Regnbogavottun Reykjavíkur

Allir starfsstaðir Reykjavíkurborgar geta fengið regnbogavottun. Markmiðið með Regnbogavottun Reykjavíkurborgar er að gera starfsemi Reykjavíkurborgar hinseginvænni, bæði fyrir starfsfólk og þjónustuþega og þannig koma í veg fyrir beina og óbeina mismunun í garð hinsegin fólks. 

Vottunarferlið

Starfsstaðir hafa samband og óska eftir að hefja Regnbogavottunarferlið, en allt starfsfólk þarf að taka þátt. Það þarf að tilnefna tengilið/ábyrgðaraðila fyrir Regnbogavottuninni, en sá aðili má koma úr hópi stjórnenda eða starfsfólks. 

Ferlið felur í sér:

  1. Spurningalista um starfsstaðinn
  2. 4.5 klst. fræðslu fyrir allt starfsfólk um hinsegin málefni. Fræðslunni má skipta upp í nokkur skipti eða taka alla í einu.
  3. Úttekt á starfsumhverfinu, útgefnu efni o.fl. eftir atvikum
  4. Að starfsfólk útbúi aðgerðaáætlun fyrir starfsstaðinn í hinsegin málum, áætlunina skal uppfæra á árs fresti og skila inn.
  5. Fána, lógó og plakat (þegar starfsstaður öðlast regnbogavottun) og endurgjöf.

Mikilvægt er að starfshópurinn sé upplýstur um að hann sé að fara í vottunarferlið og tilgang þess. Til þess að viðhalda regnbogavottuninni þarf starfsstaðurinn að fá a.m.k. 1.5 klst. upprifjunarfræðslu innan þriggja ára frá síðustu fræðslu, en það má ávallt óska eftir frekari fræðslu eins og þörf krefur.

Hlutverk starfsfólks

Árangurinn af regnbogavottuninni hvílir á starfsfólkinu sjálfu. Það er þeirra verkefni að taka fræðsluna, upplýsingarnar og efnið og tengja það við starfsemi sína til þess að skapa hinseginvænni starfsstað og þjónustu. Stjórnendur eru ávallt leiðandi í þessari vinnu, en það þarf einnig að tilnefna starfsmann sem ber sérstaka ábyrgð á hinsegin málefnum á starfsstaðnum og er tengiliður við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. Allt starfsfólk ber þó sameiginlega ábyrgð á því að tryggja hinseginvænni starfsstað og þjónustu. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa er ávallt reiðubúin til að aðstoða og veita ráðgjöf.

Fræðsla

Fræðslan er þungamiðjan í Regnbogavottuninni en hún byggir á ýmsum skemmtilegum verkefnum um hinseginleika og beinist einnig að því að skoða með hvaða hætti hver og einn vinnustaður geti verið hinseginvænni. Fræðslan er útbúin til að henta þeirri starfsemi sem um ræðir á hverjum stað fyrir sig. Í heildina eru þetta 4.5 klst af fræðslu sem allt starfsfólk situr. Framkvæmd fræðslunnar er hins vegar útfærsluatriði enda er starfsemi vinnustaða Reykjavíkurborgar ólík. Fyrir suma hentar að dreifa fræðslunni niður á nokkur skipti, fyrir aðra hentar að taka alla fræðsluna (4.5. klst) t.d. á starfsdegi.

Viltu taka þátt?

Hægt er að fá frekari upplýsingar og óska eftir því að taka þátt með því að hafa samband við hinsegin@reykjavik.is.

Fjölbreyttur bakgrunnur hefur jákvæð áhrif

Starfsmannahópur stofnana og fyrirtækja sem samanstendur af einstaklingum úr ólíkum áttum og með fjölbreyttan bakgrunn hefur jákvæð áhrif á reksturinn og þjónustuna, enda koma þannig fleiri og ólík sjónarhorn að borðinu. Þetta gerist þó einungis ef starfsfólk upplifir öryggi og virðingu í starfi. Slíkt er tryggt t.d. með jafnréttis- og mannréttindastefnum, en þær hafa almennt góð áhrif á starfsfólk og leiða af sér nýsköpun og bætta frammistöðu. Til að gera enn betur þarf að sjá til þess að stefnurnar séu virkar, þ.e. að þeim sé framfylgt, að þeim fylgja aðgerðir og að starfsfólki er almennt upplýst um þær og áhrif þeirra. Regnbogavottun Reykjavíkurborgar er dæmi um aðgerð byggð á mannréttindastefnu.

Regnbogavottaðir starfsstaðir

Hér getur þú skoðað hvaða starfsstaðir hafa þegar hlotið Regnbogavottun Reykjavíkurborgar.

Hinsegin málefni

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar.

Ef þú ert með spurningar um hinsegin málefni hjá Reykjavíkurborg, þ.m.t. um regnbogavottunina getur þú sent tölvupóst á hinsegin@reykjavik.is