Hagkvæmt húsnæði - ungt fólk og fyrstu kaupendur

Hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur er verkefni sem Reykjavíkurborg hleypti af stokkunum með hugmyndaleit árið 2018. Þegar hafa verið afhentar 110 af yfir 700 íbúðum sem áætlað er að reisa en Þorpið-Vistfélag er að ljúka sínu verkefni í Gufunesi.
 

Tryggt að íbúðir hækki ekki umfram vísitölu  

Verkefnið um hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur hefur verið hluti af Húsnæðisáætlun Reykjavíkur frá júní 2017. Níu samstarfsaðilar, valdir í gegnum opið samkeppnisferli, taka þátt og þróa hagkvæmt húsnæði. 

Áherslur borgarinnar um hagkvæmt húsnæði falla vel að skilyrðum um hlutdeildarlán sem tóku gildi haustið 2020. 

Borgin tryggir hag kaupenda 

Reykjavíkurborg bindur lóðaúthlutun ákveðnum skilyrðum til að ágóði lóðaúthlutunar skili sér til kaupendanna, ungs fólks og fyrstu kaupenda. Með þinglýsingu kvaða á íbúðirnar eru settar skorður fyrir því að íbúðir hækki í verði umfram vísitölu.

Yfirlit yfir verkefni og reiti 

Þorpið vistfélag í Gufunesi

Þorpið vistfélag hefur selt allar 137 íbúðirnar sem félagið byggði í Gufunesi á Jöfursbás 11. Nánar um uppbyggingu félagsins á vefsíðu Þorpsins

Hverfið Gufunes í Gufunesi  

Félagið Hverfið Gufunes byggir nú fyrstu 14 íbúðirnar af 65 við Jöfursbás 9 og er áætlað að verki ljúki 2024. Teiknistofa arkitekta hannaði og verða húsin þrjár hæðir og ris úr norskum timbureiningum. 

Vaxtarhús við Sjómannaskólareit

Félagið Vaxtarhús mun byggja 60 íbúðir á reitnum við Háteigsveg 35. Deiliskipulag er samþykkt og er lóðin byggingarhæf. Arkitekt er Rafael Pinho.

Urðarsel í Úlfarsárdal 

Í Leirtjörn byggðu fyrirtækin Urðarsel, Alverk, Arkþing Nordic og Efla 52 íbúða fjölbýlishúss í þremur kjörnum með bílastæðageymslu. Þau voru afhent kaupendum haustið 2024. Skoða frétt um afhendingu íbúða

HOOS í Skerjafirði 

Unnið er að þróun íbúða í norðausturhorni Nýja Skerjafjarðar undir merkjum Hoos sem fengu úthlutað lóð á vordögum 2022. Deiliskipulag er samþykkt eftir er að gera lóðina byggingarhæfa.

Investis á Kjalarnesi

Félagið Investis ehf. hyggst byggja eininga- eða modulahús, á einni til tveimur hæðum á lóð í Grundarhverfi á Kjalarnesi. Hönnun húsanna stendur yfir. Gert er ráð fyrir að þau verði raðhús, fimm íbúðir í lengju eða 8-12 íbúðir á tveimur hæðum. 

Variat á Veðurstofuhæð 

Hópurinn Variat, sem í eru fyrirtækin Habilus og Teiknistofa arkitekta, vinnur að þróun á reit við Veðurstofuna. Skipulagsvinna fer af stað á næstunni. 

Bryggjuhverfi III 

Sedrus og Modulus áforma uppbyggingu á reitum G og  D í Bryggjuhverfi III. Verið er að gera lóðirnar byggingarhæfar sem ætti að gerast á 4 ársfjórðungi 2022 eða þeim fyrsta 2023.  
 

Forsaga sóknarátaksins

Í Húsnæðisáætlun Reykjavíkur sem samþykkt var í borgarstjórn í júní 2017 voru fyrst tilgreindar tillögur um ódýrari íbúðir, ungt fólk og fyrstu kaupendur. 

Til að vinna að þeim var stofnaður starfshópur skv. erindisbréfi borgarstjóra og stóð hann árið 2017 fyrir hugmyndaleit að lausnum fyrir hagkvæmt húsnæði. 

Í apríl 2018 samþykkti borgarráð að leggja fram lóðir fyrir verkefnið og í framhaldinu var efnt til sóknarátaks með það að markmiði að byggja rúmlega 500 íbúðir. 

Alls bárust 68 tillögur og voru þær kynntar í mars 2019. Í framhaldinu var auglýst eftir samstarfsaðilum og skiluðu 16 hópar inn gögnum. Þeir kynntu hugmyndir sínar haustið 2018 og að loknu mati samþykkti borgarráð í byrjun nóvember 2018 að ganga til samninga við níu stigahæstu aðilana, einn heltist úr lestinni  en hinir átta vinna ötullega að sínum verkefnum.