Borgarráð
Ár 2018, þriðjudaginn 31. júlí, var haldinn aukafundur borgarráðs sem er 5510. fundur ráðsins. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:05. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Líf Magneudóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Marta Guðjónsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Stefán Eiríksson, Regína Ásvaldsdóttir, Ebba Schram, Berglind Magnúsdóttir, Pétur Ólafsson, Óli Jón Hertervig og Bjarni Þóroddsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Fram fer umræða um fundarsköp. R18060129
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Á fundi borgarráðs 19. júlí sl. var tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins, Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins um að útsend dagskrá ráða og nefnda verði aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar fyrir fundi samþykkt. Markmið tillögunnar var að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum hjá Reykjavíkurborg í anda gagnsæis og góðrar og vandaðrar stjórnsýslu. Með hliðsjón af því að tillagan var samþykkt vekur það furðu að nú þegar boðað hefur verið til neyðarfundar í borgarráði var dagskráin ekki birt á vef Reykjavíkurborgar fyrir fundinn og því hvorki aðgengileg almenningi né fjölmiðlum. Þá vekur það enn meiri furðu ef litið er til þess sem segir í bókun meirihlutaflokkanna „Nú er tími til að taka frekari skref í átt að opinni stjórnsýslu og birta þessi gögn strax og fundur er boðaður”. Þessi skref hafa því miður ekki verið tekin og eru til marks um áhugaleysi meirihlutaflokkanna á að opna stjórnsýsluna og auka gagnsæið.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Eftir að tillaga minnihlutans í borgarráði og viðaukatillaga meirihlutans var samþykkt 19. júlí var strax hafist handa við að undirbúa vinnu svo unnt sé að birta öll gögn á vefnum um leið og boðað er til fundar borgarráðs. Var áætlað að þeirri vinnu væri lokið fyrir næsta reglulega fund borgarráðs sem hefur verið boðaður 16. ágúst. Ekki vannst tími til að ljúka þessari vinnu fyrir viðamikinn aukafund borgarráðs sem kom með mjög skömmum fyrirvara.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Stjórnarandstaðan í borgarstjórn Reykjavíkur fagnar því að loks séu mál húsnæðislausra sett á dagskrá. Þó ýmislegt sé jákvætt í tillögum meirihlutaflokkana einkennast þau því miður mest af því að benda á aðra varðandi vanda og lausnir, einkum ríkið. Það er mikilvægt að Reykjavíkurborg axli fulla ábyrgð á húsnæðiskrísunni í borginni, bæði hvað varðar almennar lausnir og neyðarúrræði fyrir þá sem eru húsnæðislausir. Það er von okkar að tekið verði jákvætt í tillögur okkar sem ganga lengra og hafa áhrif tafarlaust á bráðavandann í borginni. Það var sláandi að hlusta á viðtal við formann velferðarráðs Reykjavíkur á Rás 2 í morgun (31.7.2018) þar sem hún lýsti yfir miklu skilningsleysi á þeim vanda sem steðjar að heimilislausum og taldi að þessi neyðarfundur í dag myndi ekki breyta neinu.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Málefni heimilislausra hafa verið á dagskrá borgarstjórnar, borgarráðs og velferðarráðs
allt síðasta kjörtímabil. Núverandi meirihluti hefur sammælst um að halda þeirri vinnu áfram og taka þessi mál föstum tökum á kjörtímabilinu eins og kveðið er á um í samstarfssáttmála hans. Fullur skilningur er á þeim vanda sem steðjar að heimilislausum enda hefur Reykjavíkurborg rannsakað fjölda þeirra og hagi sem eru utangarðs og/eða heimilislausir síðasta áratuginn og unnið er ötullega að því að mæta ólíkum þörfum fólks. Síðastliðið ár hefur húsnæðisúrræðum fjölgað og aukin áhersla hefur verið lögð á skaðaminnkun og ráðgjafa- og vettvangsþjónustu. Á þemafundi velferðarráðs 10. ágúst nk. verður settur saman stýrihópur sem kemur til með að vinna nýja stefnu og aðgerðaráætlun í málefnum utangarðsfólks fyrir árslok. Í ljósi þeirra tillagna sem meirihlutinn hefur lagt fram og í ljósi þess frumkvæðis sem m.a. formaður velferðarráðs hefur tekið í málaflokknum er með ólíkindum að minnihlutinn skuli halda því fram að afstaða fulltrúa meirihlutans einkennist af skilningsleysi og snúi út úr orðum formanns velferðarráðs.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Skilgreiningar hugtakanna heimilislaus, húsnæðislaus og utangarðs eru nokkuð óljósar innan starfssviðs Reykjavíkurborgar. Stefnan um málefni utangarðsfólks hefst á skilgreiningu Félagsmálaráðuneytisins (2005) á húsnæðisleysi; sá sem ekki hefur aðgang að hefðbundnu húsnæði, hefur ekki húsaskjól að staðaldri á sama stað og gistir þar sem kostur er hverja nótt, þ.m.t. í gistiskýli, á gistiheimili eða inni á öðrum. Þeir sem koma úr tímabundnu húsaskjóli, t.d. úr fangelsi eða vímuefnameðferð, eiga sögu um margháttaða húsnæðis- og félagslega erfiðleika og eiga ekki tryggt húsaskjól 1-2 mánuðum áður en farið er úr tímabundna húsnæðiðnu falla einnig undir skilgreininguna. Stefnan fjallar síðan um heimilislausa og/eða utangarðs einstaklinga, án skýrra skilgreininga á þeim hugtökum. Hugtökin heimilislaus og húsnæðislaus virðist því oft lögð að jöfnu þó um ólíka hluti sé að ræða. Þannig vísar Kortlagning á fjölda og högum utangarðsfólks í Reykjavík í húsnæðisleysisskilgreiningu Félagsmálaráðuneytisins sem skilgreiningu á heimilisleysi. Slíkt er á skjön við umræðuna um að ekki allir heimilislausir séu húsnæðislausir; búa t.d. inni á öðrum. Stefnan um málefni utangarðsfólks segir að til utangarðs teljist þeir sem falla undir skilgreiningu Félagsmálaráðuneytisins um húsnæðisleysi. Ekki þarf þó að vera að allir skilgreindir sem utangarðs séu húsnæðislausir. Mikilvægt er að skilgreiningar í þessum málaflokki séu skýrar.
-
Lagðar fram svohljóðandi tillögur borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um aðgerðir í húsnæðismálum, dags. 31. júlí 2018:
Tillaga 1. Borgarráð samþykkir að fela borgarstjóra að ræða við ríkisstjórn og verkalýðshreyfinguna um breytingar á reglum um stofnframlög þannig að hægt sé að fjölga leiguíbúðum í Reykjavík.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:Það er hjákátlegt að meirihlutinn ætlar að varpa ábyrgðinni á aðgerðarleysi borgarinnar síðustu árin að fjölga félagslegum íbúðum yfir á ríkið eins og tillagan ber með sér. Þessi meirihluti eins og síðustu tveir virðist algjörlega vera búinn að gleyma því að borgin fer með skipulagsvaldið, sér um lóðaúthlutanir og á Félagsbústaði og gat byggt og keypt litlar íbúðir síðustu árin. Viljinn var hins vegar enginn. Á árunum eftir hrun var eignum fækkað hjá Félagsbústöðum. Það var ekki fyrr en um haustið 2015 sem félagið átti jafn margar eignir og 2010. Sumarið 2014 voru 840 umsækjendur á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum en voru í maí 2018 samtals 971. Það hefur ríkt algjört frost hjá borginni í þessum málaflokki eins og sést í svari við fyrirspurn sem lögð var fram í borgarráði 7. júní sl. um lóðaúthlutanir til félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Þar kemur fram að einungis náðist að fullgera 5 íbúðir á þeim lóðum sem úthlutað var frá 1. júní 2014 til mars 2018 fyrir leigu- eða búseturéttaríbúðir. Það er ósvífni að ætla núna að velta ábyrgðinni á getuleysi borgarinnar undanfarinna ára yfir á ríkið og vísa í lög og reglugerð sem gilt hafa í einungis tvö ár.
Tillaga 2. Borgarráð samþykkir að hefja formlegt samstarf milli ríkis, Reykjavíkurborgar, stærstu sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga, til að tryggja að raunhæfar úrlausnir séu til staðar þegar leysa þarf úr bráðum húsnæðisvanda.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:Gott er að fá staðfestingu á þeim bráða húsnæðisvanda sem upp er annars vegar og að það þurfi „raunhæfar úrlausnir“ þegar leysa þarf úr bráðum húsnæðisvanda hins vegar eins og segir í tillögunni. Markvissar aðgerðir undir forystu Reykjavíkurborgar eru löngu tímabærar. Við teljum ekki rétt að greiða atkvæði með tillögunni þar sem vandanum er vísað á aðra, í þessu tilfelli ríkið. Með því að fallast á tillöguna væri verið að fallast á að aðkoma ríkisins sé nauðsyn svo Reykjavíkurborg geti farið sjálf í aðgerðir.
Tillaga 3. Borgarráð samþykkir að skora á félags- og húsnæðismálaráðherra og Alþingi að skylda sveitarfélög til að fjölga félagslegum leiguíbúðum, t.d. í 4-5% af íbúðum í sveitarfélaginu eða finna aðrar leiðir til að tryggja að sveitarfélögin sinni skyldum sínum.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:Það er mikilvægara fyrir íbúa Reykjavíkur að borgin axli sjálf ábyrgð á hlutverki sínu í húsnæðismálum frekar en að benda á aðra. Þörf fyrir félagslegt húsnæði er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum og er eðli Reykjavíkur sem höfuðborgar og langstærsta sveitarfélags landsins að mörgu leyti frábrugðið. Reykjavík býr að því að flestar stofnanir ríkisins eru í borginni og langstærstu heilbrigðisstofnanir ríkisins eru staðsettar í Reykjavík. Þetta eykur aðdráttarafl borgarinnar auk þess sem hún nýtur mikilla skatttekna sem ríkið greiðir í formi hárra fasteignagjalda.
Tillaga 4. Borgarráð samþykkir að taka upp formlegar viðræður við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um kostnaðarþátttöku vegna þeirra einstaklinga sem eru með lögheimili í sveitarfélögum utan Reykjavíkur en nýta sér úrræði Reykjavíkurborgar s.s. Konukot, Gistiskýlið og Víðines.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.Tillaga 5. Borgarráð samþykkir að fela borgarstjóra að kalla eftir stöðu á þeim aðgerðum sem settar voru fram í húsnæðissáttmála ríkisstjórnarinnar sem kynntur var í júní árið 2017.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúar Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks Fólksins:Ríkið hefur lagt fram 18% stofnframlag vegna félagslegra leiguíbða í Reykjavík en á sama tíma hefur borgin rukkað 45.000 kr af hverjum fm. eða sem nemur 4,5 milljón kr. af hverri 100 fm. íbúð í bygginarréttargjald. Það er því réttara að borgin líti í eigin barm og taki á eigin málum.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Vísað er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar sem farin er frá völdum annars vegar og Reykjavíkurborgar hins vegar. Húsnæðissáttmálinn sem kynntur var í júní 2017 sem undirritaður var af þáverandi félagsmálaráðherra og borgarstjóra hefur því takmarkað gildi og getur tæpast aldrei verið annað en viljayfirlýsing. Verið er að slá ryki í augu almennings með því að setja þessa tillögu fram á neyðarfundi um málefni heimilslausa.
Tillaga 6. Borgarráð samþykkir að fela borgarstjóra að hefja viðræður við heilbrigðisráðherra um heilbrigðisþjónustu m.a. hjúkrunarrými, fyrir eldra utangarðsfólk.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks Fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Stjórnarandstaðan fagnar þessari tillögu meirihlutans en leggur áherslu á að niðurstaða verði komin fyrir 1. desember.
Tillaga 7. Borgarráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að útvega fimm lóðir fyrir allt að fimm smáhýsi á hverri lóð á árinu 2018.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks Fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Stjórnarandstaðan telur þessa tillögu skref í rétta átt.
Tillaga 8. Borgarráð felur velferðarsviði forystu um gerð tillagna að frekari uppbyggingu húsnæðis fyrir utangarðs og/eða heimilislaust fólk í samstarfi við hlutaðeigandi svið og skrifstofur, svo sem umhverfis- og skipulagssvið, skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og Félagsbústaði. Tillagan skal byggja á fyrirliggjandi greinargerðum og þarfagreiningu frá velferðarsviði og stefnumótunar sem velferðarráð vinnur að vegna þessa hóps og fyrirhugaðs fundar með helstu hagsmunaaðilum þann 10. ágúst næstkomandi. Tillaga verði svo lögð fyrir borgarráð í kjölfarið.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18070088
Samþykkt.Áheyrnarfulltrúar Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Formaður velferðarráðs sagði mikilvægt að fresta umræðu einstakra mála fram yfir fyrirhugaðan fund velferðarráðs 10. ágúst en á hann eru allmörg mannréttinda- og hagsmunasamtök boðuð. Mjög mikilvægt er að heyra raddir þeirra og þess vegna er það ámælisvert að þessir aðilar fá aðeins 5 mínútur til að tjá sig sem er allt of knappur tími að mati Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins. Flokkur fólksins í samráði við Sósíalistaflokkin hefur mótmælt þessu skriflega til formanns velferðarráðs og finnst í fyrsta lagi óásættanlegt að dagskrá fundarinns hafi ekki verið lögð undir nefndarmenn stjórnarandstöðunnar í velferðaráði. Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn telur að brýnt hefði verið að gefa mannréttinda- og hagsmunasamtökum mun lengri tíma og meira svigrúm í dagskránni til að upplýsa og fræða um sína stöðu einmitt í ljósi þess að afgreiðsla mála mun samkvæmt formanni velferðarráðs byggjast á þeirra málflutning eftir því sem best er skilið. Einnig telja Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn að gefa hefði átt mun meira svigrúm í dagskránni til að fjalla um neyðarúrræði og neyðaraðgerðir til að bregðast núna við vanda þeirra sem eiga ekki heimili.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar stjórnarandstöðunnar lýsa vonbrigðum sínum yfir því að ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni að tillögur meirihlutans væru rædda hver fyrir sig heldur voru þær ræddar í heild sinni. Þá valda orð formanns borgarráðs vonbrigðum að það sé gert til að hraða fundinum. Hér er um neyðarfund að ræða vegna alvarlegra mála og lágmark að fundarmenn gefi sér allan þann tíma sem þarf til að ræða þau mál.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Árið 2018 hafa aldrei verið fleiri íbúðir í uppbyggingu í sögu Reykjavíkur. Hvergi á Íslandi eru framlög til húsnæðismála hærri en í Reykjavík. Á árunum 2018-2022 eru framlögin áætluð upp á 70 milljarða og þar af eru 14,2 milljarðar áætlaðir í ár. Þá fjölgar félagslegu húsnæði ört enda kaupa Félagsbústaðir íbúðir í nær öllum uppbyggingarverkefnum sem nú eru í gangi í Reykjavík með það fyrir augum að stytta til muna biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Ef öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ættu sama hlutfall félagslegra íbúða og Reykjavík þá væru líklega engir biðlistar eftir félagslegu húsnæði. Það væri því æskilegt að sett verði lög um lágmarkshlutfall félagslegra íbúða í eigu sveitarfélaga. Húsnæðismálin í Reykjavík hafa verið tekin föstum tökum á undanförnum árum með ýmiss konar hætti. Í fyrsta lagi með því að skipuleggja lóðir fyrir mörg þúsund íbúðir og auka byggingarheimildir á þegar skipulögðum lóðum. Í öðru lagi með því að taka höndum saman um umfangsmikla uppbyggingu við byggingarfélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Meðal þeirra eru félög eldri borgara, verkalýðshreyfingin og stúdentar. Í þriðja lagi stendur nú yfir fordæmalaus uppbygging búsetuúrræða fyrir fatlað fólk. Á fundi borgarráðs í dag bætast nú við samþykktar tillögur að uppbyggingu fyrir fólk sem telst utangarðs. Allar ofangreindar aðgerðir munu stuðla að heilbrigðari, jafnari og réttlátari húsnæðismarkaði.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Sú staða sem nú er uppi í Reykjavík hvað varðar félagslegt húsnæði er á ábyrgð fráfarandi meirihluta borgarstjórnar. Hvað gera á til framtíðar er góðra gjalda vert en breytir því ekki að þessi málaflokkur hefur verið hundsaður hjá borginni um langa hríð. Þess ber að geta að hinir svokölluðu vinstri flokkar hafa komið að stjórn landsins um langa hríð, t.d. sat Samfylkingin í ríkisstjórn á árunum 2007-2013 og fór með félagsmálaráðuneytið og formennsku í Íbúðalánasjóði. Vinstri grænir sátu jafnframt í ríkisstjórn 2009-2013. Þessir flokkar hafa setið við stjórn borgarinnar allt frá árinu 2010. Ábyrgðin er því mikil hjá þessum flokkum og geta þeir eins og áður segir ekki firrað sig þeirri ábyrgð og áhugaleysi á málaflokknum í heild sinni. Gríðarleg vandamál blasa við Reykvíkingum af þeim sökum og er þar fyrst og fremst að kenna um lóðarskorti og framtíðarsýn um dreifða og fjölbreytta byggð. Gumað er að því að Félagsbústaðir hafi keypt íbúðir á síðasta kjörtímabili, en það hefur orðið til þess að skekkja almenna markaðinn og gerir ungu fólki erfitt um vik að flytja að heiman, því þessir hópar eru í raun að slást um sömu litlu íbúðirnar.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, dags. 31. júlí 2018:
Samþykkt var á borgarstjórnarfundi hinn 19. júní sl. að tillaga þessi yrði send inn í borgarráð en hún hefur enn ekki verið tekin fyrir á vettvangi borgarráðs. Lagt er til að skipuleggja lóðir á hagkvæmum svæðum, s.s. Örfirisey, BSÍ reitnum, Keldum og Úlfarsársdal. Gert verði ráð fyrir 6.000 íbúðum á þessum svæðum. Borgin beiti sér fyrir því að byggingarskilmálar verði með þeim hætti að kostnaður við byggingarnar verði í lágmarki. Þá beiti hún sér enn fremur fyrir því að afgreiðslutími skipulagssviðs og byggingarfulltrúa verði styttur umtalsvert frá því sem verið hefur. Á þessar lóðir verður ekki lagt sérstakt innviðagjald.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Einnig er lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar dags. 31. júlí 2018. R18070088
Frestað.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan var lögð fyrir á borgarstjórnarfundi 19. júní sl. Á fundinum var tillögunni vísað til borgarráðs en hún hefur ekki enn verið tekin fyrir á vettvangi ráðsins. Skýringarnar virðast þær að tillagan bíði enn umsagnar frá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar. Nú eru liðnar sex vikur frá téðum fundi borgarstjórnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði lýsa vonbrigðum með seinagang við úrvinnslu umsagnar og afgreiðslu málsins. Við treystum því að málið verði tekið til afgreiðslu á fyrsta reglulega borgarráðsfundi eftir sumarfrí og samþykkt.
Borgaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fjárfesting í íbúðarhúsnæði er að aukast hröðum skrefum og framboð að stóraukast og húsnæðismarkaðurinn er að ná jafnvægi. Til marks um það þá er raunhækkun húsnæðisverðs síðustu 12 mánuði 2,5% á meðan hann var meira en 20% árinu áður. Á kjörtímabilinu 2014-2018 var slegið met í nýsmíði íbúða. Uppbygging á BSÍ reitnum er mikilvæg fyrir samgöngumiðstöð, uppbygging í Örfirisey hefur fallið á samgöngumálunum, Keldnalandið er í eigu ríkisins og hefur ríkið ekki tekið það í mál að selja borginni það nema á hæsta mögulega markaðsverði. Hvað varðar Úlfarsárdalinn, þá á sér stað afar umgangsmikil uppbygging þar. Á sama tíma var haldið útboð á lóðum í dalnum og gengu þær ekki allar út.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 31. júlí 2018:
Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að umræðu við ríkið til að kanna hvort veita þurfi lífeyrissjóðum sérstaka lagaheimild til að setja á laggirnar leigufélög. Samhliða er lagt er til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að leita eftir samvinnu og samstarfi við lífeyrissjóðina um að koma á laggirnar leigufélögum og muni borgina skuldbinda sig til að skaffa lóðir í verkefnið. Hugsunin er að hér sé ekki um gróðrafyrirtæki að ræða heldur munu sanngjarnar leigutekjur standa undir rekstri og viðhaldi eigna sem fjármagnið hefur verið bundið í. Hér er einnig verið að vísa til lífeyrissjóða sem skila jákvæðri ávöxtun á fé sjóðanna. Um er að ræða langtíma fjárfestingu fyrir sjóðina enda sýnt að það borgi sig að fjárfesta í steinsteypu eins og hefur svo oft sannast á Íslandi.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18070088
Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vísa tillögunni til umsagnar fjármálaskrifstofu.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lýsir vonbrigðum sínum yfir að borgarráð hafi ákveðið að fresta tillögunni um að borgin leiti eftir samvinnu við lífeyrissjóði um að koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi fyrir efnaminna fólk, í því skyni að fá umsögn fjármálaskrifstofu. Hér er einungis verið að leggja til að borgin eigi frumkvæði að samtali við lífeyrissjóðina og ætti því að vera borgarráði að meinalausu að samþykkja þessa tillögu án aðkomu fjármálaskrifstofu fyrst. Hér er um að ræða tillögu að málefni sem hefur komið til tals í samfélaginu og var eitt af megin kosningamálum Flokks fólksins. Það er vissulega verið að feta ótroðnar slóðir, skoða nýja möguleika, þar sem lífeyrissjóðir hafa ekki áður komið að uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis. Upphaf alls nýs hlýtur ávallt að byrja á samtali aðila og í þessu tilfelli er lagt til að borgin eigi frumkvæði að því að ræða við lífeyrissjóði með eða án aðkomu ríkisins.
Borgaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Áður en tillaga um samvinnu við ríki og lífeyrissjóði til að koma á fót öðru félagslegu húsnæðiskerfi er samþykkt þarf að fá góða yfirsýn yfir eðli málsins. Hluti af því er að fá umsögn fjármálaskrifstofu borgarinnar þar sem um afar umfangsmikla breytingu á uppbyggingu og skipulagi félagslegs húsnæðiskerfis er að ræða.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, dags. 31. júlí 2018:
Lagt er til að Reykjavíkurborg eyði verðhækkunaráhrifum byggingarréttargjalds af byggingu félagslegra íbúða og íbúða sem byggðar eru af óhagnaðardrifnum leigufélögum með því að hækka stofnframlag sitt til þessara félaga sem nemur álagningu byggingarréttargjaldsins.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18060139
Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það eru mikil vonbrigði að Reykjavíkurborg ætli sér ekki að greiða fyrir frekari uppbyggingu óhagnaðardrifinna leigufélaga, í ljósi þess hve alvarleg húsnæðiskreppan er og dregur úr lífskjörum hinna verst settu. Reykjavíkurborg státar sig af því að hafa veitt stofnframlög til uppbyggingar á 1059 íbúðum, en slíkt er ekki nærri því nægjanlegt og framlag borgarinnar er í raun aðeins niðurfelling gjalda. Draga má þá ályktun að með því að taka slíkt sérstaklega fram í svari við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins, sé tilætlunin að beina umræðunni í aðra átt, þ.e.a.s. að svokölluðum afrekum borgarinnar í stað þess að beina sjónum að ábyrgð borgarinnar. Einnig skal athygli vakin á því að fyrirspurn beindist ekki að því hve miklum fjármunum Reykjavíkurborg verji í sérstakar húsnæðisbætur. Þær mega hækka umfram það sem nú er. Í tillögu sósíalista kom fram hvernig fjármagna má aukin framlög til félagslegs húsnæðis í borginni með því að hækka byggingarréttargjaldið almennt. Með því væri gjaldið aukið lítillega á dýrar íbúðir á dýrustu lóðunum til að fjármagna uppbyggingu ódýrara húsnæðis fyrir fólkið, sem hefur liðið mest fyrir húsnæðiskreppuna. Það fólk hefur séð lífskjör sínum haldið niðri af sífellt hækkandi leigu. Það er fyrsta skylda Reykjavíkurborgar að bregðast við vanda þessa fólks.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Byggingarréttargjaldið er afar mikilvægt fyrir tekjur hvers og eins sveitarfélags. Nú þegar eru ótal verkefni í gangi sem miða að því að tryggja lægri leigu þeirra sem hafa lítið á milli handanna á grundvelli laga um almennar íbúðir.
´
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:Fullyrt er í umsögn fjármálaskrifstofu að byggingarréttargjaldið 45.000 kr. á fermetra hafi í „flestum tilfellum verið langt undir markaðsvirði.“ Í síðustu útboðum á Kirkjusandi og Úlfarsárdal er meðalverð 42.000 kr á fm. með öðrum orðum byggingarréttargjaldið sem lagt er á félagslegu leigufélögin af hálfu Reykjavíkurborgar er 6% hærra en meðalverð þessara útboða. Byggingarréttargjald í Reykjavík er verulega íþyngjandi fyrir alla húsbyggjendur í borginni og þar með ein helsta ástæða fyrir háu húsnæðis- og leiguverði, enda hefur húsnæðisverð hækkað um 100% á örfáum árum. Það vekur sérstaka athygli að framlag Reykjavíkurborgar sem í reynd er eingöngu fólgið í byggingarréttargjaldi, sem er ekkert annað en „loft“ er afturkræft ásamt verðbótum. Þessi ráðstöfun hækkar leiguverð hjá þessum félögum umtalsvert. Hér er um að ræða 3,5 milljarða sem borgin getur fengið út úr þessum félögum. Um er að ræða mismun sem getur numið tvö hundruð þúsund krónum árlega fyrir leigjanda.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, dags. 31. júlí 2018:
Lagt er til að Reykjavíkurborg kanni væntingar og þarfir einstaklinga sem eru í húsnæðisvanda í borginni. Til að fá heildstæða mynd af aðstæðum þarf að ræða við fólkið í húsnæðisvanda og eru eigindlegar rannsóknaraðferðir þar hentugar, hvort sem slíkt er t.d. í formi hálfstaðlaðra viðtala eða í rýnihópum.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18070088
Samþykkt.
Vísað til frekari vinnslu á vegum velferðarráðs.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 31. júlí 2018:
Flokkur fólksins leggur til að borgin skoði frekari kaup á ónotuðu húsnæði í Reykjavík. Um gæti verið að ræða skrifstofuhúsnæði og í einhverjum tilfellum iðnaðarhúsnæði með það að markmiði að innrétta íbúðir sem ætlaðar eru þeim sem búið hafa við langvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum og eru jafnvel enn á vergangi. Áhersla er lögð á að borgin sé ábyrgðaraðili þessa húsnæðis til að ávallt sé tryggt að það sé að öllu leyti fullnægjandi íbúðarhúsnæði. Tryggja þarf einnig að leiga verði ávallt sanngjörn og í samræmi við greiðslugetu leigjenda en hér er verið að tala um húsnæði fyrir fátækt fólk og aðra sem hafa engin tök á að leigja á húsnæðismarkaðinum eins og hann er í dag.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18070088
Vísað til meðferðar velferðarráðs.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í meirihlutasáttmálanum er lögð áhersla á að stuðningur við jaðarsetta og viðkvæma hópa byggist á hugmyndafræðinni um skaðaminnkun og valdeflingu. Þá er stefnan að styðja við og styrkja verkefni á borð við “húsnæði fyrst”, Frú Ragnheiði og koma á búsetuúrræðum fyrir konur með geð- og fíknivanda ásamt því að vinna áfram að því að koma upp neyslurými í samstarfi við ríkið. Reykjavíkurborg hefur rannsakað fjölda og hagi fólks sem er utangarðs og/eða heimilislaust síðasta áratuginn og unnið að því að mæta þörfum fólks þar sem það er statt. Síðastliðið ár hefur húsnæðisúrræðum fjölgað og aukin áhersla hefur verið lögð á skaðaminnkun og ráðgjafa- og vettvangsþjónustu. Á þemafundi velferðarráðs 10. ágúst n.k. verður settur saman stýrihópur sem kemur til með að vinna nýja stefnu og aðgerðaráætlun í málefnum utangarðsfólks fyrir árslok. Samhliða því verður unnin áætlun um breytt skipulag og framkvæmd þjónustu við utangarðsfólk.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 31. júlí 2018:
Lagt er til að borgin noti þá reiti sem hún hefur nýlega fest kaup á í Arnarbakki 2-6 í neðra Breiðholti og Völvufell 11 og 13-21 til að byggja íbúðir fyrir fjölskyldur sem hafa verið í húsnæðisvanda lengi og eiga í dag ekki fastan samastað. Fyrir þessa kjarna hefur borgin greitt rúmlega 752 milljónir króna og vel við hæfi þegar farið er að skipuleggja þessa reiti að forgangshópurinn verði þeir sem hafa verið á hrakhólum húsnæðislega, fjölskyldur jafnt sem einstaklingar. Fólk í húsnæðisvanda og heimilislausir og hópur þeirra sem ekki eiga fastan samastað sem þeir geta kallað heimili sitt hefur aukist síðustu árin. Biðlisti eftir félagslegu húsnæði hefur lengst sem sýnir að vandinn fer vaxandi með hverju ári. Nú þegar borgin hefur fest kaup á þessum tveimur kjörnum leggur Flokkur fólksins til að þeir verði nýttir að hluta til eða öllu leyti til uppbyggingar fyrir þá sem eru í og hafa lengi verið í húsnæðisvanda. Ýmist má hugsa sér að leiga íbúðirnar hjá leigufélögum sem eru óhagnaðardrifin eða selja þær á hagkvæmu verði sem efnaminna fólk ræður við að greiða án þess að skuldsetja sig langt umfram greiðslugetu. Mestu skiptir að gróðasjónarmið fái hér ekki ráðið. R18070088
Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:Ráðist var í stórfelld kaup á reitum fyrir háar fjárhæðir af hálfu meirihlutans í borgarstjórn án þess að fyrir liggi skýr áætlun um not á þeim. Við teljum að þarna hafi verið farið óvarlega með fé sem annars hefði verið hægt að nýta mun betur meðal annars í þágu heimilislausra.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lýsir vonbrigðum sínum að þessi tillaga um að nýkeyptir reitir í Breiðholti verði byggðir og leigðir út til fólks í húsnæðisvanda hefi verið felld af meirihlutanum. Hér hefur verið varið gríðarlegu fjármagni í þessa tvo reiti en ekkert er um það að þarna verði húsnæði fyrir þá sem eiga litla möguleika á að leigja á húsnæðismarkaðinum eins og hann er í dag eða festa kaup á fasteign á verði sem samræmist greiðslugetu þeirra efnaminni. Ljóst er að nægt fjármagn er til hjá borginni og ætti því enginn að þurfa að vera heimilislaus. Hér var um að ræða tillögu Flokks fólksins, ein af fleirum sem lögð var fram með það markmiði að mæta þörfum fólks í heimilisvanda en sá hópur er mjög fjölbreyttur
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Farin er af stað vinna við deiliskipulag fyrir hverfiskjarna í Arnarbakka og Völvufelli. Uppbyggingin mun byggja á áherslum íbúa úr Hverfisskipulagi þar sem óskað var eftir fjölbreyttri þjónustu, verslunum og aðstöðu fyrir lifandi félagsstarf. Fjölgun íbúða á svæðinu er unnin samhliða og munu þá að minnsta kosti 25% íbúða miðast við þarfir þeirra sem ekki vilja eða geta lagt mikið fé í eigið húsnæði. Ekki er talið ráðlagt að hækka umfram það hlutfall til að tryggja félagslega blöndun.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, dags. 31. júlí 2018:
Lagt er til að Reykjavíkurborg taki til leigu eða festi kaup á íbúðarhæfum rýmum tafarlaust fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem eru án heimilis. Slíkt neyðarhúsnæði skal hugsað sem tímabundið úrræði meðan unnið er að varanlegri lausn á málefnum einstaklinga sem þar dvelja.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18070088
Vísað til meðferðar velferðarráðs.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks Fólksins:Við styðjum að fjölgað verði neyðarþjónustuúrræðum fyrir heimilislausa og hefðum viljað taka þessa tillögu til efnislegrar afgreiðslu í borgarráði í stað þess að vísa henni frá.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Á síðasta ári varði borgarsjóður meira en tveimur milljörðum til að kaupa 75 íbúðir fyrir fólk í brýnni þörf eftir húsnæði. Þá var Húsnæði fyrst verkefninu hleypt af stokkunum auk annarra úrræða. Er stefnan sú að halda áfram á þessari braut.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 31. júlí 2018:
Lagt er til að borgin tilgreini svæði fyrir hjólhýsi og húsbíla til framtíðar í nálægð við alla helstu grunnþjónustu í Reykjavík. Það er ákveðinn hópur í Reykjavík sem óskar eftir því að búa í hjólhýsunum sínum og það ber að virða. Sem dæmi má nefna að það líður ekki öllum vel að búa í sambýli eins og í fjölbýlishúsum og finnst líka frelsi sem búseta í hjólhýsi eða húsbíl veitir henta sér. Sumir í þessum hópi sem hér um ræðir hafa átt hjólhýsi í mörg ár og hafa verið á flækingi með þau. Veturnir hafa verið sérlega erfiðir því þá loka flest tjaldstæði á landsbyggðinni. Á meðan verið er að undirbúa fullnægjandi hjólhýsa- og húsbýlagarð þar sem hjólhýsabyggð getur risið er lagt til að Laugardalurinn bjóði þennan hóp velkominn allt árið um kring þar til fundinn er hentug staðsetning þar hjólhýsabyggð getur risið í Reykjavík. Á það skal bent að í Laugardalnum er mikið og stórt autt svæði sem er ónotað. Þar er þjónustumiðstöð og sundlaug og stutt í alla aðra þjónustu.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18070088
Vísað til meðferðar velferðarráðs.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Nú hafa allar tillögur Flokks fólksins verið lagðar fyrir og ýmist verið frestað, vísað í ráð og ein felld. Væntingar Flokks fólksins fyrir þennan neyðarfund sem stjórnarandstaðan óskaði eftir voru þær að meirihlutinn myndi taka tillögum stjórnarandstöðunnar með mun opnari huga en raun bar vitni. Vonir stóðu til að teknar yrðu ákvarðanir um að framkvæma. Ganga til aðgerða! Hvað varðar tillögur meirihlutans voru flestar þeirra með einhvers konar fyrirvara eða skuldbindingum um sameiginlega ábyrgð sveitarfélaga eða háðar viðræðum við ríkið. Flokkur fólksins vill benda á að þeir sem eru húsnæðislausir hafa ekki endalausan tíma til að bíða eftir úrræðum. Vandinn er núna og við honum þarf að bregðast hratt og örugglega. Upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins er að borgarmeirihlutinn hafi verið ansi mikið á bremsunni á þessum fundi og frekar fátt bendir til þess að bretta eigi upp ermarnar af krafti fyrir veturinn til að laga stöðu þessa viðkvæma hóps.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti borgarstjórnar leggur áherslu á samráð við hagsmunaaðila og einstaklinga við alla stefnumótun og eftirfylgni stefnu í öllum málaflokkum. Því er mikilvægt að tryggja slíkt samráð áður en ákvarðanir eru teknar og til þess gefst tækifæri á fundi velferðarráðs 10. ágúst og í áframhaldand stefnumótun í málaflokknum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins, dags. 31. júlí 2018:
Lagt er til að sagður verði tafarlaust upp samningur við leigutaka í Laugardal og settir nýjir skilmálar fyrir rekstur tjaldsvæðisins. R18070088
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun.
Ástand á tjaldsvæði í Laugardal er óviðunandi og verðlag er mjög hátt. Við teljum rétt að samningi við rekstraraðila sé sagt upp. Það vekur furðu að málið sé ekki tekið föstum tökum og tillagan sé felld.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarf Reykjavíkurborgar og Farfuglanna um rekstur tjaldstæðanna í Laugardal hefur gengið vel undanfarin ár og því telur borgarráð ekki ástæðu til að segja upp samningi milli Reykjavíkurborgar og Farfuglanna tafarlaust og án rökstuðnings og viðræðna við samtökin.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins, dags. 31. júlí 2018:
Lagt er til að beina tilmælum til rekstraraðila um tafarlausa lækkun á stöðugjöldum í
langtímaleigu fyrir hjólhýsi í Laugardal sem hafa hækkað mikið. R18070088Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Í samningi við rekstraraðila á tjaldsvæði í Laugardal er því miður ekki ákvæði um gjaldskrá. Það hlýtur að skoðast sem handvömm. Í þessari tillögu er einfaldlega verið að fara fram á tilmæli til rekstraraðila. Það er dapurlegt að ekki sé unnt að verða við slíkri beiðni.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Nú þegar er ákvæði í rekstrarsamningi við Farfugla ses. um að ákvarðanir um gjaldskrá séu á hendi leigutaka. Því er ekki tækt að borgarráð beini tilmælum um tafarlausa lækkun á gjaldskrá þar sem ákvarðanir um slíkt eru ekki á forræði Reykjavíkurborgar.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins, dags. 31. júlí 2018:
Lagt er til að komið verið upp neyðarskýli fyrir haustið. Ekki er komið nýtt skýli í stað dagskýlisins í Örfirisey sem Hjálpræðisherinn missti. Nýtt dagskýli fyrir fólk í neyð þarf nauðsynlega að koma fyrir veturinn.R18070088
Samþykkt að með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna að vísa tillögunni til velferðarráðs gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins í borgarráði leggja ríka áherslu á nauðsyn þess að komið verði upp dagskýli fyrir húsnæðislausa tafarlaust. Við lýsum óánægju með þá niðurstöðu meirihluta borgarstjórnar að tillögunni verði vísað til velferðarráðs. Slík málsmeðferð tekur almennt langan tíma og gefur ekki fyrirheit um raunhæfar lausnir fyrir haustið. Tillagan felur í sér mikilvægt úrræði fyrir fólk í neyð.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikil þróun hefur verið í þjónustu við fólk sem er utangarðs. Horft hefur verið á skaðaminnkandi hugmyndafræði og virkni og ráðgjafateymi vinnur með viðkomandi einstaklingum. Þegar dagsetri var lokað var ákveðið að opna gistiskýlið þeim sem þess þurfa yfir daginn og samvinna aukin við Samhjálp sem hefur sinnt mikilvægri þjónustu á kaffistofu sinni. Tillögunni er vísað til velferðarsviðs til meðferðar í stýrihóp sem móta á nýja stefnu í málefnum heimilislausra og utangarðsfólks fyrir Reykjavíkurborg.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um samskipti borgarinnar við leigufélög sem fengið hafa stofnframlög. R18070088
Frestað. -
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins, dags. 31. júlí 2018:
Óskað er útskýringa á ósamræmi í tölum borgarinnar og hjá Samtökum iðnaðarins varðandi íbúðir í smíðum sem er yfir 200%. Í frétt RÚV frá 22.7. 2018 var sagt frá 3.700 íbúðum í smíðum þar af væru 1.400 félagslegar íbúðir en skv. tölum frá Samtökum iðnaðarins eru 1.700 íbúðir alls í smíðum. R18070088
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um aðstöðu fyrir heimilislaust fólk, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. júlí 2018. Einnig er lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 31. júlí sl. R18070088
Frestað.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Gefin er ákveðinn frestur til svara og er velferðarsvið ennþá innan tímamarka. Ekki var vitað af aukafundi borgarráðs þegar fyrirspurnin var send til umsagnar en svörin verða komin fyrir næsta reglulega fund.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins, dags. 31. júlí 2018:
Lagt er til að kannaðir verði möguleikar á nýtingu færanlegs húsnæðis sem neyðarúrræði. Velferðarsviði verði falið að koma með tillögur á fund velferðarráðs 10. ágúst. R18070088
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 4. júní 2018, þar sem óskað er eftir tilnefningu fulltrúa á landsþing Sambandsins 26.-28. september 2018, ásamt boðun landsþingsins, dags. 20. júlí 2018. R18060038
Frestað.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
a. Hver er skilgreining á félagslegri íbúð? b. Hver er skilgreiningin á utangarðseinstaklingi? R18070088
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Reykjavíkurborg og Sjúkratryggingar Íslands gerðu mér sér samning árið 2016 um rekstur og framkvæmd heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu. Samningurinn felur í sér að Reykjavíkurborg reki heimahjúkrun sem samþætt er með rekstri félagslegrar heimaþjónustu í Reykjavík. Nú hafa fregnir borist af því að ástandið sé orðið það alvarlegt að útskriftir af sjúkrahúsum tefjist vikum saman vegna þjónustuskerðingar og skorti á heimahjúkrun. Þannig má leiða líkum að því að Reykjavíkurborg sé að brjóta ákvæði samningsins enda kemur fram á vefsvæði velferðarsviðs um framkvæmd þjónustunnar að þjónusta hefjist innan tveggja til þriggja daga eftir að beiðni liggur fyrir. Staðan er hinsvegar sú að fólk sem er tilbúið til útskriftar á sjúkrahúsum kemst ekki heim til sín. Eðli málsins skv. leiðir þetta til aukins kostnaður, lengri biðtíma eftir innlögnum og mikilla óþæginda fyrir þá sem eru tilbúnir til útskriftar. Með hliðsjón af þessum staðreyndum er óskað eftir að málið verði tekið upp á næsta fundi borgarráðs og kallaðir verði til fundarins heilbrigðisráðherra og forstöðumaður Sjúkratrygginga. Þá er óskað svara við því til hvaða ráðstafana Reykjavíkurborg hefur gripið til í því skyni að leysa þennan vanda? Rétt er að fara fram á að svar við spurningu þessari liggi fyrir á næsta fundi borgarráðs enda rétt að kynna ráðherra og forstöðumanni Sjúkratrygginga stöðu mála með gagnsæjum hætti. R16010088
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
1. Farið verði tafarlaust í að skilgreina lögbundið hlutverk Reykjavíkur og fjármagni forgangsraðað í grunnþjónustu. 2. Farið verði tafarlaust í kerfisbundinn niðurskurð á skrifstofu borgarstjóra og í annarri stjórnsýslu borgarinnar. 3. Tekið verði tafarlaust upp ráðningarstopp í stjórnsýslu Reykjavíkur en lögbundinni þjónustu og grunnstoðum verði hlíft. 4. Dregið verði úr utanferðum kjörinna fulltrúa og embættismanna borgarinnar og skilagrein gerð fyrir hvers vegna ferð var farin. 5. Farið verði í bestun í öllum innkaupum borgarinnar og að m.k. 10% hagræðingu verði náð. 6. Allar þessar aðgerðir komi til með að liggja til grundvallar fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir árið 2019. R18070175
Frestað.
Fundi slitið klukkan 15:30
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir
Líf Magneudóttir Hildur Björnsdóttir
Marta Guðjónsdóttir