Húsnæðisáætlanir

Teikning af blaði með húsum og stækkunargler sem sýnir eitt húsið vel.

Húsnæðisáætlanir Reykjavíkurborgar eru settar fram til að mæta áskorunum á húsnæðismarkaðnum og markmiðum Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum. Þær byggja á stefnumörkun Reykjavíkurborgar á sviði húsnæðismála og á lagaumgjörð og greiningum á stöðu á húsnæðismarkaðinum.

Húsnæðisáætlanir

Fyrri útgáfur af húsnæðisáætlunum borgarinnar:

Stefnumótun

Stefnumótun Reykjavíkur á sviði húsnæðismála er að finna í samþykktum stefnuskjölum og samþykktum borgarstjórnar og borgarráðs. 

Helstu stefnuskjöl sem taka til húsnæðismála eru húsnæðisstefna Reykjavíkur, Samstarfssáttmáli við myndun meirihluta borgarstjórnar 2018-2022, Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og Samningsmarkmið Reykjavíkurborgar á nýjum uppbyggingarsvæðum.

Stefnumótun Reykjavíkur í húsnæðismálum er einnig að finna í eftirfarandi: 

  • Græna planið fjallar um efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbæra Reykjavíkurborg og um uppbyggingu húsnæðis, þéttingu byggðar og aukna sjálfbærni íbúðahverfa. 
  • Tillögur að nýjum viðauka við aðalskipulagið voru lagðar fyrir skipulags- og samgönguráð og borgarráð í október 2020 og fela í sér endurskoðun á stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð og framlengingu skipulagstímabils til ársins 2040. 
  • Borgarlínuverkefnið er ein af meginstoðum í nýsamþykktum samgöngusamningi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins sem gerir ráð fyrir stórátaki í samgöngumálum til að tengja höfuðborgarsvæðið enn betur saman á næstu 15 árum. 
  • Samstarfssáttmáli sem gerður var við myndun meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur 2018-2022 kveður m.a. á um verkefni á sviði húsnæðismála. 
Uppbygging

Fjórir flokkar húsnæðismála

Til einföldunar má taka saman markmið Reykjavíkurborgar á sviði húsnæðismála í fjóra flokka:

 

  • Húsnæði fyrir alla

  • Fjölgun leigu- og búseturéttaríbúða

  • Öflug og sjálfbær hverfi

  • Góða landnýtingu og þéttingu meðfram þróunarásum


 

Fjölgun leigu- og búseturéttaríbúða

  • Fjölgun leiguíbúða og búseturéttaríbúða í eigu húsnæðissamvinnufélaga, félagasamtaka og/eða einkaaðila, einkum á miðlægum svæðum sem auðvelt er að þjóna með almenningssamgöngum.  
  • Stefnt verði að því að um 25% nýrra íbúða verði á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni.  
  • 2.500-3.000 nýjar leigu- og búseturéttaríbúðir verði byggðar á næstu árum í samvinnu við leigu- og búseturéttarfélög. 
  • Félagsbústaðir verði kjölfesta í nýjum uppbyggingarverkefnum. 

 

Húsnæði fyrir alla

  • Húsnæðisframboð verði í samræmi við þarfir hverju sinni og aukið framboð verði af smærri íbúðum á næstu árum, burtséð frá eignarformi.
  • Fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla félagshópa og að hvers konar búsetuúrræði rúmist innan íbúðarbyggðar, miðsvæðis þar sem gert er ráð fyrir íbúðarhúsnæði eða í annarri blandaðri byggð.  
  • Húsnæðisstuðningur Reykjavíkurborgar verði bundinn persónulegum aðstæðum íbúa. 
  • Horft verði sérstaklega á húsnæðisþarfir ungs fólks og þeirra sem eru að fóta sig í fyrsta skipti á húsnæðismarkaði og einnig þeirra sem ekki vilja leggja eða ekki geta lagt mikið fé í eigið húsnæði.   
  • Markmiðið er að skapa skilyrði fyrir uppbyggingu minnst 1.000 nýrra íbúða á ári að meðaltali. Þar af er gert ráð fyrir að byggja um 250 íbúðir á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. 

     

Öflug og sjálfbær hverfi

  • Uppbygging húsnæðis sem hentar lægri tekjuhópum verði einkum á svæðum sem auðvelt er að þjóna með góðum almenningssamgöngum og/eða í grennd við stóra atvinnukjarna og fjölbreytta þjónustu.  
  • Skapaðar verði sterkar hverfisheildir sem standi undir grunnþjónustu, fjölbreyttri verslun og þjónustu, íþrótta- og frístundastarfsemi og fjölbreyttu mannlífi.  
  • Að ávallt verði horft til samhengis húsnæðiskostnaðar og kostnaðar vegna samgangna, við mótun húsnæðisstefnu og gerð húsnæðisáætlana. 
  • Visthæfar og sjálfbærar hönnunarlausnir verði ávallt leiðarljósi við mótun nýrrar íbúðarbyggðar.

 

Góð landnýting og þétting meðfram þróunarásum

  • Land og innviðir borgarinnar verði nýttir sem best og að stofnkostnaður innviða fyrir uppbyggingarsvæði verði greiddur með fjármunum sem fást af uppbyggingunni. 
  • Þétting byggðar - 90% allra nýrra íbúða í Reykjavík til ársins 2030 rísa innan núverandi þéttbýlismarka. Þrjú svæði muni gegna lykilhlutverki við þróun Reykjavíkur á næstu áratugum; Vatnsmýri, Elliðaárvogur og Miðborgin/Gamla höfn.  
  • Þétting byggðar og nýjar íbúðir verði við þróunarása sem tengi miðborgina, m.a. með Borgarlínu, við þéttingarsvæði til austurs og til suðurs með hliðsjón af væntanlegri byggð í Vatnsmýrinni og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. 

Nánari upplýsingar

Viltu nánari upplýsingar eða vera í sambandi við okkur?

Sendu póst á athafnaborgin@reykjavik.is

eða skráðu þig á póstlista hér.