Menntastefna Reykjavíkur - látum draumana rætast

Framtíðarsýn

Í kraftmiklu skóla- og frístundastarfi öðlast börn og unglingar menntun og reynslu til að láta drauma sína rætast og hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag.

Tilgangur og áskoranir

Menntastefna Reykjavíkurborgar til 2030 leggur grunn að framsæknu skóla- og frístundastarfi sem byggir á styrkleikum íslensks samfélags. Um leið er henni ætlað að mæta þeim áskorunum er felast í stöðugum samfélags- og tæknibreytingum sem umbreyta uppeldisaðstæðum barna og hefðbundnum hugmyndum um menntun.

Menntastefnan hvetur okkur til að þróa skóla- og frístundastarf í skapandi lærdómssamfélag sem mætir þörfum 21. aldarinnar. Stefnan hverfist um börnin, þarfir þeirra og velferð í nútíð og framtíð en um leið valdeflingu starfsfólks og aukna fagmennsku í skóla- og frístundastarfi. Það er mikilvægt verkefni að tryggja jöfn tækifæri og aðgang barna að fjölbreyttu námi og starfi sem er í samræmi við áhuga þeirra og hæfileika. Á sama tíma þarf menntun að auka grundvallarþekkingu barna á samfélagi og náttúru og taka mið af niðurstöðum innlendra og erlendra rannsókna á gæðum menntunar.

Vefur Menntastefnu Reykjavíkur

Vefurinn menntastefna.is inniheldur mikið af gagnlegum upplýsingum fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi. Vefnum er skipt upp í 5 megin hluta, verkfærakista, um menntastefnu, gæðastarf, þróunarsjóð og starfsþróunarhluta. Í verkfærakistunni eru hundruð verkfæra sem geta nýst starfsfólki í skóla- og frístundastarfi.

Leiðarljós - barnið sem virkur þátttakandi

Menntastefnan byggir á grunnstefjum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að menntun barns skuli beinast að því að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess. Tilgangurinn er að búa börn undir að lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, gagnkvæmrar virðingar, mannréttinda og vinsemdar. Ríkur samhljómur er með mennta- stefnunni, aðalnámskrám leik- og grunnskóla og núgildandi stefnum skóla- og frístundasviðs og Reykjavíkurborgar.

Uppeldi og menntun barna og unglinga er samfélagslegt verkefni og á sér stað bæði með formlegum og óformlegum hætti. 

Með því að byggja á menningararfi samfélagsins og árangri á margvíslegum sviðum vísinda, fræða, lista, íþrótta, jafnréttis og forvarna er skapaður frjór jarðvegur fyrir framúrskarandi menntun í skóla- og frístundastarfi. Þar eru virkni barna og lýðræðisleg þátttaka í leik og starfi mikilvæg leiðarljós. Veita þarf börnum viðeigandi stuðning og byggja á styrkleikum þeirra og bakgrunni svo að þau geti haft áhrif á nám sitt, líðan og umhverfi. Stafræn tækni er nýtt í skóla- og frístundastarfi til að auðga menntun og veita börnum fjölbreytt tækifæri til sköpunar og tjáningar. Menntastefnan myndar umgjörð um menntun sem byggir á farsælu skóla- og frístundastarfi í borginni en tekur um leið framtíðinni opnum örmum og veitir nýrri tækni, þekkingu, hugmyndum og fjölbreytileika farveg.

Meginmarkmið

Meginmarkmið stefnunnar er að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs.

 

Unnið verður að því að öll börn hafi sterka sjálfsmynd, trú á eigin getu og nái árangri. Börnin lesi sér til gagns og gamans, afli sér þekkingar og öðlist skilning á samfélagi og náttúru. Þau sýni frumkvæði, skapandi og gagnrýna hugsun og tileinki sér heilbrigðan lífsstíl.

 

Menntastefnan byggir á fimm grundvallarþáttum: félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði.

Leiðarljós - Fagmennska og samstarf í öndvegi

Í skóla- og frístundastarfi borgarinnar starfar fram- sækið starfsfólk sem rýnir eigin starfsaðferðir, vinnur saman að sameiginlegum markmiðum og tileinkar sér nýja starfs- og kennsluhætti. Hlutverk starfsfólks skóla- og frístundasviðs er að koma til móts við þarfir barna og stuðla að alhliða þroska þeirra. Einnig að búa þau undir virka þátttöku í fjölmenningar- og fjölþjóðlegu lýðræðissamfélagi sem tekur örum breytingum. Í þessu samhengi skiptir miklu að virkja áhuga og ástríðu allra barna og unglinga en það hefur bein áhrif á árangur þeirra. Til þess að það takist þarf að styðja faglegt frumkvæði starfsfólks, veita því rík tækifæri til starfsþróunar og markvissa ráðgjöf og handleiðslu í starfi. Tryggja þarf að húsnæði og aðstaða til skóla- og frístundastarfs veiti fullnægjandi umgjörð um metnaðarfullt starf og stuðli að heilbrigði og vellíðan barna og starfsmanna.

Fjölskyldur barna í skóla- og frístundastarfi eru mikilvægir samstarfs- aðilar þeirra sem þar starfa og deila með þeim ábyrgð á menntun og uppeldi. 

Starfsfólk á frumkvæði að samstarfi við foreldra og vinnur að þróun leiða sem taka mið af ólíkum þörfum, menningu og reynslu barna og foreldra. Fjölbreytt og þverfaglegt samstarf innan starfsstaða, milli starfsstaða og við stofnanir og aðila í samfélaginu stuðlar að þróun menntunar.

Félagsfærni - Sterk sjálfsmynd og trú á eigin getu

Með félagsfærni er átt við hæfnina til að eiga árangursrík samskipti við aðra og viljann til hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag. Kapp er lagt á að börn öðlist færni í að starfa saman, setja sig í spor annarra og sýna öðrum góðvild og virðingu. Félagsfærni tengist meðal annars tilfinningalæsi, réttlætiskennd og leiðtogahæfni. Félagsfærni þroskast öðru fremur með þátttöku í virku, lýðræðislegu samstarfi þar sem börn fá tækifæri til að sýna hug sinn í verki og koma skoðunum sínum á framfæri. Þannig verður barnið virkur þátttakandi í mótun þess samfélags sem það tilheyrir.

Sjálfsefling - Sterk sjálfsmynd og trú á eigin getu

Sjálfsefling felur í sér að barnið öðlist trú á eigin getu, læri að þekkja styrkleika sína og veikleika ásamt því að setja sér markmið og fylgja þeim eftir. Sjálfsefling byggir á sjálfsaga og þrautseigju. Skýr og sterk sjálfsmynd hjálpar barninu að taka sjálfstæðar, ábyrgar ákvarðanir, takast á við mótlæti og lifa í sátt við aðra. Sjálfsstjórn og samskiptahæfni eru nátengd og hafa áhrif á sjálfstraust barna, líðan, námsárangur og árangur í lífinu.

Læsi - Þekking og skilningur á samfélagi og umhverfi

Með læsi er átt við þá hæfni að geta lesið, skilið, túlkað og unnið á gagnrýninn hátt með ritað mál, orð, tölur, myndir og tákn. Í víðtækri merkingu vísar hugtakið einnig til læsis á ólíka miðla, umhverfi, hegðun og aðstæður. Læsi er í eðli sínu félagslegt fyrirbæri og hefst með máluppeldi barna við fæðingu. Góð læsisfærni á íslensku er lykill að þekkingaröflun og skilningi á umhverfi og samfélagi.

Sköpun - Skapandi hugur og hönd

Sköpun er margslungið ferli sem í grunninn byggist á forvitni, skapandi og gagnrýnni hugsun en líka á þekkingu, frumkvæði og leikni. Sköpun nær flugi þar sem áskoranir eru fjölbreyttar, spurningar eru opnar, lausnir margar og áhersla er lögð á framkvæmdina og sýnileika hennar. Í gegnum sköpunarferlið verður til eitthvað sem hefur gildi fyrir barnið sjálft, næsta umhverfi og/eða samfélagið. 

Heilbrigði - Heilbrigði, lífstíll og vellíðan

Undir heilbrigði falla meðal annars lífs- og neysluvenjur, líkamleg færni, kynheilbrigði og andleg og félagsleg vellíðan. Hugmyndir um heilbrigði hafa þróast með aukinni þekkingu á samspili hugar og líkama, náttúrulegu og félagslegu umhverfi og áhrifum efna og fæðu. Í hnotskurn má segja að sá einstaklingur sé heilbrigður sem hefur tileinkað sér heilbrigðan lífsstíl og öðlast hæfni til að standa vörð um eigið heilbrigði. Vellíðan barns í daglegu lífi leggur grunninn að virkri þátttöku, aukinni færni og árangri í skóla- og frístundastarfi.