Umbreyting borgar - verkefnasögur

Teikning sem lýsir notendamiðaðri þjónustu.

Undanfarin ár hefur Reykjavík markvisst stigið stór skref á stafrænni vegferð sinni. Markmiðið er að skapa borg þar sem „stafrænt bara er”. Borg þar sem stafræn nálgun er sjálfsögð og innbyggð í alla þjónustu borgarinnar.

Hér er hægt að skoða brot af því besta frá síðustu misserum. Verkefnin eru unnin í góðu samstarfi fjölda hagaðila, íbúa og starfsfólks borgarinnar. Þau eiga það sameiginlegt að tengjast þjónustu með einum eða öðrum hætti ásamt því að stuðla að nýsköpun og notendamiðaðri hugsun.

Hanna – stafrænt hönnunarkerfi

Nýr vefur Reykjavíkurborgar er fyrsta verkefnið sem byggir á stafrænu hönnunarkerfi borgarinnar – Hönnu. Hanna er eins konar handbók sem inniheldur leiðbeiningar um hönnun og ýmsar aðrar gagnlegar upplýsingar fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar.

 

Með hönnunarkerfi er hægt að bregðast hraðar við áskorunum í stafrænum heimi, tryggja samfellu í notendaupplifun og þjónusta borgarbúa betur. Kerfið inniheldur meðal annars letur, liti, myndastíl, rödd og hönnunareiningar með kóða svo hægt sé að búa til stafrænar vörur með samræmt útlit og þurfa ekki sífellt að hugsa allt frá grunni.  

Teikning af Hönnu dansandi.

Látum gögnin tala

Við skiljum mikilvægi þess að byggja ákvarðanir á traustum grunni og setja gögn fram á skýran hátt svo hægt sé að nýta þau sem best.

 

Þannig veitum við betri yfirsýn yfir þá þjónustu sem borgin veitir – íbúum og starfsfólki borgarinnar til gagns og gamans.

Teikning af fartölvu og tölfræðiskjali í samræðum.

Þjónustuborgin Reykjavík

Reykjavík er þjónustuborg. Okkar markmið er að veita framúrskarandi þjónustu á öllum sviðum.

 

Við leggjum áherslu á að leysa úr málum íbúa og starfsfólks á skjótan og öruggan máta og að upplýsingar um þjónustu borgarinnar séu aðgengilegar.

Teikning af fólki að veita og þiggja þjónustu.

Þýðingar

Aukinn kraftur hefur verið settur í þýðingar á stafrænu efni, enda mikilvægt að sá fjölbreytti hópur sem sækir vef borgarinnar geti fundið upplýsingar við hæfi.

 

Mikil vinna hefur farið í að byggja innviði og bæta flæði texta milli kerfa svo að fullnýta megi öflugan þýðingarhugbúnað óháð því hvar og hvernig efnið er birt á vefnum.

 

Auk þess hefur verið hugað að samræmingu orðalags í þýðingum, sem og stílbrögðum, og lagður grunnur að aukinni sjálfvirkni.

 

Nú er einnig komin í notkun gervigreindarlausn sem getur svarað spurningum notenda á þeirra eigin tungumáli.

Teiknuð mynd af börnum að tala saman á táknmáli.

Betri borg fyrir börn

Betri borg fyrir börn miðar að því að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi.  

Færa þjónustuna í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna, veita viðeigandi stuðning sem fyrst og þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í þjónustumiðstöð hverfisins.

Teikning af Fjólu fagna með öðrum krökkum

Aðgengilegir og upplýsandi vefir

Vefdeildin sinnir margs konar þjónustu og ráðgjöf á sviði vefþróunar í virku samstarfi við önnur svið borgarinnar.

 

Á þriðja hundrað vefsvæða eru í eigu borgarinnar en stefnan er að fækka þeim og færa innihald þeirra undir nýjan vef Reykjavíkurborgar svo auðveldara sé að huga að gæðum og öryggi þeirra.

 

Þá eru aðgengismál alltaf í brennidepli með áherslu á vefgreiningar og vélþýðingar.

Teikning af upplýstum fartölvuskjá.