Fjölmenning í skóla- og frístundastarfi
Leiðarljós í fjölmenningarlegu skóla- og frístundastarfi er að öll börn og ungmenni nái árangri í námi og leik, standi vel að vígi félagslega og fái jöfn tækifæri til að vera stolt af bakgrunni sínum og menningu.
Í leik, námi og frístundum berum við virðingu fyrir hvert öðru, allir eru með á sínum forsendum og við erum fordómalaus í samskiptum.
Leikskólinn
Fjöltyngd börn á Íslandi eiga það sameiginlegt að búa við fleiri en eitt tungumál, annars vegar innan heimilisins og hins vegar sem hluti af íslensku málumhverfi í samfélagi og skóla. Stundum er notað hugtakið heimamál til að vísa í þau tungumál sem notuð eru á heimilinu og skólamál til að vísa í íslenskuna sem er notuð í skólanum. Á fyrsta skólastiginu er lagður grunnur að íslenskukunnáttu barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn en um leið er mikilvægt að foreldrar fái stuðning til þess að nota og viðhalda heimamáli og virða menningarlegan uppruna sinn. Í leikskóla er menntun samofin öllu daglegu starfi en eitt af meginhlutverkum leikskólans er að móta heildstætt námsumhverfi þar sem hæfileikar barna til samskipta eru ræktaðir, veitt er skipulögð málörvun og stuðlað að eðlilegri færni í íslensku.
Grunnskólinn
Börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn eiga rétt á kennslu við sitt hæfi þar sem nám á að gera ráð fyrir að allir nemendur geti stundað alhliða nám í íslensku skólastarfi með jafnöldrum sínum og tekið virkan þátt í samfélaginu. Mikilvægt er að tengja námið við fyrri þekkingu og reynslu og gefa nemendum tækifæri til að nýta kunnáttu í öðrum tungumálum. Jafnframt er mikilvægt að skapa jákvætt, öruggt og hvetjandi námsumhverfi þar sem öll börn tilheyra. Menningarmiðuð áhersla í skólastarfi styður við félagslega vellíðan, dregur úr fordómum og eflir lýðræðislega þátttöku allra.
Frístundastarf
Frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og frístundaklúbbar gegna mikilvægu hlutverki í lífi barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Þar gefst þeim tækifæri til að þjálfa tungumálahæfni, efla félagstengsl, styrkja sjálfsmynd og kynnast íslensku samfélagi í gegnum leik og samveru. Markvisst frístundastarf og meðvitað starfsfólk getur stutt við fjölbreyttar þarfir barnahópsins af næmni, virðingu og fagmennsku.
Heimurinn er hér
Heimurinn er hér er stefna um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf og í henni eru þrjár meginstoðir
- Fjölbreyttir kennslu- og starfshættir
- Íslenska sem annað mál og virkt tvítyngi
- Foreldrasamstarf
- Meira um stefnuna Heimurinn er hér
Hátíðir og tyllidagar
Hátíðir og tyllidagar eru margvíslegir og mikilvægt að hafa í huga að íslenskir siðir eru lærðir.
Hér er að finna upplýsingar á fjölmörgum tungumálum um helstu daga og hátíðir sem Íslendingar halda upp á.
Útivistartími barna
Útivistartími barna og unglinga er samkvæmt barnaverndarlögum og segir til um hvað börn mega vera lengi úti.
Foreldrar geta að sjálfsögðu sett sínar eigin reglur innan ramma útivistarreglna.