Landupplýsingar (LUKR)
Landupplýsingar hafa umsjón með öllum gagnagrunnum sem innihalda landtengdar upplýsingar. Öflun, viðhald, úrvinnsla og afgreiðsla landupplýsinga eru aðalverkefnin, en deildin ber einnig ábyrgð á stjórn og rekstri LUKR, landmælingum og útgáfu mæliblaða og lóðauppdrátta.
Helstu verkefni landupplýsinga eru
- Gerð og viðhald mæliblaða og lóðauppdrátta
- Landmælingar
- Viðhald hnita- og hæðakerfis
- Umsjón með staðgreini
- Hnitsetning eldri lóða
- Stjórn og rekstur LUKR
- Uppbygging og viðhald gagnagrunna og tengitaflna LUKR
- Umsjón með Borgarvefsjá og Skipulagssjá
- Öflun loftmynda
- Kortagerð
- Skráning, úrvinnsla og afgreiðsla landupplýsinga
- Uppfærsla á tölum svæðisskipulags
Úttektavefur LUKR
Landupplýsingakerfi Reykjavíkur geymir viðamiklar landfræðilegar upplýsingar um götur, byggingar, lóðir, hæðarlínur, lagnakerfi og fleira í Reykjavík. Þessi gögn eru ókeypis og á stafrænu formi sem notendum gefst kostur á að sækja í gegnum úttektarsíðu.
Til að geta tekið út gögn þarf fyrst að skrá sig inn með íslykli.
Reykjavík í þrívídd
Landupplýsingar eru að færast yfir í þrívíddarumhverfi og opnar það marga nýja möguleika. Á undanförnum árum hefur verið unnið talsvert við uppbyggingu þrívíddarlíkans af Reykjavík og nú er hægt að skoða miðborgina í þrívídd. Húsin eru teiknuð í Sketchup, langflest af Páli Heimi Pálssyni, og má nálgast þau í 3D Warehouse.
Hjá Landupplýsingum eru einnig til húskubbar með hæðarupplýsingum, líkt og sjá má þegar Reykjavík er skoðuð í Google Earth, en þau gögn eru frá árinu 2009 og gefa aðeins grófa mynd af útliti húsa.
Mælingar
Landupplýsingar á umhverfis- og skipulagssviði annast gerð og útgáfu mæliblaða og lóðauppdrátta. Skrifstofa framkvæmda og viðhalds mannvirkja annast gerð og útgáfu hæðarblaða.
Upplýsingar um gagnaúttekt
Gögn LUKR eru geymd í landshnitakerfinu ISN93. Það byggist á keiluvörpun Lamberts með tveim snertibaugum, í 64° 15' og 65° 45'. Úttektarkerfið býður einnig upp á að varpa gögnunum yfir í Reykjavíkurhnitakerfið en það kann að lengja lítillega þann tíma sem fer í vinnslu úttektar. Núverandi úttektarform gagna miðast við afhendingu á shape-formi (.shp) og dxf-formi (.dxf).
Gjaldfrjáls gögn úr LUKR
Á vefnum geta notendur á fljótlegan hátt nálgast gjaldfrjáls gögn úr gagnagrunnum LUKR á shape formi. Öllum er frjálst að afrita þessi gögn og nota í eigin þágu.
Viðkomandi lýsigögn má nálgast á síðu Landmælinga Íslands. Gögnin er hægt að skoða í Borgarvefsjánni og gott að gera það áður en gögnin eru afrituð.
Hvaða gögn voru tekin úr gagnagrunni?
Tilkynna skal í tölvupósti í gegnum netfangið lukr@reykjavik.is hvenær og hvaða gögn voru tekin úr gagnagrunni LUKR.