Að byrja í leikskóla

Að byrja í leikskóla markar upphaf skólagöngu barns og er því stór stund í lífi þess og foreldra.

Gagnkvæm virðing milli foreldra og starfsfólks leikskólans er forsenda þess að barninu líði vel og að það fái notið sín til fulls. Því er mikilvægt að strax myndist góð tengsl á milli leikskóla og heimilis.

Aðlögun í leikskóla

Hver leikskóli  ákveður í samráði við foreldra hvernig staðið skuli að aðlögun barnsins. Foreldrar gegna lykilhlutverki á aðlögunartíma þar sem þeir eru sérfræðingar í sínum börnum. Í upphafi leikskólagöngu er starfsemi leikskólans kynnt fyrir foreldrum, þar gefst foreldrum tækifæri til að ræða barnið og bakgrunn þess, styrkleika og skapgerð, uppáhaldsleikföng, bækur, tónlist eða leikfélaga, fjölskyldugerð, móðurmál eða annað sem foreldrar telja mikilvægt. Í sumum tilfellum er aðeins eitt barn í aðlögun í barnahópnum en oft er hópur barna tekinn inn í leikskólann á sama tíma. Stundum lengist viðveran dag frá degi en í öðrum tilfellum er gert ráð fyrir nærveru foreldra á föstum tímum.  

Sumir leikskólar halda kynningarfundi fyrir foreldra þegar leikskólaganga barnanna hefst. Aðrir leikskólar bjóða upp á foreldraviðtöl og enn aðrir bjóða bæði upp á bæði kynningarfundi og viðtöl.

Hvað gerir leikskólana ólíka?

Ef þú vilt fræðast meira um áherslur einstakra leikskóla bendum við þér á að heimsækja heimasíðu hans. Lista yfir alla leikskólana í Reykjavík finnur þú hér. 

""

Matur í leikskóla

Í leikskólanum fá börn morgunmat, hádegismat og síðdegishressingu. Áhersla er lögð á hollan mat sem uppfyllir hollustuviðmið Landlæknisembættisins. Ef barn getur ekki borðað einhvern mat vegna mataróþols, ofnæmis eða af trúarlegum ástæðum er mikilvægt að upplýsa leikskólastarfsfólk um það. 

Við undirritun dvalarsamnings á leikskóla staðfestir foreldri við leikskólastjóra hvaða máltíðir eru innifaldar í leikskólagjöldunum. 

Fjölmenningarlegt leikskólastarf

Mörg börn í leikskólum borgarinnar eru af erlendum uppruna. Þessi fjölbreytileiki er dýrmætur þar sem framlag barna og foreldra af erlendum uppruna auðgar starf leikskólans og skapar tækifæri til þess að kynnast margbreytileika menningar og tungumála. 

Í leikskólanum er lagður grunnur að íslenskukunnáttu barna með annað móðurmál en um leið er mikilvægt að styðja foreldra þeirra og hvetja þá til að nota og viðhalda móðurmáli sínu. Samtökin móðurmál styðja við foreldra og eru með móðurmálskennslu í ýmsum tungumálum fyrir ung börn.