Fellaskóli
Grunnskóli, 1.-10. bekkur
Norðurfell 17–19
111 Reykjavík
Skóladagatal Fellaskóla
Hér finnur þú skóladagatal Fellaskóla. Í skóladagatali eru skipulagsdagar skráðir ásamt öðrum mikilvægum upplýsingum fyrir foreldra og forráðamenn.
Matur í grunnskólum
Skólamáltíðir eru gjaldfrjálsar veturinn 2024-2025 en mikilvægt er fyrir skólann að hafa áfram yfirsýn, halda utan um upplýsingar um ofnæmi og óþol og takmarka matarsóun. Því þarf eins og áður að skrá nemendur í mataráskrift.
Þeir nemendur sem voru skráðir í fyrra verða sjálfkrafa skráðir í áskrift en aðrir þurfa að skrá sig. Breyting á skráningu fer fram á matur.vala.is.
Um Fellaskóla
Fellaskóli er heildstæður grunnskóli. Nemendur eru u.þ.b. 360 og eru að jafnaði ein til tvær bekkjardeildir í árgangi. Í Fellaskóla er unnið að því að breyta skólastarfinu í samræmi við menntastefnu Reykjavíkurborgar. Verkefnið kallast Draumaskólinn Fellaskóli. Markmiðið er að efla íslenskukunnáttu og árangur nemenda ásamt því að efla sjálfsálit og sjálfstæði þeirra þannig að þeir geti látið drauma sína rætast. Leiðarljós í skólastarfinu eru mál og læsi, leiðsagnarnám, tónlist og skapandi skólastarf.
Stuðlað er að alhliða þroska og menntun hvers og eins og stutt er við jákvæða hegðun nemenda í samræmi við uppeldisstefnuna um jákvæða aga. Við skólann er starfrækt sérdeild fyrir einhverfa sem ætluð er börnum með greiningu á einhverfurófi. Einkunnarorð skólans eru virðing, ábyrgð, vinsemd. Framtíðarsýn skólans er að allir finni sig vera á heimavelli. Í skólanum er litið svo á að menningarlegur fjölbreytileiki auðgi skólastarfið og lögð er áhersla á að virðing sé borin fyrir uppruna og menningu einstaklinga.
Nemendur í 1. og 2. bekk eru í samþættu skóla- og frístundastarfi til 15:40. Eftir það stendur til boða að skrá börn sín í frístundaheimili til 17:00. Nemendur í 3. og 4. bekk geta tekið þátt í frístundastarfi í Hraunheimum sem er safnfrístund fyrir Fellaskóla og Hólabrekkuskóla og félagsmiðstöðin Hundrað&ellefu býður upp á fjölbreytt og skemmtilegt starf fyrir börn og unglinga.
- Skólastjóri: Helgi Gíslason
- Aðstoðarskólastjóri - málefni nemenda á eldra stigi: Fróði Jakobsen
- Aðstoðarskólastjóri - málefni nemenda á yngra stigi og deildarstjóri stoðþjónustu: Bryndís Snorradóttir
- Deildarstjóri leiðsagnarnáms og verkefna: Sólveig Ágústsdóttir
- Deildarstjóri máls og læsis: Brynja Baldursdóttir
- Deildarstjóri tónlistar og skapandi skólastarfs: Inga Björg Stefánsdóttir
- Rekstrarstjóri: Erling Þór Birgisson
- Deildarstjóri sérdeildar fyrir einhverfa: Þórunn Brynja Jónasdóttir
- Forstöðumaður Vinafells: Kristinn Guðnason
- Námsráðgjafi: Sigríður Filippía Erlendsdóttir
Farsæld barna
Ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna hafa tekið gildi. Markmiðið er að tryggja að börn og forsjáraðilar fái rétta aðstoð, á réttum tíma, frá réttum aðilum. Fjölskyldum og börnum sem þurfa snemmtækan stuðning er tryggður aðgangur að tengilið farsældar í nærumhverfi barnsins, svo sem í leikskóla eða grunnskóla. Tengiliður farsældar veitir upplýsingar og leiðbeiningar um þjónustu og stuðlar að því að börn og forsjáraðilar hafi aðgang að þjónustu án hindrana. Til að óska eftir samþættri þjónustu geta börn, ungmenni og forsjáraðilar haft samband við tengilið farsældar.
Tengiliður Fellaskóla er: Fróði Jakobsen
Er barnið þitt að byrja í grunnskóla?
Á þessari síðu færðu gagnlegar upplýsingar um skólabyrjun. Eins og til dæmis hvað börnin þurfa að taka með sér í skólann og hvort börnin fái mat á skólatíma.
Upplýsingar um ástand húsnæðis í Fellaskóla
Í vor vaknaði grunur um að kanna þyrfti innivist í Fellaskóla. Hér má nálgast nánari upplýsingar um ástand húsnæðis í Fellaskóla.
Skólahverfi Fellaskóla
Í Reykjavík eru mörg skólahverfi og lögheimili barnsins ræður því í hvaða hverfisskóla það fer. Barnið þitt hefur forgang í sinn hverfisskóla. Engu að síður eiga allir foreldrar kost á að sækja um skóla fyrir börn sín hvar sem er í borginni samkvæmt reglum um skólahverfi, umsókn og innritun. Hér finnur þú upplýsingar um hvaða götur tilheyra skólahverfi Fellaskóla.
Foreldrasamstarf
Við erum öll í þessu saman, enda er oft sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Í skólum borgarinnar er markvisst unnið að því að auka samráð við foreldra og styrkja aðkomu þeirra að skólastarfi. Foreldrafélag er starfrækt í öllum skólum Reykjavíkurborgar.