Skapandi tækni

Sköpun gegnir lykilhlutverki í skóla- og frístundastarfi. Hún eflir og virkjar hugmyndaauðgi, sjálfstæða hugsun og fjölbreytta tjáningu. Tækni opnar dyr að nýjum námstækifærum og auðveldar aðlögun kennslu að þörfum hvers nemanda. Samspil sköpunar og tækni eykur áhuga og virkni, býr öll undir framtíðina og eflir hæfni til að leysa margvíslegar áskoranir.

Sköpunarsmiðjur

Sköpunarsmiðjur (e. Makerspace) byggja á þeirri hugmynd að ýta þurfi undir sköpun og margvíslega hæfni með stuðningi stafrænnar tækni, til að efla færni og þróa þekkingu sem dugar til að finna leiðir í flóknum tækniheimi nútímans

 

Smiðjurnar eru rými þar sem vinna má með sérhæfð verkfæri, eins og rafeindatækni, laserskera og þrívíddarprentara, og ýmsan efnivið, stafrænan og hefðbundinn

Búnaður í sköpunarsmiðju

Sköpunarsmiðjan (e. Makerspace) í Mixtúru er hönnuð út frá veruleika skóla- og frístundastarfs og er mikilvæg fyrirmynd um möguleika og framsækni. Þar má finna eftirfarandi búnað:

  • 3D prentarar
  • Fjölskerar 
  • Leiserskeri 
  • Leirprentari
  • Plastmótunarvél
  • CNC fræsari
  • Stafræn saumavél
  • Örtölvur og rafrásarbúnaður
  • STEAM bókasafn
  • Og margt fleira…

Skapandi skil

Fjölbreytni í nálgun og aðferðum í skólastarfi er einn grunnþáttur fagmennsku kennara þegar kemur að því að mæta öllum nemendum. 

 

Skapandi skil eru leið til að vekja áhuga nemenda, valdefla, auka þekkingu þeirra á mismunandi aðferðum og gefa þeim ríkuleg tækifæri til að velja leiðir til að sýna skilning og skila af sér verkefnum. Sköpun, sjálfsefling og félagsfærni leika þannig stórt hlutverk.  

 

Skapandi skil eru það þegar nemendur fá tækifæri til að nýta fjölbreyttar aðferðir, m.a. list- og verkgreina, í efnistökum og við úrvinnslu verkefna. Það þýðir að skapandi hugsun nemenda fær að njóta sín og ímyndunarafl þeirra og hugmyndir eru virkjaðar. Þetta getur bæði falið í sér að nemendur hafi frjálst val um úrvinnslu, en einnig að þeir eigi að ganga út frá ákveðinni aðferð, t.d. leikrænni tjáningu, en nýti skapandi hugsun sína, leikni og ímyndunarafl við efnistökin.

Þróunarverkefnið Mixið

Þróunarverkefnið um færanlegar sköpunar- og tæknismiðjur, fjölbreytta vinnu og skapandi skil hefur það að markmiði að styðja við hugarfar vaxtar, sköpunarhæfni og lausnamiðaða hugsun. Mikilvægt er að hafa í huga að hönnun, sköpun og stafræn tækni á ekki bara heima í sérstökum kennslustundum, heldur í öllu námi.

Mixtúra

Sköpunar- og tækniver skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur

 

Mixtúra er staðsett á Menntavísindasviði HÍ við Stakkahlíð, í stofu K-101 og K-104 í Kletti.

 

Opnunartími Búnaðarbankans:

Mánudagar frá kl. 13:30-15:00
Föstudagar frá kl. 9-11 og 13:30-15:00

Þú getur haft samband með tölvupósti: mixtura@reykjavik.is
Sími 411 7080