Gjöld og niðurgreiðslur

Reykjavíkurborg niðurgreiðir gjöld fyrir leikskóladvöl. Þú greiðir í hlutfalli við þann tíma sem barnið þitt dvelur á leikskólanum daglega sem og hluta kostnaðar við máltíðir.

Greiðslur leikskólagjalda

Leikskólagjöld eru greidd samkvæmt gjaldskrá. Þau eru innheimt fyrirfram með kröfu í netbanka. Gjalddagi leikskólagjalda er 1. hvers mánaðar og eindagi 30 dögum síðar. 

Leikskólinn lokaður

Leikskólagjöld greiðast ellefu mánuði á ári. Ef leikskóla barns þíns er einhverra hluta vegna lokað í lengri tíma eru leikskólagjöld ekki innheimt fyrir þann tíma. 

Afsláttur á leikskólagjaldi

Námsmönnum, einstæðum foreldrum, öryrkjum og starfsfólki leikskóla Reykjavíkurborgar er veittur afsláttur af leikskólagjaldi. Einnig er veittur afsláttur vegna veikinda barns og ef tvö systkin eða fleiri eru í leikskóla í borginni. Afslátturinn á einnig við um sjálfstætt starfandi leikskóla. 

""

Hvað gerist ef ég greiði ekki leikskólagjöldin?

Innheimtuferli vegna vanskila er samkvæmt innheimtureglum Reykjavíkurborgar. Séu leikskólagjöld enn ógreidd tíu dögum eftir eindaga fær greiðandi sent ítrekunarbréf . Hafi krafa ekki verið greidd 50 dögum eftir gjalddaga er hún færð í milliinnheimtu. Þegar krafa hefur verið send innheimtufyrirtæki er hægt að semja um skuldina þar. Krafa sem ekki innheimtist í milliinnheimtu fer í löginnheimtu 120 dögum frá gjalddaga.

Auk dráttarvaxta sem reiknast af höfuðstól kröfu frá gjalddaga fram að greiðsludegi, sé krafa greidd eftir eindaga, bætist við kostnaður á greiðanda vegna útsendingu ítrekunarbréfa og innheimtu.

Uppsögn leikskóladvalar

Reykjavíkurborgar áskilur sér rétt til þess að segja upp dvalarsamningi barna foreldra hafi greiðsla ekki borist 110 dögum frá gjalddaga. Gildir þá einu þó að skuldin sé ekki vegna viðkomandi barns uppfylli krafan framangreint skilyrði, það er sé eldri en 110 daga eða ekki hefur verið staðið við greiðslusamkomulag. Uppsögn miðast við mánaðamót og er uppsagnarfrestur einn mánuður.

Komi til þess að barn sem hafið hefur leikskólagöngu nýti ekki leikskólapláss í tvo mánuði er heimilt að segja upp dvalarsamningi barnsins. Uppsögn miðast við 1. eða 15. hvers mánaðar og er uppsagnarfrestur einn mánuður.

Viltu frekar fá greiðsluseðil?

Gjalddagi leikskólagjalda er 1. hvers mánaðar og eindagi 30 dögum síðar. 

Ef þú vilt frekar fá sendan greiðsluseðil hafðu samband við þjónustuver Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14 eða í síma 411 1111.