Myndatökur og myndbirtingar í skóla- og frístundastarfi

Leiðbeiningar þessar og fræðsla eiga við um hvers kyns myndatökur/myndbandstökur (hér eftir myndatökur) og myndbirtingar af börnum í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, skólahljómsveitum og í öðru starfi skóla- og frístundasviðs. Hver og einn starfsstaður er ábyrgðaraðili vegna persónuupplýsinga sem þar eru unnar.

Hægt er að sjá samskiptaupplýsingar leikskólagrunnskólafrístundamiðstöðva, þar undir heyra frístundaheimili og félagsmiðstöðvar og skólahljómsveita.

Í leiðbeiningunum er við það miðað að foreldri sé sá sem fer með forsjá barns samkvæmt barnalögum og að um hlutverk þeirra fari samkvæmt þeim lögum.

Leiðbeiningar

Varúð og nærgætni

Gæta skal varúðar og nærgætni við allar myndatökur og myndbirtingar af börnum í skóla- og frístundastarfi og að farið sé í hvívetna að persónuverndarlögum og upplýsingalögum nr. 140/2012. Áherslan á að vera á það sem börnin eru að fást við.

Virðing

Um allar myndatökur og myndbirtingar, hvort sem er á opnu eða læstu svæði, gildir sú regla að börn og ungmenni skulu aldrei sýnd á ögrandi, niðrandi eða óviðeigandi hátt, t.d. þannig að ekki séu teknar myndir af nöktum börnum eða börnum í viðkvæmum aðstæðum.

Nafn ekki tilgreint

Við birtingu myndefnis er ekki tilgreint nafn eða aðrar upplýsingar nema þegar um sérstakar aðstæður er að ræða, svo sem þegar barn vinnur til verðlauna eða kemur fram opinberlega fyrir hönd síns skóla.

Sjálfsákvörðunarréttur barna

Við allar myndatökur og myndbirtingar skal virða sjálfsákvörðunarrétt barna og ungmenna. Í því felst að taka þarf réttmætt tillit til viðhorfa þeirra í samræmi við aldur og þroska, s.s. með því að óska munnlegs samþykkis þeirra fyrir myndatöku og myndbirtingu hverju sinni.

Jafnræði

Í myndbirtingum skal þess gætt að jafnræði sé á milli kynja og að hlutfall stúlkna og drengja á myndum sé eins jafnt og kostur er

Góð vinnuregla er því að birta gjarnan hópmyndir af börnum og ungmennum úr skóla- og frístundastarfinu og leitast við að þær endurspegli margbreytileikann í barnahópnum, hvort sem um er að ræða myndir á opnu eða læstu vefsvæði

Nota skal tæki starfsstaðar

Öll myndataka af börnum í daglegu skóla- og frístundastarfi skal fara fram með tæki í eigu viðkomandi starfsstöðvar skóla- og frístundasviðs. Starfsfólki er óheimilt að taka ljósmyndir og/eða myndbönd af börnum á tæki í einkaeigu sinni.