Húsnæði fyrir alla

Teikning af samsetningu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis

Á meðal markmiða húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar og Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 er fjöl­breytt framboð húsnæðiskosta og aukið framboð húsnæðis fyrir alla félagshópa og félagsleg fjöl­breytni innan hverfa. Stuðlað skal að félagslegri blöndun íbúa og uppbyggingu leigumarkaðar.

Fjölbreytt húsnæði

Stefnt verði að því að um 25% íbúða í hverfum verði leiguíbúðir, námsmannaíbúðir, búseturéttaríbúðir, félagslegar leiguíbúðir, íbúðir fyrir aldraða og húsnæði fyrir fatlað fólk. 

Samvinna við traust leigu- og búseturéttarfélög sem hafa fjárhagslega burði til að ráðast í uppbyggingu en eru rekin án hagnaðarsjónarmiða er því lykilþáttur í framfylgd húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar. 

Með húsnæðisáætlun Reykjavíkur 2017 var stefnt að uppbyggingu 2.500-3.000 leigu- og búseturéttaríbúðum í borginni á þremur til fimm árum. Til viðbótar er stefnt á yfir 600 íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur og að leigueiningum Félagsbústaða fjölgi um 600. 

Nú liggja fyrir vel yfir 3.000 staðfest áform félaga sem byggja án hagnaðarsjónarmiða og þegar hafa verið byggðar yfir 1.300 íbúðir í borginni á vegum húsnæðisfélaga.

Hagkvæmt húsnæði fyrir fyrstu kaupendur

Reykjavíkurborg vinnur með samstarfsaðilum að því að fjölga hagkvæmum íbúðum fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í borginni.

 

Verkefnið nær yfir þróunarreiti um alla borg.

Loftmynd frá Gufunesi.

Markmið húsnæðisuppbyggingar án hagnaðarsjónarmiða

Húsnæðisfélög Markmið
Samstarf við verkalýðshreyfinguna 1.000
Námsmannaíbúðir 1.340
Íbúðir eldri borgara og hjúkrunarrými 450
Búseturéttaríbúðir 450
Húsnæði fyrir fatlað fólk 110
Samtals: 3.350
   
Hagkvæmt húsnæði 600
Félagsbústaðir 600

Íbúðir í byggingu

Í dag eru 1.227 íbúðir í byggingu á vegum húsnæðisfélaga í Reykjavík samkvæmt húsnæðisáætlun borgarinnar eða sem nemur 40% af íbúðum í byggingu. Alls eru íbúðir húsnæðisfélaga nær 7.000  í húsnæðisáætluninni eða 29% allra íbúða. 

Reykjavíkurborg hefur einnig beitt sér fyrir uppbyggingu húsnæðisúrræða fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og sinnt þjónustu og útvegað húsnæði fyrir flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd á grundvelli samnings við ríkisvaldið. 

Þá stuðlar Reykjavíkurborg að uppbyggingu íbúða með veitingu stofnframlaga og úthlutun íbúðahúsalóða.