Persónuvernd og stafrænt skólastarf

Teikning af skólahúsnæði í laginu eins og bók

Til að tryggja öryggi barna og unglinga þarf að vanda val á stafrænni tækni sem nýta á í skólastarfi. Reykjavíkurborg hefur sett sér persónuverndarstefnu byggða á persónuverndarlögum. 

Áður en stafræn tækni er tekin í notkun í skóla- og frístundastarfi fer fram viðamikið greiningarferli sem felur í sér meðal annars áhættugreiningu, vinnslusamninga, mat á áhrifum á persónuvernd. Skólastjóri ber ábyrgð á notkun stafrænnar tækni í skólastarfi ásamt því að sinna upplýsingaskyldu gagnvart foreldrum. 

Hversu lengi eru persónuupplýsingarnar geymdar?

Rétt er að benda á að hluti gagnanna kann að teljast skilaskyldur til Borgarskjalasafns Reykjavík þar sem borgin telst vera afhendingarskyldur aðili á grundvelli laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn.

 

Að öðru leyti verða upplýsingarnar vistaðar í Google skólaumhverfinu á meðan á námi nemanda stendur en verður eytt þremur mánuðum eftir að nemandi hefur klárað nám sitt hjá skólanum og skilað tölvunni til skólans.

Myndatökur og myndbirtingar

Nemandi skal fara að reglum skóla, Reykjavíkurborgar sem og landslögum hvað varðar myndatökur og myndbirtingar. Um myndatökur og myndbirtingar í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar gilda leiðbeiningar. 

 

Mikilvægt er að nemendur sjálfir séu ekki meginviðfangsefni myndefnisins heldur er myndvinnsla einungis heimil sem hluti af verkefnavinnu.

Námstæki og persónuvernd

Notkunarskilmálar

Foreldrar/forsjáraðilar samþykkja skilmála vegna láns nemenda á Chromebókum og fylgihlutum á Mínar síður. 

Hafið rafræn skilríki við höndina. 

Litið er svo á að nemendur samþykki einnig skilmálana við fyrstu innskráningu í Chromebókina. Samþykktin er forsenda þess að nemanda verði heimilt að fara með tækið heim. 

Í skilmálunum er meðal annars að finna þessi mikilvægu atriði:

  • Chromebókin er námstæki og ber fyrst og fremst að nýta til náms.
  • Nemanda ber ætíð að fara eftir fyrirmælum starfsfólks skóla varðandi notkun.
  • Mæta skal með tækið fullhlaðið og tilbúið til vinnu ef það fer með heim.
  • Fara skal vel með Chromebókina og flytja hana í tösku á milli staða. 
  • Aldrei á að neita matar eða drykkjar nálægt tækinu. 
  • Undir engum kringumstæðum má nota námstækið á ólöglegan hátt. Ekki má setja í það stolin forrit, forrit sem breyta stýrikerfi þess, eyða gögnum eða stillingum af námstækinu.
  • Nemendur skila Chromebókinni í lok skólaárs ásamt öðrum búnaði og fá hana afhenta aftur í skólabyrjun.

Chromebækur

Við notkun á chromebókum, hér eftir tæki, er unnið með persónuupplýsingar nemenda. Upplýsingarnar eru nauðsynlegar svo hægt sé að stofna notendareikning fyrir nemendur til þess að opna tækið og þann hugbúnað sem þeim fylgir. Þá er tækið sjálft merkt með fornafni nemanda. Grunnskóli barnsins telst vera ábyrgðaraðili þeirrar vinnslu sem notkun chromebókanna felur í sér samkvæmt ákvæðum laga um persónuvernd nr. 90/2018. 

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur aðstoðað grunnskóla borgarinnar við að setja upp chromebækurnar og leiðbeint þeim við að gera skipulagslegar öryggisráðstafanir þannig að öryggi persónuupplýsinga sé fullnægjandi. Þá hefur verið unnið áhættumat og mat á áhrifum á persónuvernd vegna þessarar vinnslu persónuupplýsinga. 

Persónuupplýsingar sem unnið er með:

  • Grunnupplýsingar um foreldra og nemandann, nafn og grunnskóli
  • Í tækinu er myndavél og hljóðnemi. Myndavélinni fylgir sleði sem lokar fyrir myndavélina. Almennt er slökkt á hljóðnemanum en hægt er að slökkva á honum handvirkt með því að fara í stillingar tækisins.
  • Almennt er staðsetningargögnum ekki safnað. Hægt er að rekja staðsetningu tækisins ef það týnist eða er stolið.

    Einnig er hægt er að skoða hvaða notandi skráði sig síðast inn í spjaldtölvu og á hvaða IP-tölu. Ef tæki týnist eða því er stolið er því læst og upplýsingum eytt af tækinu innan tiltekins tímafrests.
  • Ekki er unnið með viðkvæmar persónuupplýsingar í tækjunum.

Hvaðan koma upplýsingarnar?

Upplýsingar vegna aðgangs að tækjunum koma frá gskóla aðgangi nemenda sem er búinn til af grunnskólanum út frá grunnupplýsingum nemenda sem skólinn hefur. Nemandi getur sjálfur sett persónuupplýsingar í tækið en kennarar munu brýna fyrir nemendum að setja ekki  persónuupplýsingar í tækið í samræmi við notkunarskilmála tækjanna og fræðslu til foreldra og nemenda.

Grunnupplýsingar um foreldra er aflað frá Mentor/Námfús til þess að afla staðfestingar foreldra á notkunarskilmálum á tækjunum.

Hvernig tryggjum við öryggi persónuupplýsinga?

Reykjavíkurborg og grunnskólinn gæta öryggis persónuupplýsinga með viðeigandi skipulagslegum og tæknilegum ráðstöfunum, þar á meðal með aðgangsstýringum.

Framangreind vinnsla persónuupplýsinga hefur farið í gegnum áhættumat og verið metin út frá áhrifum á persónuvernd.

Teitur Skúlason fyrrum lögfræðingur hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar fræðir okkur um persónuvernd varðandi nemendur.

Jöfn tækifæri til náms

Tilgangurinn með verkefninu er að tryggja að  nemendur fái jöfn tækifæri til náms og eigi þess kost að velja sér viðfangsefni og nálgun í eigin námi. Nemendur hafi lausn sem mætir þörfum þeirra og hafi aðgang að tæki sem auðveldar  samskipti við kennara og samnemendur ef aðgengi að skóla er takmarkað eða skóla er lokað. Jafnframt að gera nemendum kleift að taka þátt í skólastarfi þrátt fyrir veikindi. Jafnframt að Reykjavíkurborg geti uppfyllt lögbundnar skyldur sínar gagnvart hinum skráða um rétt til skólavistar.

Vinnsla upplýsinga

Tilgangurinn með notkun tækisins  er að fylgja eftir áherslum grunnskólalaga og Aðalnámskrár grunnskóla um að veita margvíslegar leiðir við öflun þekkingar með notkun tæknimiðla, upplýsingatækni og safna- og heimildavinnu. Grunnskólalög og Aðalnámskrá leggja sérstaka áherslu á inntak og skipulag náms í tilteknum greinum og er upplýsinga- og tæknimennt þar sérstaklega tilgreind. Jafnframt er tekið fram að nemendur skuli fá jöfn tækifæri til náms og eigi þess kost að velja sér viðfangsefni og nálgun í eigin námi. Nemendur hafi lausn sem mætir þörfum þeirra og hafi lausn sem auðveldar  samskipti við kennara og samnemendur ef aðgengi að skóla er takmarkað eða skóla er lokað. Jafnframt að gera nemendum kleift til að taka þátt í skólastarfi þrátt fyrir veikindi. Jafnframt að Reykjavíkurborg geti uppfyllt lögbundnar skyldur sínar gagnvart hinum skráða um rétt til skólavistar.

Lögmæti vinnslu persónuupplýsinga byggir á lagaskyldu sem hvílir á grunnskólanum samkvæmt ákvæðum grunnskólalaga nr. 91/2008 og ákvæðum Aðalnámskrár sem sett er á grundvelli laga um grunnskóla. Jafnframt er talið að vinnsla persónuupplýsinga í þessu tilfelli sé nauðsynleg við beitingu opinbers valds sem Reykjavíkurborg fer með  við val á leiðum til að veita kennslu til grunnskólanemenda.

Boðið verður upp á aðrar leiðir fyrir heimanám í tengslum við Chromebækurnar ef foreldrar vilja ekki að nemendur fari með tækin með sér heim.

Aðrir viðtakendur upplýsinganna eru þeir vinnsluaðilar sem sjá um að setja upp og reka þau kerfi sem nauðsynleg eru fyrir virkni tölvanna. Þar er um að ræða annars vegar Google og hins vegar Lightspeed en búið er að gera vinnslusamning við báða þessa aðila. Þá kann að vera að aðrir viðtakendur persónuupplýsinga eigi við þegar um er að ræða sérstakar hugbúnaðarlausnir/öpp sem chromebækurnar kunna að notast við en foreldrar munu fá fræðslu um alla slíka hugbúnaðarnotkun þegar að því kemur.

Persónuupplýsingum barna verður ekki miðlað utan Evrópu við notkun chromebókanna.

Andmæli vinnslu persónuupplýsinga

Þér er almennt heimilt að andmæla þessari vinnslu persónuupplýsinga.

Ef þú andmælir vinnslu má grunnskólinn ekki vinna persónuupplýsingarnar frekar, nema hann geti sýnt fram á mikilvægar lögmætar ástæður fyrir vinnslunni sem ganga framar hagsmunum, réttindum og frelsi þínu.

Miðlun persónuupplýsinga til þriðja aðila

Að tilgreindum tíma liðnum kann Reykjavíkurborg að þurfa að afhenda Borgarskjalasafni hluta gagnanna.

Aðrir viðtakendur upplýsinganna eru þeir vinnsluaðilar sem sjá um að setja upp og reka þau kerfi sem nauðsynleg eru fyrir virkni tækjanna. Þar er um að ræða annars vegar Google og hins vegar Lightspeed en búið er að gera vinnslusamning við báða þessa aðila. Þá kann að vera að aðrir viðtakendur persónuupplýsinga eigi við þegar um er að ræða sérstakar hugbúnaðarlausnir/öpp sem chromebækurnar kunna að notast við en foreldrar munu fá fræðslu um alla slíka hugbúnaðarnotkun þegar að því kemur.

Réttindi þín

Nemendur og foreldrar kunna að eiga rétt til þess að fá aðgang að þeim persónuupplýsingum sem Reykjavíkurborg og grunnskólinn vinnur með á tækjunum. Þá kunna nemendur og foreldrar að eiga rétt til að andmæla vinnslunni, fá upplýsingarnar leiðréttar, krefjast þess að þeim verði eytt, að vinnslan verði takmörkuð og/eða að þú eða þriðji aðili fáir upplýsingar afhentar á tölvulesanlegu formi.

Nánari upplýsingar um þessi réttindi þín má finna í persónuverndarstefnu Reykjavíkurborgar sem aðgengileg er á vefsíðu Reykjavíkurborgar.

Kvörtun yfir vinnslu

Sérstök athygli er vakin á því að sért þú ósátt/ur við meðferð Reykjavíkurborgar á persónuupplýsingum þínum getur þú ávallt haft samband við persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar persónuverndarfulltrui@reykjavik.is eða sent erindi til Persónuverndar.