Innritun í leikskóla

Þegar sótt er um í leikskóla vakna oft margar spurningar. Hvaða leikskóla á ég að velja? Hvernig sæki ég um? Hvernig er plássum úthlutað? Sótt er um rafrænt í gegnum Völu, en Reykjavíkurborg rekur hátt í 70 leikskóla í borginni.

Úthlutun

Úthlutun leikskólaplássa fyrir haustið 2024 hófst 2. apríl. Plássum er úthlutað í kennitöluröð, þar sem elstu börnin fá boð fyrst, í þá skóla sem foreldrar völdu í umsókninni.

Frétt um úthlutunina

Hvaða leikskóla get ég sótt um?

Þú getur sótt um í öllum leikskólum borgarinnar rafrænt. Ef þú ætlar að sækja um sjálfstætt starfandi leikskóla fyrir barnið þitt gerir þú það hjá skólanum sjálfum.

Til að geta fengið pláss í leikskóla á vegum Reykjavíkurborgar þarf lögheimili barns og föst búseta að vera í Reykjavík. Þá mega foreldrar ekki vera í vanskilum við skóla- og frístundasvið borgarinnar.

Hvaða dvalartíma er hægt að velja?

Þegar þú sækir um leikskóla þarftu að velja dvalartíma. Opnunartími borgarrekinna leikskóla er frá 7.30-16.30. Nokkrir leikskólar eru þó með opið til 17.00 og hægt að sækja um það sérstaklega. 

Hægt er að sækja um mismunandi tíma eftir dögum en þannig að dvalartími barna verði að hámarki 9 klukkustundir daglega og ekki fleiri en 42,5 stundir á viku. Meginþungi faglegs starfs í gegnum leik og viðfangsefni barna með íhlutun leikskólakennara fer fram milli kl. 8:30-14:00.

Hvað gerir leikskólana ólíka?

Hver leikskóli er sérstakur. Sumir leggja áherslu á samskipti, lestur eða ritmál, aðrir á stærðfræði, náttúru og umhverfismál. Leikskólarnir eru misstórir og fjöldi barna og deilda á leikskólum ólíkur. Hægt er að kynna sér starfsemi leikskóla borgarinnar á vefnum áður en sótt er um.

Hvenær er hægt að sækja um?

Þú getur sótt um í leikskóla um leið og barnið fæðist. Hversu snemma þú sækir um hefur ekki áhrif á hversu fljótt barnið fær pláss.

Börn eru skráð á biðlista í þeim skólum sem sótt er um þegar þau verða 6 mánaða. Plássum er svo úthlutað eftir kennitöluröð. Miðað er við að þau börn sem eru orðin 18 mánaða 1. september ár hvert fái boð í leikskóla það sama haust. Plássum er úthlutað fyrir haustið í mars, umsóknir sem berast eftir þann tíma eru afgreiddar síðar.

 

Hvernig virkar kennitöluröð?

Tekið er inn eftir aldri í leikskóla borgarinnar. Hér gildir kennitöluröð þeirra barna sem sækja um tiltekinn leikskóla, ekki „fyrstur kemur, fyrstur fær“.

 

Hvað þýðir það að velja leikskóla í fyrsta sæti?

Þegar plássum er úthlutað er reynt að taka val foreldra til greina. Aðstæður og ásókn í leikskóla eru samt mismunandi. Það getur haft áhrif á það hvort barn fái pláss í þeim leikskóla sem er í fyrsta vali. Við úthlutun byrja leikskólar á að bjóða þeim pláss sem völdu skólann í fyrsta val. Næst er boðið í annað val, svo þriðja og koll af kolli. Farið er eftir kennitöluröð þegar boðin eru pláss.

 

Hvar sé ég stöðuna á minni umsókn?

Þú getur séð allt sem tengist þinni umsókn inni á Völu. Þar finnur þú yfirlit yfir þínar umsóknir, getur séð stöðu þeirra og hvernig barn raðast á biðlista í leikskólum sem þú hefur sótt um.

Get ég breytt umsókn eftir að ég sæki um?

Já. Þú getur alltaf skráð þig inn á Völu og breytt umsókninni eða hætt við hana ef aðstæður breytast eða þú skiptir um skoðun.

Hvernig og hvenær er úthlutað?

Flestum plássum í leikskóla er úthlutað á tímabilinu mars-maí. Þá er yfirleitt orðið nokkuð ljóst hversu mörg pláss losna um haustið vegna flutninga á milli leikskóla og útskrifta elstu barna sem eru að byrja í grunnskóla. Þegar plássi er úthlutað færðu tölvupóst þar sem þú getur samþykkt eða hafnað plássinu.

Hvað gerist ef ég hafna plássi í leikskóla?

Ef þú hafnar plássi í þeim leikskóla sem þér er úthlutað þá ertu bara að hafna plássi í þeim leikskóla. Að hafna plássi hefur engin áhrif á stöðu barns á biðlistum annarra leikskóla sem þú sóttir um.

Kemst ég fyrr að ef ég sæki um í leikskóla með ungbarnadeild?

Nei. Það er innritað í leikskóla með ungbarnadeildir á sama hátt og í aðra skóla, eftir kennitöluröð.

Hvernig virka biðlistar?

Börn raðast á biðlista eftir aldri, ekki hvenær sótt er um. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er um að ræða einn stóran biðlista, heldur er hver leikskóli með sinn biðlista. Barn getur því verið ofar á biðlista í einum skóla en öðrum.

 

Þegar þú sækir um er barnið þitt skráð á biðlista í þeim leikskólum sem þú velur. Til að eiga möguleika á því að fá pláss í leikskóla verður barnið að vera á lista hjá þeim skóla.

 

Í Völu getur þú séð hvernig barnið þitt raðast á biðlista í leikskólum sem þú hefur sótt um. Við útreikning er tekið mið af aldri barnsins.

 

Athugið að biðlistinn getur breyst frá degi til dags eftir því sem fleiri umsóknir berast.

Hvernig virkar forgangur?

Í sérstökum tilfellum er hægt að sækja um forgang í leikskóla, til dæmis ef barn er orðið 5 ára, er með fötlun eða býr við alvarlegar heimilisaðstæður.

 

Ef umsókn um forgang er samþykkt fer barnið fram fyrir biðlistann. Í þeim tilfellum þegar fleiri en ein forgangsumsókn er á sama leikskóla er tekið inn eftir aldri.

 

Barn með forgang byrjar í fyrsta lagi í leikskóla 12 mánaða gamalt.

Þarftu aðstoð við að sækja um?

Komdu við í einhverri af þjónustumiðstöðvum borgarinnar eða í þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14.

Ertu með fleiri spurningar? Sendu okkur póst á innritun.leikskolar@reykjavik.is.