Kynfræðsla - miðstig

Hér birtum við efni til að nota í kennslu í  kynfræðslu fyrir miðstig grunnskóla og frístundamiðstöðva. Í verkfærakistunni má finna kveikjur, myndbönd, verkefni, fróðleik og margt fleira. 

Að tala við börn um klám

Í þessum leiðbeiningum má finna ráðleggingar til starfsfólks í skóla- og frístundastarfi og foreldra/forsjáraðila um hvernig hægt er að ræða um klám við börn á miðstigi.

Fræðsluvefir og kennsluhugmyndir

Betri samskipti Hér er kennsluhugmynd sem nýtist vel þegar samskipti eru ekki nógu góð í hópnum/bekknum. Góð samskipti eru afar mikilvæg og þegar kemur að kynheilbrigði skipta samskipti öllu máli. Það er því gott að nota hvert tækifæri til að efla og styðja við góð samskipti. 

Vinátta - heilbrigð og óheilbrigð samskipti milli vina. Kennari hengir eitt grænt, eitt gult og eitt rautt blað upp á vegg. Prentar út setningar um vináttu og nemendur draga eina setningu hver. Nemendur skiptast á að lesa upphátt hvað stendur á miðanum og festa miðann svo með kennaratyggjó á græna blaðið ef um heilbrigð og góð samskipti er að ræða, á gula blaðið ef samskiptin eru ekki alveg nógu góð og á rauða blaðið ef um óheilbrigð samskipti er að ræða eða jafnvel ofbeldi. Umræða tekin um mikilvægi þess að hver manneskja reyni að vera alltaf á grænu og gæði þess að velja sér vini sem eru þar líka. Benda á að alltaf er tækifæri til að bæta samskiptin. 

Kynfræðsluvefur Hilju er frábær heimasíða þar sem finna má kennsluhugmyndir um alla þætti alhliða kynfræðslu. Finna má kennsluefni fyrir öll aldursstig grunnskólans.

Fræðsluvefurinn 'Keep it real online' fjallar um samskipti á netinu.

Youmo - vefsíða um kynheilbrigði er frábær sænskur fræðsluvefur um allt mögulegt sem tengist kynheilbrigði og unglingsárunum. Þessi síða er á sex tungumálum og geymir glærur, myndbönd, greinar og ýmislegt sniðugt til að nota í kennslu.

Kynþroski stúkna er vefsíða sem hjúkrunarfræðingar halda úti og inniheldur ýmislegt sem tengist kynheilbrigði.

Líkamsvirðing fyrir börn er vefur sem hentar yngsta og miðstigi.

Kynfræðsluvefurinn er góður og aðgengilegur vefur fyrir miðstig og unglingastig.

Á Heilsuveru er sér fræðsluvefur um kynheilbrigði.

Áttavitinn er vefsíða með ýmiskonar fróðleik undir liðnum heilsa og kynlíf.  Efnið hentar nemendum á miðstigi og unglingastigi. Velja þarf efni sem hæfir þeim aldri sem unnið er með hverju sinni.

Kynhyrningurinn og kynjakakan

Hér er verkfæri til að kenna börnum um muninn á kynvitund, kyntjáningu og hverjum fólk laðast að. Athugið að fólk getur verið hvar sem er á örinni/rófinu.

Kynlíf

Hér eru tímarit sem eru hluti af kynfræðsluefninu 'Kynlíf' og fjalla um margt sem tengist kynlífi. Tímaritin eru tvö og snýr annað sérstaklega að stúlkum og hitt að drengjum.

Myndbönd

Alls kyns um kynþroskann er teiknuð stutt fræðslumynd sem nýtist vel sem kveikja að umræðum.

Kynþroskinn Opinskáir og góðir norskir þættir um kynþroskann og allt sem honum fylgir. Þættirnir eru stuttir og mikilvægt er að velja þætti sem henta hverju sinni. Þeir geta verið góðar kveikjur að frekari umræðum eða verkefnavinnu.

Big Mouth eru teiknimyndaþættir um kynfræðslu fyrir miðstig og unglingastig á Netflix. Þættirnir eru svolítið ögrandi en hafa notið mikilla vinsælda hjá ungmennum, sniðugt að horfa á þátt sem fræðari hefur valið fyrirfram og umræður í kjölfarið.

Forfallakennarinn - hér eru fræðslumyndbönd með kynfræðsluefninu 'Kynlíf' þar sem fjallað er á skýran og myndrænan hátt um helstu atriði í tengslum við kynþroska, kynlíf og kynheilbrigði.

Myndin af mér er leikin mynd í fjórum þáttum sem hentar vel til fræðslu fyrir nemendur í 7.–10. bekk. Myndin fjallar um stafrænt kynferðisofbeldi og byggir á sannri sögu tveggja unglinga.

Útlitsdýrkun og líkamsvirðing er stutt myndband á ensku um útlitsdýrkun og áhrif þess á líkamsvirðingu.

Myndbönd frá RFSU

Hér má finna stutt teiknuð myndbönd á ensku sem unnin eru af sænsku kynfræðslusamtökunum RFSU. Myndböndin fjalla um blæðingar, kynsjúkdóma, typpið og kynþroskann og píkuna og kynþroskann.

Online grooming

Hér má finna myndband og fræðslu sem fjalla um hvað 'online grooming' snýst um.

Gott að hafa í huga

Mælt er með því að bjóða upp á fjölbreyttar kennsluaðferðir. Athugið að sum atriði eiga frekar við eldri stig grunnskóla.

 • Hópavinna/kynningar
 • Nota post it miða til dæmis í hugmyndavinnu.
 • Glærukynningar
 • Slido.com eða menti.com - hægt er að setja inn nafnlausar spurningar, orðaský og fleira.
 • Nýta tímarit, kvikmyndir, þætti og
  samfélagsmiðla - ræða til dæmis um pressuna í fjölmiðlum um að allir séu alltaf sexý, alltaf til í allt og allt sé svo frábært, en einnig óraunhæft og jafnvel skaðlegt.
 • Myndbönd / sýna myndbönd / leyfa nemendum að
  útbúa myndbönd
 • Teikningar - láta nemendur teikna, sauma út, smíða eða
  leira kynfæri. Leggja áherslu á að útlit kynfæra er mjög fjölbreytt.
 • Leyfa nemendum að útbúa efni á vef - til dæmis spurningar og svör eða skrifa stuttar greinar, blogg eða annað. 
 • Hafa hugmyndakassa / spurningakassa
 • Hafa orða  / hugtakakrukku, útskýra vel grunnhugtök og orð. Hægt er að láta nemendur draga úr krukku. Dæmi um orð gætu verið: samfarir, forleikur, gælur, sjálfsfróun, nánd. Í kjölfarið geta þau leitað sér upplýsinga, ræða saman og útskýra svo fyrir hinum eða skrifa niður og hengja upp á vegg.
 • Leyfa nemendum að búa til bæklinga, vefsíðu eða podcast.
 • Rökræður - velja viðfangsefni og skiptast á skoðunum um það til dæmis varðandi kynfærahár, klámáhorf eða smokkanotkun.
 • Taka viðtöl til dæmis við foreldra eða ömmu og afa um fyrstu ástina eða ástarsorgina, um kynþroskann, um kynfræðsluna sem þau fengu á sínum tíma. 
 • Fara í leiki
 • „kaffihúsaspjall“ – tabútímar. Hér er hægt að hafa nafnlausar spurningar.
 • Vinna með klípusögur
 • Kynna ýmiskonar verkefni eins og Sjúk ást.
 • Kynna vel úrræði svo sem 112.is kvensjúkdómalækna, Húð- og kynsjúkdómadeild, heilsugæslu, 1717 Hjálparsíma Rauða krossins, neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis í Fossvogi, Stígamót (er fyrir 18 ára og eldri en yngra fólk getur nýtt sér netaðstoð þeirra), Barnavernd og fleira.