Sæborg

Leikskóli

Starhagi 11
107 Reykjavík

Ljósmynd af húsnæði leikskólans Sæborgar og hvítu grindverki.

Um leikskólann

Opnunartími Sæborgar er frá 7:45 til 16:30

Leikskólinn Sæborg tók til starfa árið 1993. Umhverfi leikskólans er heillandi með útsýni yfir sjóinn til Bessastaða og yfir Reykjanesið ásamt fjörunni í næsta nágrenni. Í fjöruna sækjum við efnivið til skrauts, upplifunar og listsköpunar. Grásleppuskúrarnir sem eru skammt undan hafa oft verið uppspretta hugmynda fyrir þemastarf en í Sæborg er lagt mikið upp úr slíku starfi. Sæborg er fjögurra deilda leikskóli þar sem 71 barn getur dvalið samtímis. Deildirnar heita: Garðar, Lambhóll, Suðurhlíð og Brúarendi. 

Leikskólastjóri er Hafdís Svansdóttir

Aðstoðarleikskólastjóri er Inga Jóna Hilmisdóttir

 

Viltu vita meira?

Í þessu örstutta myndbandi er stiklað á stóru um starfsemi leikskólans. 

Hugmyndafræði

Gildi Sæborgar eru sköpun, virðing, gleði og metnaður

 

Í Sæborg er unnið í anda Reggio Emilia hugmyndafræðinnar. Ein af megináherslunum er að gefa barninu færi á að nýta sér fleiri tjáningarleiðir en hafa tíðkast í hefðbundnu skólakerfi. Tjáning og sköpun eru virkir þættir í námi barnanna og hluti af daglegu lífi þeirra. Jafnframt er unnið með opinn og endurnýtanlegan efnivið og eru bæði foreldrar og börn virkir þátttakendur í því að afla þessa efniviðar. Í Sæborg er starfandi listasmiðjustjóri sem leiðir allt skapandi starf í leikskólanum. Listasmiðjan er hjarta leikskólans og tengist í allt starf og öll rými. Þar rannsaka börnin efnivið og viðfangsefni, leika með efnið og túlka þekkingu og tilfinningar sínar á skapandi hátt í ótal miðla.

Teikning af konu að kasta hlutum eins og sirkúslistamaður.

Leikskólastarf

Starfsáætlun

Hvað er framundan á Sæborg? Í starfsáætlun Sæborgar finnur þú meðal annars innra og ytra mat leikskólans fyrir síðasta ár, umbótaáætlun, leikskóladagatal og ótalmargt fleira. 

Skólanámskrá

Viltu vita meira um hugmyndafræði og daglegt starf Sæborgar? Í skólanámskrá Sæborgar finnur þú ítarlegar upplýsingar um hugmyndafræðilegar áherslur og stefnu skólans í leik, námi og starfi. 

Foreldrasamstarf

Við erum öll í þessu saman, enda er oft sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Í leikskólum borgarinnar er markvisst unnið að því að auka samráð við foreldra og styrkja aðkomu þeirra að leikskólastarfi.

 

Foreldrafélag og foreldraráð eru starfrækt í öllum leikskólum Reykjavíkurborgar. 

Miðstöð Sæborgar

Leikskólinn Sæborg tilheyrir Vesturmiðstöð. Vesturmiðstöð sinnir fjölbreyttri þjónustu við íbúa í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum og er alhliða upplýsingamiðlun um þjónustu borgarinnar. Þar er veitt velferðarþjónusta, skólaþjónusta við leik- og grunnskóla, daggæslu- og frístundaráðgjöf og ýmis önnur þjónusta.   

Farsæld barna

Ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna hafa tekið gildi. Markmiðið er að tryggja að börn og forsjáraðilar fái rétta aðstoð, á réttum tíma, frá réttum aðilum.

 Fjölskyldum og börnum sem þurfa snemmtækan stuðning er tryggður aðgangur að tengilið farsældar í nærumhverfi barnsins, svo sem í leikskóla eða grunnskóla. Tengiliður farsældar veitir upplýsingar og leiðbeiningar um þjónustu og stuðlar að því að börn og forsjáraðilar hafi aðgang að þjónustu án hindrana. 

Til að óska eftir samþættri þjónustu geta börn, ungmenni og forsjáraðilar haft samband við tengilið farsældar.

Tengiliður Sæborgar er: Helga Jónína Sigurjónsdóttir

Framkvæmdir

Fyrirhugað er að reisa viðbyggingu við leikskólann sem rúma mun 48 börn. Gert er ráð fyrir að starfsemi geti hafist í því húsnæði á árinu 2026. 

Athugið að áætlaðar dagsetningar um verklok geta breyst, þar sem þættir á borð við aðgengi að aðföngum, afleiðingar heimsfaraldurs og ófriðar á alþjóðavettvangi geta haft áhrif á framgang framkvæmda.  Ennfremur getur ráðningarstaða haft áhrif á tímasetningar varðandi inntöku barna.