Leikskólastarfið

Hver leikskóli er sérstakur. Sumir leggja áherslu á samskipti, lestur eða ritmál, aðrir á stærðfræði, náttúru og umhverfismál. Hér finnur þú upplýsingar um daglegt starf leikskólanna og ýmis hagnýt mál eins og flutning milli skóla og breytingu á vistunartíma.

Opnunartími leikskóla

Borgarreknir leikskólar eru opnir frá 7:30-16:30. Fimm leikskólar eru opnir til kl. 17:00, einn í hverju hverfi. Þetta eru leikskólarnir Hagaborg í Vesturbæ, Langholt í Laugardal, Bakkaborg í Breiðholti, Klettaborg í Grafarvogi og Heiðarborg í Árbæ. Hægt er sækja sérstaklega um að tekið sé tillit til aðstæðna vegna umsóknar í leikskóla með opnunartíma til kl. 17:00.

Breyting á dvalartíma í leikskóla

Stundum breytast aðstæður – þess vegna getur þú sótt um breytingu á dvalartíma barnsins þíns. Þú sækir um breytingu á dvalartíma í Völu. Athugaðu að breytingin miðast alltaf við 1. eða 15. hvers mánaðar og að uppsagnarfrestur fyrir leikskólapláss er einn mánuður.

Foreldrasamstarf í leikskóla

Markvisst er unnið að því að auka samráð við foreldra og styrkja aðkomu þeirra að leikskólastarfi. Foreldrafélag og foreldraráð eru starfrækt í öllum leikskólum Reykjavíkurborgar.

Flutningur á milli leikskóla

Sótt er um flutning á milli leikskóla borgarinnar rafrænt. Hafðu í huga að best er að sækja um flutning fyrir lok febrúar því flestum leikskólaplássum fyrir haustið er úthlutað í mars.

Staða á biðlista ef barn fær pláss í sjálfstætt starfandi leikskóla

Um leið og barn byrjar í sjálfstætt starfandi leikskóla dettur það af biðlista hjá borginni. Ef þú vilt halda áfram að vera á biðlista hjá borginni þarft þú að sækja um flutning.

Ungbarnadeildir

Í nokkrum leikskólum borgarinnar eru ungbarnadeildir sem sérhæfa sig í menntun barna á öðru ári. Þeir eru með betri aðstæður fyrir umönnun yngstu leikskólabarnanna, til dæmis hita í gólfum, betri skiptiaðstöðu og afmarkað leiksvæði. Það er innritað í leikskóla með ungbarnadeildir á sama hátt og í aðra skóla, eftir kennitöluröð.

Matur í leikskólum

  • Í leikskólanum fá börn morgunmat, hádegismat og síðdegishressingu. Börnin þurfa því alla jafna ekki að koma með nesti. Sumir leikskólar birta matseðil hvers dags í Völu appinu.
  • Ef barn getur ekki borðað einhvern mat vegna mataróþols, ofnæmis eða af trúarlegum ástæðum er mikilvægt að upplýsa leikskólastarfsfólk um það.
  • Við undirritun dvalarsamnings í leikskóla staðfestir foreldri við leikskólastjóra hvaða máltíðir eru innifaldar í leikskólagjöldunum.

Stuðningur

Börn geta fengið sérstakan stuðning eða sérkennslu í leikskólum eftir mat frá sérfræðingi eða greiningaraðila. Meginmarkmið sérkennslu er að tryggja jöfn réttindi barna í leikskólastarfinu, óháð líkamlegri og andlegri getu.

Fjölmenningarlegt leikskólastarf

Mörg börn í leikskólum borgarinnar eru af erlendum uppruna. Þessi fjölbreytileiki er dýrmætur þar sem framlag barna og foreldra af erlendum uppruna auðgar starf leikskólans og skapar tækifæri til þess að kynnast margbreytileika menningar og tungumála.

Getum við aðstoðað?

Þarftu frekari aðstoð eða fannstu ekki það sem þú varst að leita að? Þjónustuver borgarinnar getur aðstoðað þig í síma 411 1111, á netspjalli og í gegnum netfangið innritun.leikskolar@reykjavik.is.