Innritun í leikskóla

""

Þú sækir um leikskólavist í almennum leikskólum borgarinnar rafrænt. Ef þú ætlar að sækja um sjálfstætt starfandi leikskóla fyrir barnið þitt gerir þú það hjá skólanum sjálfum. Athugið að skilyrði fyrir leikskóladvöl barns er að lögheimili þess og föst búseta sé í Reykjavík og að foreldrar séu ekki í vanskilum við skóla- og frístundasvið.

Þú sækir líka um breytingu á dvalartíma rafrænt.

Hvenær er hægt að sækja um leikskóla?

Börn eru skráð á biðlista við eins árs aldur og raðast á listann eftir aldri. Hægt er að sækja um leikskóla frá fæðingardegi barns.

Breyting á dvalartíma

Stundum breytast aðstæður – þess vegna getur þú sótt um breytingu á dvalartíma barnsins þíns.

Þú sækir um breytingu á dvalartíma rafrænt.

Athugaðu að breytingin miðast alltaf við 1. eða 15. hvers mánaðar og að uppsagnarfrestur fyrir leikskólapláss er einn mánuður.  

Tillit vegna umsóknar í leikskóla með lengri opnunartíma

Fimm leikskólar í borginni eru opnir til kl. 17.00, einn í hverju hverfi. Þetta eru leikskólarnir Hagaborg í Vesturbæ, Langholt í Laugardal, Bakkaborg í Breiðholti, Klettaborg í Grafarvogi og Heiðarborg í Árbæ. Hægt er að senda beiðni um að tekið sé tillit til aðstæðna vegna umsóknar í leikskóla með opnunartíma til kl. 17:00.

Hvernig virka biðlistar?

Börn raðast alltaf eftir kennitölu á biðlista, ekki eftir aldri umsókna. Samtals eru leikskólar Reykjavíkurborgar og sjálfstætt starfandi hátt í 90 talsins og því alltaf einhverjar hreyfingar á leikskólaplássum af ýmsum ástæðum. Biðlistinn í heild og staðan á einstökum leikskólum getur því breyst frá degi til dags.

Fyrir ofan almennan lista raðast börn með samþykktan forgang eftir kennitöluröð. Uppfylla þarf ákveðin skilyrði til að fá forgang og senda inn umsókn til skóla- og frístundasviðs. Leikskóladvöl barns með forgang hefst í fyrsta lagi við tólf mánaða aldur.

Hvernig er úthlutað?

Miðað er við að börn sem orðin eru 18 mánaða 1. september fái boð um vistun um leikskóladvöl sama haust. Þegar það markmið hefur náðst er yngri börnum boðið pláss, þeim elstu fyrst. Reykjavíkurborg rekur hátt í 70 leikskóla og auk þess eru 17 sjálfstætt starfandi leikskólar í borginni. Flestum leikskólaplássum er úthlutað þegar elstu börnin fara í grunnskóla. Úthlutun er þó alltaf í gangi að einhverju marki vegna flutninga til og frá borginni, flutninga barna milli leikskóla og vegna fjölgunar leikskólaplássa. Biðlistinn í heild og staðan á einstökum leikskólum getur því breyst frá degi til dags.

Reynt er af fremsta megni að fara að óskum foreldra um val á leikskólum. Biðlistar ganga mishratt eftir leikskólum og hverfum. Sum hverfi eru með fleiri leikskólapláss miðað við aldur og fjölda barna. Þess vegna er í sumum hverfum hægt að bjóða yngri börnum pláss en í öðrum. Vilji foreldrar/forsjáraðilar skoða möguleika á plássi fyrir barn sitt í öðrum leikskólum en sótt var um í, er bent á að hafa samband í gegnum netfangið innritun.leikskolar@reykjavik.is eða hringja í síma 411-1111.

Flutningur á milli leikskóla

Sótt er um flutning milli leikskóla borgarinnar rafrænt. Hafðu í huga að það þarf að sækja um flutning fyrir lok febrúar því flestum leikskólaplássum fyrir haustið er úthlutað í marsmánuði.   

Þarftu aðstoð við að sækja um?

Komdu við í einhverri af þjónustumiðstöðvum borgarinnar eða í þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14.

Fleiri spurningar? innritun.leikskolar@reykjavik.is