Frístundaheimili

Strákar að perla

Frístundaheimili er við sérhvern grunnskóla og þar er skipulagt fjölbreytt frístundastarf fyrir 6-9 ára börn. Börn geta dvalið í frístundaheimilum frá því að skóladegi lýkur og fram til kl. 17:00. Á sumrin eru frístundaheimilin opin allan daginn. Gjald er innheimt fyrir dvöl á frístundaheimili og veittur er systkinaafsláttur.

Innritun á frístundaheimili fer fram að vori fyrir komandi haust og hægt er að sækja um með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan. Ef óskað er eftir aðstoð við skráningu er hægt að hafa samband við starfsfólk viðkomandi frístundaheimilis.

Opnunartímar frístundaheimila

Frístundaheimili eru opin frá 13:40-17:00.

Á foreldradögum, starfsdögum og í jóla- og páskafríum  eru frístundaheimilin opin frá kl. 8:00 (lengd viðvera), nema annað sé tekið fram. Frístundaheimilin eru lokuð í vetrarfríum grunnskólanna en þá býður frístundamiðstöðin í þínu hverfi jafnan upp á dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Athugið að skrá þarf sérstaklega í lengda viðveru.

Hvað kostar að vera á frístundaheimili? Hvernig borga ég?

Gjöld fyrir dvöl á frístundaheimili eru greidd samkvæmt gjaldskrá. Reikningar vegna frístundaheimilisgjalda eru sendir út eftirá og er gjalddagi í upphafi næsta mánaðar eftir gjaldamánuð. Veittur er 30 daga gjaldfrestur frá gjalddaga til eindaga en það er alfarið ákvörðun greiðanda hvort eða hversu mikið af gjaldfresti er nýttur. 

Ef systkini, tvö eða fleiri, dvelja á frístundaheimili eða í sértækum félagsmiðstöðvum eða eru í vistun í leikskólum borgarinnar er veittur 100% systkinaafsláttur af dvalargjaldi eldra systkinis/eldri systkina.

Tilraunaverkefnið: Fyrr í frístundaheimili

Árin 2023 og 2024 hefur Reykjavíkurborg boðið upp á sumarstarf á frístundaheimilum fyrir verðandi 1. bekkinga í nokkrum grunnskólum. Upplýsingar um verkefnið og svör við spurningum sem hafa borist hafa verið tekin saman.

 

Hvernig er sótt um þjónustuna?

Verðandi fyrstu bekkingum berst bréf frá skóla- og frístundasviði fyrir komandi skólaár í febrúar/mars með upplýsingum um umsóknarferlið. Foreldrar barna sem fara í 2.-4. bekk geta sótt um fyrir börnin sín í gegnum skráningarvefinn Völu.

 

Umsókn gildir eitt skólaár í senn (ágúst-júní). Ef þú vilt segja upp þjónustunni eða óska eftir breytingum þarftu að gera það fyrir 15. hvers mánaðar og tekur uppsögnin gildi um næstu mánaðarmót. 

Frítími og félagsfærni barna í frístundaheimilum

Á frístundaheimilum er 6-9 ára börnum boðið upp á fjölbreytt frístundastarf eftir að skóladegi lýkur. Leitast er við að bjóða upp á spennandi viðfangsefni sem veita börnum útrás fyrir leik- og sköpunarþörf. Leiðarljós frístundaheimilanna er að hver einstaklingur fái að njóta sín og þroskist í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu. 

Lögð er áhersla á að þroska félagslega færni í samskiptum í gegnum leik og starf sem og virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu. Frístundaheimilin leitast við að nota lýðræðislega starfshætti, efla hæfni barnanna til að móta sér sjálfstæðar skoðanir og hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður. 

Frístundalæsi

Á frístundaheimilum borgarinnar er unnið fjölbreytt starf allan ársins hring í íslensku málumhverfi. Lögð er áhersla á eflingu máls og læsis í gegnum leik og starf og þar kemur heimasíða, verkfærakista og handbók Frístundalæsis að góðum notum.

Viltu vinna á frístundaheimili

​​​​​​Viltu vera partur af skemmtilegum og samheldnum starfsmannahóp á einu af mörgum frístundaheimilum Reykjavíkurborgar? Viltu nýta áhugamálin þín í vinnu með börnum og hjálpa þeim að æfa sig í félagslegum samskiptum? Sveigjanleg og skemmtileg störf á frístundaheimilum borgarinnar bíða þín.