s.s. við umhirðu borgarlandsins og vor- og vetrarþjónustu. 

Sjá einnig samþykkt fyrir íbúaráð Reykjavíkurborgar og tillögur stýrihóps um innleiðingu íbúaráða sem voru samþykktar í borgarráði 10. febrúar 2022.

Skipan íbúaráða og fyrirkomulag

Íbúaráð Reykjavíkurborgar eru níu talsins og starfa í öllum hverfum borgarinnar. Hvert íbúaráð samanstendur af þremur fulltrúum kjörnum af borgarstjórn, fulltrúa foreldrafélaga, fulltrúa íbúasamtaka, fulltrúa foreldrafélaga og slembivöldum fulltrúa. Íbúaráðin funda einu sinni í mánuði, fundir þeirra eru að jafnaði opnir og þeim streymt á vef Reykjavíkurborgar.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu þjónustar íbúaráðin og sér um skrifstofuhald fyrir þau.

Starfsmaður íbúaráða er Heimir Snær Guðmundsson.

Hvernig geta íbúar haft áhrif á starfssemi íbúaráða? 

Íbúar eru hvattir til þess að vera virkir í starfsemi sinna íbúaráða. Íbúar geta sent sínum íbúaráðum erindi, fyrirspurnir, ábendingar, hugmyndir eða tillögur sem verða þá ræddar á vettvangi ráðsins.

Hægt er að hafa samban beint á viðkomandi netfang viðkomandi íbúaráðs. Íbúar eru þá hvattir til að koma afmörkuðum ábendingum á framfæri í gegnum ábendingavef Reykjavíkurborgar

Hverfissjóður Reykjavíkurborgar

Hverfissjóður Reykjavíkurborgar styrkir hverfisbundin félagasamtök, íbúa og aðra þá sem vilja leggja sitt af mörkum og standa fyrir hverfistengdum verkefnum og/eða viðburðum með framangreind markmið til hliðsjónar.

Ákvörðun um úthlutun úr Hverfissjóði Reykjavíkurborgar er tekin af íbúaráðum Reykjavíkurborgar.

Hægt er að sækja um styrk í sjóðinn allt árið um kring.

Íbúaráðin

Íbúaráðin eru níu samtals og eru í eftirfarandi hverfum:  

 

Fundir íbúaráða eru boðaðir með viku fyrirvara og birtist dagskrá þeirra á vef borgarinnar.