Aðgengilegir og upplýsandi vefir

Vefdeild borgarinnar er starfrækt innan Þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Hún sinnir margs konar þjónustu og ráðgjöf á sviði vefþróunar í virku samstarfi við önnur svið borgarinnar.

Reykjavík.is

Stærsta verkefni og flaggskip vefdeildarinnar er vafalaust reykjavik.is. Vefurinn er einn sá fjölsóttasti á landinu og hefur það markmið að veita alhliða þjónustu og vera upplýsingavefur allra borgarbúa.

Nýlega var vefurinn tekinn í gegn og ráðist í að endurhanna og -skrifa hann frá grunni í samræmi við þjónustustefnu borgarinnar og nýtt hönnunarkerfi sem unnið var samhliða. 

Vefurinn var unninn í víðtæku samráði við fjölda hagaðila og var frá upphafi lögð rík áhersla á einfaldleika, algilda hönnun og aðgengilega upplýsingagjöf.

Á þriðja hundrað vefsvæða eru í eigu borgarinnar en stefnan er að fækka þeim og færa innihald þeirra smám saman undir nýjan vef Reykjavíkurborgar svo auðveldara sé að huga að gæðum og öryggi þeirra.

 

Hanna – stafrænt hönnunarkerfi

Nýr vefur Reykjavíkurborgar er fyrsta verkefnið sem byggir á stafrænu hönnunarkerfi borgarinnar – Hönnu. Hanna er eins konar handbók sem inniheldur leiðbeiningar um hönnun og ýmsar aðrar gagnlegar upplýsingar fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar.

 

Með hönnunarkerfi er hægt að bregðast hraðar við áskorunum í stafrænum heimi, tryggja samfellu í notendaupplifun og þjónusta borgarbúa betur. Kerfið inniheldur meðal annars letur, liti, myndastíl, rödd og hönnunareiningar með kóða svo hægt sé að búa til stafrænar vörur með samræmt útlit og þurfa ekki sífellt að hugsa allt frá grunni.  

Þýðingar

Aukinn kraftur hefur verið settur í þýðingar á stafrænu efni, enda mikilvægt að sá fjölbreytti hópur sem sækir vef borgarinnar geti fundið upplýsingar við hæfi.

Mikil vinna hefur farið í að byggja innviði og bæta flæði texta milli kerfa svo að fullnýta megi öflugan þýðingarhugbúnað óháð því hvar og hvernig efnið er birt á vefnum.

Auk þess hefur verið hugað að samræmingu orðalags í þýðingum, sem og stílbrögðum, og lagður grunnur að aukinni sjálfvirkni.

Þá hefur spjallblaðran á vefsvæði Reykjavíkur verið þýdd á ensku og stefnt er að þýðingu á pólsku.

Vefgreiningar

Vefgreiningar- og gæðatólið Siteimprove hefur nú verið innleitt fyrir mun fleiri vefsvæði borgarinnar en áður.

 

Markmiðið er að bæta efnisleg gæði á vefsvæðum og einfalda vinnu við vefumsjón og -stýringu.

 

Með þessari viðbót er hægt að nálgast mælikvarða og vakta gæði vefsvæða, bæta aðgengismál og auðvelda leitarvélabestun og vefgreiningu. 

Skilvirkari þjónusta

Til að bæta þjónustu og auka skilvirkni var Jira þjónustugáttin frá Atlassian innleidd í samstarfi við upplýsingatækniþjónustu, sem hefur nýtt sér Jira beiðnakerfið í lengri tíma.

 

Vinna við að uppfæra þá ferla sem taka við þegar veftengdar beiðnir koma inn er yfirstandandi og er það markmið vefdeildar að beina framvegis öllum þjónustubeiðnum í gáttina. 

Vefmiðlun og efnisgerð

Vefdeild í samstarfi við samskiptateymi borgarinnar hefur undanfarið unnið að vörumerkjavísi og svokallaðri stílbók.

Stílbókinni er ætlað að samræma framsetningu á efni sem gefið er út af borginni. Þar er meðal annars farið yfir algengar villur, almennar ritreglur hjá borginni og hvernig fjallað er um viðkvæm málefni.

Þá veitir vefdeildin ráðgjöf í tengslum við framsetningu á efni á vef, bæði hvað varðar efnistök, aðgengi, læsileika og almennt útlit. Þetta er bæði gert með útgáfu fræðsluefnis, t.d. á Workplace, ráðgjöf og fræðslu á vettvangi vítt og breitt um borgarkerfið og aðstoð við uppsetningu á vefefni.

 

Græna planið

Græna planið er sóknaráætlun Reykjavíkurborgar og leggur línurnar í fjármálum, fjárfestingum og grænum lykilverkefnum til 10 ára.

 

Vefdeild kom að efnisgerð fyrir vef Græna plansins í samstarfi við atvinnu- og borgarþróunarteymið og hönnunarstofuna Kolofon.

 

Vefur Græna plansins sýnir skýrt gagnsemi stafræna hönnunarkerfisins Hönnu, og hvernig hægt að auðvelda og hraða vefþróun með notkun þess.  

Músíktilraunir

Nýr vefur Músíktilrauna fór í loftið 2021. Við þróun vefsins var innleiddur nýr efnissmiður í vefumsjónarkerfinu Wordpress sem mun nýtast áfram við þróun á fleiri vefsvæðum.

 

Mikið var unnið í efni og bakenda með það að markmiði að gera vefinn sjálfbærari til framtíðar. Stefnt er að því að uppfæra útlit vefsins í takt við aðrar tónlistarhátíðir sem markhópur Músíktilrauna tengir gjarnan við. 

Tónlistarkonan Kusk flytur lag á úrslitakvöldi Músíktilrauna 2022.

Ársskýrsla velferðarsviðs

Ársskýrsla velferðarsviðs er metnaðarfullt verkefni sem hægt væri að yfirfæra á fleiri svið borgarinnar.

 

Í stað þess að gefa út prentaða skýrslu er ársskýrsla velferðarsviðs vefsvæði, þar sem áherslan var lögð á myndræna framsetningu og einfaldleika alla leið.

 

Vefdeild kom að gerð, hönnun og framsetningu skýrslunnar í góðu samstarfi við ritstjórn frá velferðarsviði.