Reykjavík.is
Ný útgáfa af reykjavik.is fór í loftið í byrjun árs 2022. Reykjavik.is er aðalvefur borgarinnar sem hefur það markmið að veita alhliða þjónustu og vera upplýsingavefur allra borgarbúa. Aukin áhersla er á aðgengilega sjálfsafgreiðslu og einfalda framsetningu upplýsinga byggða á hugmyndum um algilda hönnun.
Verkefnið
Verkefnið gekk út á að endurgera vef Reykjavíkurborgar frá grunni í samræmi við þjónustustefnu borgarinnar. Á síðasta ári var vefur Reykjavíkurborgar með tæplega tvær milljónir heimsókna sem gerir hann að einu fjölsóttasta vefsvæði landsins.
Verkefnið var unnið í víðtæku samráði við fjölda hagaðila og var frá upphafi lögð rík áhersla á einfaldleika, algilda hönnun, aðgengilega upplýsingagjöf og að hver síða vefsins gæti staðið ein og sér sem lendingarsíða sem svarar erindum notenda.
Skjáskot
Þjónustuhönnun
Hönnun vefsins byggir á hugmyndafræði notendamiðaðrar hönnunar með áherslu á samtal við notendur þjónustu á öllum stigum. Framsetning upplýsinga og viðmót var vandlega prófað áður en eiginleg smíði vefsins hófst.
Tekið var tillit til þarfa notenda og aðstæðna alls staðar. Í því samhengi voru þróaðar fullmótaðar erkitýpur byggðar á niðurstöðum notendarannsókna.
Með þessar erkitýpur í huga var allt efni vefsins flokkað upp á nýtt og síðan endurskrifað. Markmiðið var að auðvelda notendum að finna upplýsingar við hæfi, og að möguleg næstu skref notenda væru alltaf innan seilingar.
Mínar síður
Samhliða reykjavik.is voru settar upp nýjar Mínar síður. Mínar síður eru vefgátt með rafrænum umsóknum fyrir þau sem sækja þjónustu til Reykjavíkurborgar. Unnið er að því að rafvæða fleiri ferla og er núverandi útgáfa af Mínum síðum fyrsta útgáfa eða rammi utan um komandi verkefni.
Markmiðið er að bjóða upp á traustar og einfaldar Mínar síður sem eru í sama útliti og nýr vefur Reykjavíkurborgar. Notendur fái þannig saumlausa upplifun þegar þau fara á milli vefsins og Minna síðna, þó svo að ólík kerfi liggi að baki.
Efnisstjórn
Vefur Reykjavíkurborgar er yfirgripsmikill, telur fjölda undirsíða og þarf að höfða til margra mismunandi markhópa. Þá sér fjöldi starfsfólks um innsetningu efnis á vefinn og því var ljóst frá upphafi að mikil vinna færi í móta og skilgreina efnisstefnu og raddblæ fyrir vef borgarinnar.
Lagt var af stað í það gríðarstóra verkefni að endurskrifa allt innihald vefsins með það í huga að fara eftir reglum um framsetningu og tón úr glænýju hönnunarkerfi borgarinnar – Hönnu.
Tónn Reykjavíkurborgar fylgir eftirfarandi gildum:
-
Traustur
Notendur verða að geta treyst þeim upplýsingum sem vefurinn gefur upp. Að sama skapi þarf að gæta að því að málfar verði ekki of stofnanalegt, þurrt og torskilið. Fín lína, en mikilvæg. -
Vingjarnlegur
Allt sem við segjum og gerum í nafni borgarinnar er samtal sem við erum að eiga við íbúa hennar, notendur þjónustunnar sem við bjóðum upp á. Við sýnum þolinmæði í samskiptum og útskýrum hlutina á mannamáli, án þess þó að virka væmin eða yfirlætisfull. -
Litríkur
Sá hópur sem Reykjavíkurborg þjónustar er fjölbreyttur og litríkur. Þar er að finna ólíka einstaklinga úr ýmsum áttum, sem öll eiga skilið að geta sótt sér auðskiljanlegar upplýsingar við hæfi. Tónninn er því léttur og auðlesanlegur, án þess þó að fara út í óþarfa sprell.
Afrakstur efnisvinnunnar má sjá á reykjavik.is þar sem umbylting hefur orðið í framsetningu á efni frá því sem áður var. Gætt var að samræmi í málróm, tón og áferð alls efnis í hvívetna.
Þó er mikilvægt að hafa í huga að vefurinn er lifandi verkefni og verður því áfram unnið markvisst að því að breyta, bæta og ítra efnið þannig að það verði sem einfaldast og best.
Stafrænn stíll og ásýnd
Við þróun á stafrænni ásýnd Reykjavíkurborgar var merki borgarinnar einfaldað og nútímavætt meðal annars til að sóma sér betur á stafrænum miðlum.
Á vefnum er unnið út frá fimm mismunandi litaspjöldum sem byggð eru á gildum Reykjavíkur. Litaspjöldin eru á skalanum frá traustu yfir í litríkt og þar með er sköpuð samfella í öllu litavali í hönnun, formheimi og teikningum.
Við hönnunina var notast við 12 dálka grind sem er innblásin af klassískum fyrirmyndum úr borgarumhverfinu.
Myndskreytingar
Notaðar eru myndskreytingar til að gæða texta og efni lífi á vefnum. Fjölbreytni borgarinnar kemst vel til skila á tímalausan hátt í teikningum. Myndefnið er mannlegt og sýnir ýmis kennileiti og mannlíf í lifandi mynd. Stíllinn er handteiknaður, vingjarnlegur, litríkur, persónulegur og smá krúttaður.
Þá voru hönnuð stílhrein viðmótstákn sem leiða fólk í gegnum ferla. Þau eru aðgerðatakkar sem fólki er eðlislægt að nota án þess að taka eftir því að það sé verið að nota þá.