Snjóhreinsun og hálkuvarnir

Þegar snjór fellur eða hálka myndast í Reykjavík er unnið samkvæmt viðbragðsáætlun vetrarþjónustu og snjóvaktin fer á stjá. Aðstæður eru vaktaðar reglubundið og mannskapur kallaður út eftir þörfum.  

Hvenær kemur að mér?

Eðlilega viltu vita hvenær gatan þín verður hreinsuð. Eins og segir hér að framan eru stofnbrautir, strætóleiðir og fjölfarnar safngötur í forgangi.

 

Íbúagötur eru hreinsaðar ef þær eru þungfærar einkabílum, mikil hálka, eða snjódýpt er meiri en 15 cm. Út af þessari reglu hefur þó verið brugðið. Snjóhreinsun takmarkast við að gera götur akfærar. Líklegt er að við innkeyrslur myndist snjóruðningar sem borgin hreinsar ekki.

Forgangsröðun

Stofnbrautir, strætóleiðir og fjölfarnar safngötur njóta forgangs, en miðað er við að stofnbrautir og strætóleiðir séu færar fyrir kl. 7.00 að morgni og að hreinsun annarra megin umferðargatna sé lokið fyrir kl. 8.00.

Stofnstígar, svo sem göngu- og hjólastígar milli borgarhluta, fá forgang í hreinsun og síðan helstu gönguleiðir að strætóbiðstöðvum og skólum sem eiga að vera greiðfærar fyrir kl. 8.00 virka daga. Aðrir almennir stígar eiga að klárast fyrir hádegi. Síðan 36 tímum eða daginn eftir að snjór hættir að falla er hægt að ljúka hreinsun stíga.

Snjóhreinsun á strætóbiðstöðvum, auk þess að sanda og salta aðkomuleiðir, er unnið eftir þörfum. Þá eru gönguleiðir og bílastæði við leikskóla, grunnskóla, sundlaugar og nokkrar stofnanir hjá velferðarsviði hreinsaðar.  

Þjónustuflokkar

Snjómokstur er gerður eftir fyrirfram ákveðnum forgangi til að allt gangi sem best fyrir sig.

 

Götur

  • Þjónustuflokkur 1: Helstu stofnbrautir, mikilvægar tengigötur vegna neyðarþjónustu, fjölfarnar safngötur og strætisvagnaleiðir.
  • Þjónustuflokkur 2: Aðrar safngötur og aðkoma að leik- og grunnskólum.
  • Þjónustuflokkur 3: Húsagötur.

 

Stígar

  • Þjónustuflokkur 1a: Hjólastígar.
  • Þjónustuflokkur 1: Stofnstígar.
  • Þjónustuflokkur 2: Aðrir fjölfarnir stígar.
  • Þjónustuflokkur 3: Minna notaðir stígar, oft í húsagötum.

Salt eða sandur?

Á umferðargöturnar fara stórvirk snjóruðningstæki sem komast hratt yfir og þau nota salt til hálkueyðingar. Hér hefur í auknum mæli verið notast við saltpækil sem gagnast vel á ísingu. Markmiðið er að tryggja öryggi með eins litlu saltmagni og mögulegt er.

Á stíga og gangstéttar fara sérútbúnar dráttarvélar og til hálkueyðingar er notast við salt og í sumum tilvikum þveginn sand eða saltpækil.

Hvað er snjóvakt?

Þegar þörf er á metur snjóvaktin aðstæður, meðal annars um miðjar nætur. Þegar aðstæður eru metnar sem svo að þær kalli á snjómokstur, snjóhreinsun eða hálkueyðingu er snjóvaktin ræst út. Snjóvakt með skipulögðum bakvöktum stendur yfir frá því í nóvember til loka mars – eða eftir þörfum. Vinna við snjóhreinsun hefst oft klukkan fjögur um nótt. 

Tryggjum greiðar leiðir

Skipta má verkefnum Reykjavíkurborgar við snjóhreinsun, snjómokstur og hálkueyðingu í þrennt eftir því hvort um er að ræða umferðargöturstíga og gangstéttar eða stofnanalóðir og strætóskýli

Aðstæður kalla á mismunandi tækjakost og aðferðir, en markmiðið er það sama: að tryggja greiðar leiðir. Þá hefur Reykjavíkurborg boðið íbúum að sækja sand og salt á hverfastöðvar og verkbækistöðvar til að bæta öryggi á gönguleiðum í sínu nágrenni og heimkeyrslum. 

Hvar fæ ég salt og sand?

Hægt er að sækja salt og sand á opnunartíma þjónustumiðstöðvar borgarlandsins við Stórhöfða. Einnig eru kistur með salti og sandi aðgengilegar fyrir utan hverfastöðvarnar á Fiskislóð og Jafnaseli.

Í brattri brekku?

Ef þú býrð í götu þar sem aðstæður eru erfiðar, til dæmis í brattri brekku, getur þú fengið saltkassa. 

  • Þjónustuver Reykjavíkurborgar veitir nánari upplýsingar í síma 411 1111.

Athugaðu að á snjóþungum dögum er mikið annríki í þjónustuverinu og við biðjum þig um að sýna þolinmæði.