Velferðarsvið

Velferðarsvið veitir fjölbreytta og metnaðarfulla velferðarþjónustu sem hefur það að meginmarkmiði að stuðla að auknum lífsgæðum íbúa Reykjavíkurborgar. Undir sviðið heyra 117 starfsstaðir, þar af 77 sem veita sólarhringsþjónustu.

Sviðsstjóri

Sviðsstjóri velferðarsviðs er Rannveig Einarsdóttir.

Velferðarstefna

Velferðarstefna Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarstjórn í júní 2021. Hún er rammi utan um metnaðarfulla velferðarþjónustu sem hefur það að markmiði að auka lífsgæði, stuðla að því að allir Reykvíkingar eigi kost á að lifa með reisn og tryggja að Reykjavík sé sannarlega fyrir okkur öll. Stefnan gildir til ársins 2030. Henni fylgir ítarleg aðgerðaáætlun fram til ársins 2025. 

Miðstöðvar

Miðstöðvar velferðarsviðs eru fjórar talsins í hverfum borgarinnar, en auk þess rekur sviðið rafræna þjónustumiðstöð. Í þeim er boðið upp á fjölbreyttan stuðning, ráðgjöf og þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur, veita sérfræðiþjónustu í leik- og grunnskólum og sinna verkefnum á sviði forvarna og félagsauðs. 

Þar er hægt að sækja um félagslega ráðgjöf og stuðning til virkni, fjárhagsaðstoð, sérstakan húsnæðisstuðning, heimaþjónustu og heimahjúkrun og margt fleira. Miðstöðvarnar reka búsetuúrræði fyrir fatlað fólk, félagsstarf fyrir fullorðna auk ýmissa sérverkefna sem taka mið af þörfum íbúa.

Barnavernd 

Barnavernd Reykjavíkur vinnur að því að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái viðeigandi stuðning. Barnaverndin rekur fjölbreytt heimili fyrir börn, veitir stuðning og ráðgjöf inn á heimili og sér um fósturráðstafanir í tímabundin, varanleg eða styrkt úrræði. Bakvakt er starfrækt alla daga utan skrifstofutíma. 

 • Sé barn í hættu skal ávallt hringja í 112
 • Erindi og fyrirspurnir má senda í tölvupósti á barnavernd@reykjavik.is
 • Tilkynningar er varða velferð barna má senda gegnum sérstaka tilkynningagátt
 • Sími Barnaverndar á skrifstofutíma er 411 9200

Tölfræði og frekari upplýsingar

 • Tölfræðivefur velferðarsviðs heldur utan um allar mánaðarlegar og árlegar lykiltölur í þjónustu sviðsins
 • Ársskýrslur velferðarsviðs innihalda fjölbreyttar upplýsingar um starfsemi og þjónustu sviðsins
 • Facebook-síða velferðarsviðs miðlar margvíslegum fréttum og tíðindum úr starfi sviðsins
 • Upplýsingafulltrúi velferðarsviðs er Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, s. 821 4241

Hafðu samband

 • Upplýsingar um stöðu einstaklingsmála og umsókna fást á miðstöðvum
 • Ábendingar er varða þjónustu velferðarsviðs má senda í gegnum sérstakan ábendingavef
 • Sími þjónustuvers Reykjavíkurborgar er 4 11 11 11

 

Gildi velferðarsviðs

Virðing

Við berum virðingu fyrir öllum þeim sem við eigum í samskiptum við. Við fögnum fjölbreytileika og komum fram við annað fólk eins og við viljum að komið sé fram við okkur.

Virkni

Við viljum að allir geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Við veitum einstaklingsmiðaða þjónustu og vinnum að því að efla frumkvæði og sjálfstæði borgarbúa og starfsfólks.

Velferð

Við erum leiðandi í umræðu um velferðarmál og lífsgæði borgarbúa og vinnum markvisst gegn fátækt. Við styrkjum fjölskyldur og einstaklinga með fræðslu, stuðningi, eftirfylgd og endurhæfingu þegar við á.

Skipurit velferðarsviðs

 

    

Skipurit velferðarsviðs