Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun

Réttlát dreifing gæða og fjármuna með tilliti til stöðu borgarbúa.

Íbúar eru hornsteinar í öllu starfi Reykjavíkurborgar. Til þess að þjónusta borgarinnar henti þeim og stuðli að jöfnum tækifærum þeirra er mikilvægt að greina áhrif opinbers fjármagns og verklags á íbúa. Árið 2011 var tekin sú ákvörðun að hefja innleiðingu á kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun (e. gender budgeting) hjá Reykjavíkurborg.

Markmið

Markmiðið með innleiðingunni er að samþætta í raun mannréttindastefnu og fjármálastefnu borgarinnar. Stefnt er að réttlátri dreifingu fjármuna og gæða með tilliti til þarfa borgarbúa.

Af hverju og hvernig?

Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun er stefnumótunartæki sem hefur verið nýtt víða um heim í allmörg ár. Sífellt fleiri borgir eru nú að vinna að því að innleiða hana sem hluta af verklagi fjárhagsáætlunar. Slík innleiðing krefst fyrst og fremst vinnu og viðhorfsbreytinga. Það er vinna sem mun skila sér margfallt til baka og leiða til skilvirkari verkferla og aukins sýnileika í nýtingu fjármagns svo dæmi séu tekin. Unnið er að innleiðingunni í áföngum eins og sjá má hér að neðan:

 

 

Innleiðingarferlið

1. áfangi

Formlegt innleiðingarferli kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hófst árið 2011 þegar stýrihópur var skipaður um vinnuna. Hlutverk hans er að vinna að kynjaðri fjárhags- og starfsáætlunargerð hjá Reykjavíkurborg. 

2. áfangi

Árið 2012 voru 16 tilraunaverkefni unnin á vegum borgarinnar með það að markmiði að þróa aðferðir og tæki hugmyndafræði kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar. Tilgangur með þeim verkefnum var meðal annars að byggja upp þekkingu og efla vitund fólks. Vinnan að þeim var mikilvægur þáttur í innleiðingarferli KFS. Hún staðfesti meðal annars þjóðfélagsmynd þar sem samfélagslegri ábyrgð er misskipt og konur og karlar nýta sér þjónustu borgarinnar með ólíkum hætti. 

3. áfangi

Á árinu 2013 hefur innleiðingarferli kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar (KFS) verið þróað enn frekar. Í febrúar samþykkti borgarráð breytingar á reglum um gerð fjárhagsáætlunar til þess að tryggja framgang kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar. Starfshópar voru skipaðir í mars og apríl til að vinna greiningar á einum stórum þjónustuþætti á hverju sviði fyrir sig. Ákveðið var að greina sjö þjónustuþætti árið 2013. Umfang greininganna er mismunandi og ræðst tímaramminn af því. Á menningar- og ferðamálasviði er unnið að greiningu á gestum menningarstofnana og er greiningin afmörkuð við börn. Á Íþrótta- og tómstundasviði er unnið að greiningu á frístundakortinu. Á Skóla- og frístundasviði er unnið að greiningu á stuðningi í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum. Á Umhverfis- og skipulagssviði er unnið að greiningu á skipulagsmálum borgarinnar. Á Velferðarsviði er unnið að greiningu á framfærslustyrk. Á mannréttindaskrifstofu er unnið að greiningu á stuðningi við innflytjendur og á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara er unnið að greiningu á atvinnuátaki.
Á fjármálaskrifstofunni er að auki unnið að greiningu á best practice verklagi við innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar og áformað að setja fram tillögu í því efni. Afurðin verður grunnur að handbók KFS.

4. áfangi

Stefnt er að því að fjórði áfangi verði síðasta skrefið í innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar. Áætlað er að hann eigi sér stað á árunum 2015 - 2018. 

Frekari upplýsingar

Verkefnisstjóri er Lára Rúnarsdóttir
Netfang: lara.runarsdottir@reykjavik.is
Sími: 411 3739

 

 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

3 + 2 =