Afsláttur af leikskólagjaldi

Umsókn um afslátt af leikskólagjaldi fer fram í gegnum Völu þegar barn er byrjað í leikskóla. Hægt er að sækja um afslátt vegna ýmissa ástæðna. Athugið að til að geta sótt um þarf umsækjandi að vera með sama lögheimili og barnið. Afslátturinn á einnig við um sjálfstætt starfandi leikskóla og dagforeldra.
Á ég rétt á afslætti af leikskólagjaldi?
Þú gætir átt rétt á afslætti fyrir barnið þitt ef
- Báðir foreldrar (giftir eða í sambúð) eru í fullu námi.
- Þú ert einstætt foreldri.
- Þú ert öryrki eða á endurhæfingarlífeyri TR.
- Þú vinnur í leikskóla á vegum Reykjavíkur í meira en 50% starfshlutfalli.
- Þú átt tvö eða fleiri börn í leikskóla í borginni. Þennan afslátt þarf ekki að sækja um því hann reiknast sjálfkrafa.
- Barnið þitt getur ekki mætt í leikskólann vegna langvarandi veikinda.
Þarf að endurnýja umsóknina?
Umsóknir um afslátt þarf að endurnýja reglulega, oftast í ágúst á hverju ári. Upplýsingapóstar varðandi afslætti eru sendir tvisvar á ári.
Þau sem hafa fengið samþykkta umsókn um afslátt af leikskólagjöldum greiða samkvæmt gjaldflokki II í gjaldskrá leikskólanna.
Systkinaafsláttur
Systkinaafsláttur reiknast sjálfkrafa fyrir börn sem eiga sama lögheimili. Þessi afsláttur gildir þvert á þjónustu leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Systkinaafsláttur af dvalargjaldi er 100% fyrir hvert barn umfram eitt. Systkinaafsláttur af fæði er 100% hjá börnum umfram tvö.
Veikindaafsláttur
Ef barnið þitt er veikt í fjórar vikur samfellt eða lengur getur þú sótt um allt að 50% afslátt af leikskólagjöldum. Framvísa þarf læknisvottorði.
Athugaðu að þú þarft að sækja um afsláttinn innan þriggja mánaða frá því veikindum lýkur. Foreldrar bera ábyrgð á að upplýsa skóla- og frístundasvið þegar barnið byrjar aftur í leikskólanum.

Afsláttur einstæðra foreldra
Fólk sem er skráð sem einstætt foreldri í Þjóðskrá á rétt á afslætti.
Við skilnað eða slit sambúðar er afsláttur veittur frá þeim degi sem umsókn berst. Upplýsingar um breytta hjúskaparstöðu þurfa að koma fram í Þjóðskrá.
Umsókn þarf að endurnýja árlega fyrir 15. ágúst.
Afsláttur vegna örorku
Veittur er afsláttur vegna örorku. Umsókn þarf annað hvort að fylgja afrit af örorkuskírteini sem staðfestir að lágmarki 75% örorku eða staðfesting frá TR. Afsláttur er ekki afturvirkur.
Afsláttur starfsfólks
Starfsfólk leikskóla borgarinnar í að minnsta kosti 50% starfi á rétt á afslætti af leikskólagjöldum barna sinna.
Þú getur sótt um afslátt fyrir barn í heilsdagsvistun ef þú ert í 70% starfi og fyrir barn í hálfsdagsvistun ef þú ert í 50% starfi.
Getum við aðstoðað?
Þarftu frekari aðstoð eða fannstu ekki það sem þú varst að leita að? Þjónustuver borgarinnar getur aðstoðað þig í síma 411 1111, á netspjalli og í gegnum netfangið innritun.leikskolar@reykjavik.is.