Stofnframlög

Reykjavíkurborg veitir stofnframlög til kaupa eða byggingar á leiguíbúðum fyrir fjölskyldur og einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkum. Markmið með veitingu stofnframlaga er að bæta húsnæðisöryggi í Reykjavík með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda. 

Um stofnframlög

Veitingu stofnframlaga er ætlað að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir í Reykjavík á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda. Þessi markmið falla vel að húsnæðisstefnu og húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar. 

Til að ná þessum markmiðum skal lögð sérstök áhersla á nýbyggingar og að fjölga leiguíbúðum sem uppfylla skilyrði laga um almennar íbúðir og reglna Reykjavíkurborgar um stofnframlög. 

Hver geta sótt um?

Eingöngu er heimilt að veita stofnframlag til eftirtalinna aðila: 

  • Húsnæðissjálfseignarstofnana og lögaðila sem eru alfarið í eigu Reykjavíkurborgar. 
  • Lögaðila sem starfandi voru fyrir gildistöku laga um almennar íbúðir og uppfylltu skilyrði til að fá lán frá Íbúðalánasjóði skv. þágildandi 37. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. 
  • Annarra lögaðila sem ráðherra hefur heimilað að verði veitt stofnframlag enda séu þeir ekki reknir í hagnaðarskyni og það samræmist tilgangi og markmiðum laga um almennar íbúðir. 

Áður en sótt er um 

Aðili sem sækir um stofnframlag til Reykjavíkurborgar þarf að hafa uppi áform um byggingu eða kaup á íbúðarhúsnæði sem ætlað er leigjendum sem eru undir þeim tekju- og eignamörkum sem tilgreind eru í lögum um almennar íbúðir. Áformin skulu vera í samræmi við markmið húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar og samræmast húsnæðisáætlun borgarinnar með tilliti til þarfar fyrir leiguhúsnæði og uppbyggingu þess á hverjum tíma. 

Hvernig er sótt um? 

Sótt er um stofnframlög á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Stofnframlög | Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (hms.is)

Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að eiga fund með umsækendum og kalla eftir frekari gögnum.

 

 

 

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur um stofnframlög er til og með  18. mars 2024. Heimilt er að synja umsókn hafi nauðsynleg gögn ekki borist innan auglýsts umsóknarfrests. 

Borgarráð tekur ákvörðun um að samþykkja eða synja umsóknum um stofnframlög í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar um stofnframlög eigi síðar en 30 dögum eftir að umsóknarfrestur rennur út. Sé umsókn um stofnframlag samþykkt er stofnframlag Reykjavíkurborg aðeins veitt ef Húsnæðis- og mannvirkjastofnun samþykkir að veita einnig stofnframlag ríkisins innan sex mánaða frá samþykki borgarráðs. 

Mat á umsóknum

Sérstök matsnefnd fer yfir umsóknir um stofnframlög og gerir tillögu til borgarstjóra um afgreiðslu þeirra. Matsnefnd er heimilt að leita faglegrar ráðgjafar innan og utan borgarkerfisins. 

Borgarráð staðfestir veitingu einstakra stofnframlaga, að fenginni tillögu matsnefndar, séu fjárheimildir fyrir þeim. 

Við afgreiðslu umsókna

skal m.a. lagt mat á eftirfarandi atriði:

  • Hvort umsókn um stofnframlag samræmist ákvæðum laga og reglugerða. 
  • Hvort verkefnið rúmist innan fjárheimilda skv. fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og hvort áhrif veitingar stofnframlaga á rekstur, efnahag og sjóðstreymi Reykjavíkurborgar sé í samræmi við forsendur áætlunar. 
  • Hvort það húsnæði sem á að byggja eða kaupa teljist hagkvæmt og uppfylli þarfir íbúa þannig að ásættanlegt sé. 
  • Hvort þörf er á leiguhúsnæði af þeirri stærð og gerð og í því hverfi sem húsnæðið er staðsett fyrir þann hóp sem húsnæðinu er ætlað að þjóna, með hliðsjón af húsnæðisáætlun borgarinnar. 
  • Hvort áætlað leiguverð sé í samræmi við greiðslugetu væntanlegs leigjendahóps. 
  • Hvort fjármögnun útgjalda vegna verkefnisins, m.a. vegna framkvæmda, rekstrar, reglulegs viðhalds, endurbóta og endurgreiðslu lána og stofnframlaga, sé traust og hvort fjármögnun hafi verið tryggð með full­nægjandi hætti. 
  • Hvort fyrirliggjandi gögn, s.s. áætlun um stofnvirði, viðskiptaáætlun og áætlað leiguverð, séu traust og raunhæf og hvort líklegt sé að þessar áætlanir gangi eftir þannig að verkefnið nái tilgangi og markmiði laga og húsnæðisáætlunar Reykjavíkurborgar. 
  • Hvort umsókn samræmist að öðru leyti tilgangi og markmiði laga og húsnæðisáætlunar Reykjavíkurborgar. 
  • Heimilt er að taka mið af efnahagslegum aðstæðum í samfélaginu og áhrifum byggingarstarfsemi á samfélagið og hagkerfið.  

Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.   

Nánari upplýsingar um stofnframlög Reykjavíkurborgar eru veittar gegnum netfangið stofnframlag@reykjavik.is