Látum gögnin tala

Við skiljum mikilvægi þess að byggja ákvarðanir á traustum grunni og setja gögn fram á skýran hátt svo hægt sé að nýta þau sem best.

Þannig veitum við betri yfirsýn yfir þá þjónustu sem borgin veitir – íbúum og starfsfólki borgarinnar til gagns og gamans.

Gagnaþjónusta

Gagnaþjónusta borgarinnar er starfrækt innan Þjónustu- og nýsköpunarsviðs og er okkar drifkraftur í hagnýtingu gagna til ákvarðanatöku og bættrar þjónustu. Þetta er gert með því að tryggja gæði, áreiðanleika og aðgengi borgarbúa og starfsfólks að réttum og áreiðanlegum gögnum og gagnagreiningum.  

Dæmi um afurðir eru:

  • tölfræðigreiningar og skýrslur 
  • þróun og innleiðing á líkönum 
  • smáforrit og mælaborð 
  • myndræn framsetning gagna 
  • og svo margt, margt fleira! 

Vöruhús gagna

Eitt af stærstu verkefnum Gagnaþjónustunnar er þróun og smíði vöruhúss gagna fyrir Reykjavíkurborg. Vöruhús gagna er stafrænn geymslustaður fyrir öll gögn Reykjavíkurborgar, þar sem hægt er að safna saman gögnum úr hinum ýmsu kerfum sem borgin nýtir.

 

Verkefnið byggir á gagnalónstækni og auðveldar mjög allt aðgengi að rekstrargögnum borgarinnar þar sem allt er nú á sama stað. Vöruhúsið hefur nú þegar verið tekið í notkun þó vinna við það haldi áfram næstu árin.

Gagnavinnslustöð

Gagnaþjónustan hefur unnið ötullega að því að koma upp gagnavinnslustöð fyrir borgina. Gagnavinnslustöðin er samræmt þróunar- og rekstrarumhverfi fyrir gögn sem keyrir í Azure skýinu. Þar fer fram forritun greiningarlausna, keyrsla þeirra og útgáfa, allt á einum og sama staðnum.

 

Þannig er hægt að vinna mælaborð, tölfræðilíkön, kortaöpp og fleiri mikilvægar lausnir sem gagnast bæði starfsfólki og íbúum borgarinnar beint. Gagnavinnslustöðin hefur nú þegar verið tekin í notkun og verður þróuð áfram á næstu árum.  

Smáforrit og mælaborð

Með því að setja gögn fram á skýran hátt í mælaborðum og smáforritum gerum við starfsfólki og íbúum borgarinnar kleift að fá innsýn í starfsemi og rekstur borgarinnar.

 

Þá styður þetta einnig við sprotasamfélagið með því að hvetja til hagnýtingu áreiðanlegra gagna í hinum ýmsu nýsköpunarlausnum.

Kosningakortaforrit

Hvar á ég að kjósa? Við erum með svarið! Kosningakortaforritið sýnir yfirlit yfir kjörstaði borgarinnar ásamt fjarlægð og bestun gönguleiðar út frá heimilisfangi. Sláðu inn heimilisfangið þitt og sjáðu nákvæmlega hvar þú átt að kjósa, í hvaða kjördeild, hvenær er opið og hversu löng gönguleiðin er. Það eina sem við getum ekki sagt þér er hvað þú átt að kjósa.

 

Smáforritið er unnið af gagnaþjónustunni. Reiknirit úr landupplýsingakerfi borgarinnar (LUKR) sér um útreikninga á leiðarbestun.

Sorphirðudagatal og grenndargámar

Reykjavíkurborg hefur nú tekið í notkun nýtt rafrænt sorphirðudagatal. Lausnin er einföld í notkun og gerir íbúum kleift að fletta upp hvenær næst verður hirt sorp við heimili með því að fletta upp heimilisfangi.

 

Lausnin inniheldur einnig kortaforrit sem sýnir stöðu grenndargáma næst heimili fólks.

Mælaborð velferðarþjónustu

Þetta mælaborð sýnir helstu tölur um þjónustu velferðarsviðs og auðveldar þannig starfsfólki og öðrum áhugasömum að fylgjast með stöðu og þróun velferðarmála í borginni.

  

Verkefnið var þróað í gagnavinnslustöðinni þar sem mikil áhersla var lögð á myndræna framsetningu. Þá er einfalt að hlaða niður efni af vefnum í formi mynda, Excel eða CSV.  

Borgarvaktin

Gagnaþjónustan vann að gerð mælaborðs borgarvaktarinnar. Hlutverk borgarvaktarinnar er að meta áhrif Covid-19 faraldursins og leggja grunn að frekari tillögugerð og aðgerðum til að sporna við þeim. Tillögunum er svo ýmist beint til borgarráðs, fagráða Reykjavíkurborgar, ríkis, sameiginlegs vettvangs sveitafélaga eða annarra aðila.

 

Borgarvaktin vinnur náið með hagsmunaaðilum við að fylgjast áhrifum stöðunnar á atvinnulíf, samfélag, lífskjör og húsnæðismarkað með sérstakri áherslu á börn og menntun þeirra, barnafjölskyldur, fatlað fólk, eldra fólk, atvinnulausa og viðkvæma hópa.  

Rauntímatölur sundlaugagesta

Vegna fjöldatakmarkana og lokana á tímum Covid varð skyndilega aukin þörf á því að hægt væri að sjá raunfjölda sundlaugagesta og meta rúmtak sundlauga á hverjum tíma.

 

Til að mæta þessari eftirspurn voru settar fram lifandi fjöldatölur sundlaugargesta á vefnum, en þannig gátu íbúar og starfsmenn sundlauga áætlað með einföldum hætti hvort pláss væri í lauginni hverju sinni.

Mælaborð fyrir atvinnu- og virknimiðlun

  • Atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar (AMV) er partur af átaksverkefninu „Hefjum störf“, en í því felst að það eigi að skapa 7.000 störf í samfélaginu. 
  • Mælaborðið inniheldur atvinnuleysistölur og tölur yfir fjárhagsaðstoð á landsvísu.
  • Þá er einnig að finna tölur yfir þær ráðningar sem atvinnu- og virknimiðlun heldur utan um, t.d. eftir kyni, ríkisfangi, aldri, atvinnugrein og fyrirtæki og þá styrki sem veittir eru.
  • Mælaborðið sýnir einnig ýmsar tölur í starfseminni, svo sem fjölda „snertinga“ við einstakling (tölvupóstur, símtal, viðtal, fundur, ráðning).

Mælaborð þjónustuvers

  • Viðamikið mælaborð sem gerir rekstur þjónustuversins gagnadrifinn með því að sýna helstu lykiltölur um starfsemi þess.
  • Mælaborðið er hannað fyrir starfsfólk þjónustuversins og stjórnendur fagsviða borgarinnar, en það veitir mikilvæga innsýn í þjónustur borgarinnar og þær áskoranir sem þar má finna.

Covid-19 mælaborð

  • Covid-19 mælaborðið sýndi hvernig áhrif Covid-19 faraldursins komu fram í borgarkerfinu.
  • Í mælaborðinu var meðal annars hægt að skoða fjöldatölur um sóttkví og einangrun og þróun þeirra talna í rauntíma.
  • Mælaborðið var mikið nýtt og auðveldaði mjög viðbrögð og stýringu mála, til dæmis með tilliti til fjöldatakmarkana.

Mælaborð fyrir eignasjóð

  • Eignasjóður heldur utan um eignir borgarinnar og fjármagnar allar framkvæmdir á vegum hennar.
  • Mælaborðið sýnir bókfærðan kostnað samhliða kostnaðaráætlun í eignasjóði.
  • Hægt er að sjá bókfærðan kostnað yfir tímabil, fyrir verkefnaklasa og niður á einstaka verkefni, ásamt tilsvarandi kostnaðaráætlun.
  • Þá er einnig hægt að skoða tilsvarandi útkomuspár fyrir hvert verkefni, verkefnaklasa og eignasjóð í heild sinni.

Kostnaðargreining sértækrar þjónustu

  • Umfangsmikið greiningarverkefni þar sem sértæk þjónusta skóla- og frístundasviðs (SFS) og velferðarsviðs (VEL) við einstaka börn var skoðuð.
  • Um var að ræða nákvæmar greiningar niður á skólahverfi, kyn og borgarhluta sem fól í sér snúna samkeyrslu gagna frá SFS, VEL og Þjóðskrá.
  • Vegna eðlis verkefnisins var afar mikilvægt að setja persónuverndarsjónarmið í fyrsta sæti og vanda alla meðhöndlun gagnanna.
  • Sérfræðiþekking gagnaþjónustunnar skipti hér miklu máli í því að leiða verkefnið til lykta.