Borgarvefsjá

Borgarvefsjá er gjaldfrjáls vefþjónusta sem veitir notendum aðgang að ýmsum landfræðilegum upplýsingum um Reykjavík og nágrenni.

Hvaða upplýsingar er hægt að finna á Borgarvefsjá?

Alls eru núna veittar upplýsingar um fjórtán efnisflokka sem heita: Borgarskipting, Götur og stígar, Hús og lóðir, Lagnir, Lýðfræði og fasteignir, Menningarminjar, Myndefni, Mælipunktar, Náttúrufar, Saga og þróun, Íþróttir, Umferð, Þjónusta og Þungamiðjur búsetu. Í hverjum flokki eru eitt eða fleiri upplýsingaþemu.

Gagnagrunnar LUKR eru stöðugt uppfærðir og eiga því ávallt að veita nýjustu fáanlegar upplýsingar.  Auðvelt er að bæta við nýjum atriðum af ýmsu tagi, og má gera ráð fyrir að Borgarvefsjá haldi áfram að taka örum breytingum, þannig að hún þjóni sem best þörfum íbúa og starfsmanna borgarinnar á hverjum tíma.

Athugið að óheimilt er að nota kort úr Borgarvefsjá við jarðvegsframkvæmdir.

Notkun korta

Notendum Borgarvefsjár er bent á að upplýsingar á kortunum eða annars staðar í Borgarvefsjánni eru mismunandi að gæðum, bæði hvað nákvæmni og áreiðanleika varðar, og fer það eftir uppruna gagna, aldri og aðferð við að afla þeirra. Af þessum ástæðum getur Reykjavíkurborg ekki borið ábyrgð á réttleika þeirra, og þar með á beinu eða óbeinu tjóni sem hljótast kann af notkun þeirra, enda þótt stöðugt sé unnið að viðhaldi og uppfærslu gagnasafna Landupplýsingakerfis Reykjavíkur, LUKR, en þaðan koma kortaupplýsingarnar.

Sama gildir um ábyrgð Orkuveitunnar og Mílu ehf. á legu lagna þeirra og einnig um upplýsingar um hús, götukanta og fleira í grannsveitarfélögum Reykjavíkur sem geymdar eru í LUKR.

Enda þótt Borgarvefsjá veiti góðar byrjunarupplýsingar er af framangreindum ástæðum ekki rétt eða heimilt að ráðast í framkvæmdir á grundvelli upplýsinga úr henni, heldur skal ávallt leita staðfestingar hjá viðkomandi stofnun. Í Reykjavík veitir Umhverfis- og skipulagssvið formlegt framkvæmdaleyfi fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Upplýsingar um lagnir Orkuveitunnar eða símalagnir Mílu ehf. í Borgarvefsjá er EKKI hægt að nota sem heimild um staðsetningu áður en grafið er.

Nánari upplýsingar um staðsetningu lagna Orkuveitunnar fást í síma 516 6000 eða í afgreiðslu Orkuveitunnar á Bæjarhálsi 1, en lagnir Mílu ehf. á Stórhöfða 22 - 30, sími 585 6000.

Framkvæmdaaðili sem hyggst grafa í borgarlandi skal sækja um graftar- og tengingaleyfi til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar (sími 411 8000).

Hvernig á að nota borgarvefsjá?

Þegar Borgarvefsjá er opnuð blasir við kort af Reykjavík. Efst til vinstri er hnappurinn „Opna valglugga“ þar fyrir neðan er hnappur sem á stendur „Loftmynd“. Efst á skjánum er tólastika með 18 hnöppum. Nánari útlistun á þessum hnöppum er hér að neðan.

Til hægri í kortaglugganum er +/- hnappur sem hægt er að nota til að þysja inn og út úr kortinu (sjá einnig kafla um „þysja“ í tólastikunni). Þar fyrir neðan er hnappur með mynd af húsi. Þegar smellt er á hann fer kortið á upphafsreit. Þar fyrir neðan er hnappur sem þysjar inn á þína staðsetningu. Þessa virkni er einungis hægt að nota þegar Borgarvefsjá er skoðuð í snjallsíma eða spjaldtölvu og kveikt er á gps staðsetningu tækisins.

Um Borgarvefsjá

Þessi útgáfa Borgarvefsjár er unnin af Samsýn ehf. 

 

í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur, Upplýsingatæknideild Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur, en þessar borgarstofnanir/ -fyrirtæki eru aðilar að LUKR.  Umhverfis- og skipulagssvið hefur heildarverkstjórn á hendi og Guðmundur R. Einarsson sá um útlitshönnun. Fyrsta útgáfa Borgarvefsjár kom út í desember 1999 og hefur hún verið í stöðugri þróun síðan.

Athugasemdir sendist til umsjónarmanns Borgarvefsjár á netfangið bvs@rvk.is.