Frístundastarf

Í frístundastarfi á vegum Reykjavíkurborgar er lögð áhersla á öryggi og vellíðan. Unnið er með sjálfsmynd barna og unglinga, félagsfærni, umhyggju, virkni og þátttöku. Í frístundastarfinu er líka lögð áhersla á forvarnir, menntun og skemmtun. 

Frístundastarfið fer fram á frístundaheimilum, í félagsmiðstöðvum og sértækum félagsmiðstöðvum í hverfum borgarinnar.

Frístundaheimili

Frístundaheimilin starfa við alla grunnskóla borgarinnar og þar er boðið upp á skipulagt frístundastarf fyrir 6–9 ára börn. Börn geta dvalið á frístundaheimilinu frá því að skólinn er búinn og til klukkan 17:00 og allan daginn á sumrin. Boðið er upp á síðdegishressingu, ávexti, grænmeti, brauð og holla drykki.  

Félagsmiðstöðvar

Félagsmiðstöðvar í Reykjavík bjóða upp á fjölbreytt frístundastarf fyrir 10–16 ára börn og unglinga. Félagsmiðstöðvar eru opnar eftir að skóla lýkur, á kvöldin og yfir sumartímann. Dagskrá félagsmiðstöðva er aðgengileg á heimasíðum og samfélagsmiðlum félagsmiðstöðvanna.

Frístundakortið

Frístundakortið er styrkjakerfi í frístundastarfi fyrir 6–18 ára börn og unglinga með lögheimili í Reykjavík. Styrkurinn er 75.000 krónur á ári og þú getur notað hann til þess að greiða niður hluta af þátttöku- og æfingagjöldum barnsins þíns. 

Menntastefna Reykjavíkur - látum draumana rætast

Grunnskólar Reykjavíkurborgar vinna eftir aðalnámsskrá grunnskóla með Menntastefnu Reykjavíkurborgar til hliðsjónar. Meginmarkmið stefnunnar er að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs.

Í kraftmiklu skóla- og frístundastarfi öðlast börn og unglingar menntun og reynslu til að láta drauma sína rætast og hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Menntastefnan byggir á fimm grundvallarþáttum: félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði.

Frístundamiðstöðvar

Frístundamiðstöðvarnar fjórar halda utan um starfsemi frístundaheimila fyrir 6–9 ára börn og félagsmiðstöðvar fyrir 10–16 ára. Þær taka líka þátt í hverfasamstarfi, standa fyrir viðburðum og bjóða upp á alls konar aðstöðu fyrir íbúa í hverfinu. Ungmennaráðin starfa á vettvangi frístundamiðstöðvanna.