Vika6
Vika6 er sjötta vika hvers árs. Í þeirri viku er starfsfólk grunnskóla og félagsmiðstöðva borgarinnar hvatt til að setja kynheilbrigði í forgrunn og bjóða upp á fjölbreytta kynfræðslu. Leikskólum, frístundaheimilum og öðrum sveitarfélögum er hjartanlega velkomið að taka þátt í Viku6 eftir því sem á við og hentar hverjum og einum.
Jafnréttisskóli Reykjavíkur stýrir Viku6 en unglingar borgarinnar kjósa þema á hverju ári. Unnið er útfrá hugmyndum um alhliða kynfræðslu
Vika6 - 2024
Vika6 fer fram dagana 5.–9. febrúar 2024. Þemað að þessu sinni er samskipti og sambönd. Hægt er að vinna með þemað á fjölbreyttan hátt, út frá aldri og þroska hvers barnahóps. Hér má finna nokkur verkfæri sem sérsniðin eru að þema ársins.
Hvernig virkar Vika6
Á hverju ári velja unglingar þema fyrir Viku6. Það er ýmist gert með lýðræðisfundi eða með kosningu í gegnum netið. Eftir að þema er valið hefst undirbúningur fyrir vikuna. Gert er ráð fyrir að hver starfsstaður undirbúi vikuna hjá sér eftir því sem hentar best á hverjum stað.
Innlegg Jafnréttisskólans (í samstarfi við aðra) í Viku6 er meðal annars að:
- Hvetja stjórnendur og starfsfólk til að taka virkan þátt í Viku6.
- Finna til ýmiskonar námsefni og kennsluhugmyndir sem tengjast þemanu, fyrir starfsfólk til að nota í Viku6 ef það kýs.
- Láta útbúa fræðslu veggspjöld og dreifa þeim í alla grunnskóla og félagsmiðstöðvar borgarinnar.
- Búa til stutt fræðslumyndbönd í samstarfi við UngRÚV.
- Senda öllum nemendum í 10. bekk smokka.
- Hanna stuttermaboli með fræðslu á fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva.
- Skipuleggja viðburði s.s. opna fræðslu í gegnum Teams til barna og unglinga í Viku6 og opna fræðslu fyrir starfsfólk og foreldra í aðdraganda Viku6.
Fræðslumyndbönd
Í tilefni Viku6 hefur Jafnréttisskólinn staðið fyrir gerð fræðslumola á myndbandaformi í samstarfi við UngRÚV og Mixtúru sem fjalla um kynlíf og kynvitund ungs fólks út frá ólíkum sjónarhornum. Myndböndin eru birt á heimasíðu UngRÚV og hér á síðu Jafnréttisskólans.
Veggspjöld Viku6 - Ætluð unglingastigi
Kynfræðsla fyrir öll stig grunnskóla - Verkfærakistur
- Kynfræðsla - yngsta stig Hugmyndir að námsefni, kveikjum og kennsluleiðbeiningum auk annars fróðleiks.
- Kynfræðsla - miðstig Hugmyndir að námsefni, kveikjum og kennsluleiðbeiningum auk annars fróðleiks.
- Kynfræðsla - unglingastig Hugmyndir að námsefni, kveikjum og kennsluleiðbeiningum auk annars fróðleiks.
- Kynfræðsla - efni fyrir starfsfólk Hugmyndir að námsefni, kveikjum og kennsluleiðbeiningum auk annars fróðleiks.
Gott að hafa í huga
Samkvæmt fræðslulögum eiga öll börn að fá kynfræðslu á öllum skólastigum. Með því að veita góða kynfræðslu erum við:
- Að þjálfa börn og unglinga í að koma auga á og virða sín eigin mörk og mörk annarra. Að þau átti sig á að hver einstaklingur er einstakur og mörk fólks geta verið misjöfn.
- Að auka þekkingu barna og unglinga varðandi kyn, kynvitund og kynhneigð, líkama, tilfinningar, réttindi, samskipti og kynheilbrigði.
- Að efla sjálfsmynd barna og unglinga og þjálfa þau í gagnrýnni hugsun. Að efla þau í að taka ákvarðanir sem valda þeim og öðrum vellíðan en ekki skaða.
- Að gera börn og unglinga meðvituð um kynheilsu sína og hvetja þau til að velja og hafna út frá sínum eigin forsendum en með virðingu fyrir öllum hlutaðeigandi að leiðarljósi.
Áður en þú byrjar kynfræðslu getur verið gott að hafa eftirfarandi í huga
- Byrja á því að skapa öruggt andrúmsloft og umhverfi.
- Leggið áherslu á virðingu innan hópsins.
Muna fjölbreytileikann svo sem kynvitund, kynhneigð, fötlun, menningu og fleira
- Reyna að tala eins kynhlutlaust og opið og hægt er. Gott er að nota orð eins og sumir, flestir, margir og tala til dæmis um þau sem eru með typpi og þau sem fara á blæðingar.
- Ekki vera útilokandi og ekki áætla neitt fyrirfram til dæmis varðandi áhuga og reynslu nemenda.
Hafa aldursviðeigandi fræðsluefni
- Undirbúa sérstaklega þá einstaklinga sem gætu átt erfitt með umræðuefnið, sumum þykir umræðan erfið og öll fræðsla hentar ekki á sama hátt fyrir alla.
Hvernig er best að nálgast viðkvæma umræðu
Fara fyrst í gegnum ákveðna sjálfskoðun
- Mundu að þú ert í uppeldis- og fræðsluhlutverki, gættu þess að vera hlutlaus í fræðslunni þinni og hafa velferð nemenda að leiðarljósi.
- Ef þú treystir þér ekki í ákveðna umræðu þá skaltu ekki taka hana, fáðu einhvern annan til þess eða undirbúðu þig mjög vel og taktu umræðuna þegar þú upplifir að þú getir gert það vel.
Velja orðin okkar vel
- Talaðu af virðingu við nemendur og taktu tillit til þess að innan hópsins eru ólíkir einstaklingar.
- Setjum okkar eigin mörk og virðum mörk annarra í umræðu.
- Vertu óhrædd/ur/t við að setja mörk fyrir þig og passaðu að fara ekki yfir mörk nemenda til dæmis með því að tala alltof gróft eða fara að lýsa eigin kynlífsreynslu á yngri árum. EKKI tala um þína reynslu í kynfræðslu, sumum nemendum getur þótt það virkilega óþægilegt og breytt því hver þú ert í þeirra huga. Þú getur vitnað í eigin reynslu en settu hana þá í annan búning eins og til dæmis: Einn félagi minn lenti einmitt stundum í því að… eða: Ég þekki eina stelpu sem…
- Verum einlæg.
- Munum að við erum ekki endastöð upplýsinga.