Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun

Teikning af konu og manni í sitthvorri vogarskálinni.

Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun (KFS) er tæki sem notað er til þess að stuðla að jafnrétti og betri og réttlátari nýtingu fjármuna með tilliti til ólíkra þarfa borgarbúa. Hér fyrir neðan má sjá stutt kynningarmyndband um aðferðafræði kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar unnið í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og Freyja filmwork. 

 

Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun (KFS)

Íbúar eru hornsteinar í öllu starfi Reykjavíkurborgar. Til þess að þjónusta borgarinnar henti ólíkum þörfum íbúa og stuðli að jöfnum tækifærum þeirra er mikilvægt að greina áhrif opinbers fjármagns og verklags á íbúa. Markmiðið með innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar (KFS) hjá Reykjavíkurborg er að samþætta mannréttindastefnu og fjármálastefnu borgarinnar. Stefnt er að réttlátri dreifingu fjármuna og gæða með tilliti til mismunandi þarfa borgarbúa.

KFS er hluti af aðferðarfræði sem kallast samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða. Sú aðferðarfræði er skilgreind skv. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 sem leið til þess að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn jafnréttis kynja sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu. Kynjasamþætting er því hugsuð sem hluti af almennu starfi en ekki sem viðbót.

Við kynjaða fjárhags- og starfsáætlunargerð er einblínt á fjárhagsáætlunarferlið og ákvarðanatöku. Það er því hægt að lýsa KFS sem einhverskonar árangurs- eða gæðastjórnunarkerfi sem tekur sérstaklega mið af mismunandi stöðu ólíkra hópa í samfélaginu og leitast við að gegna því mikilvæga hlutverki stjórnvalda að gæta að jafnrétti.

 

Hafa samband

Fyrir nánari upplýsingar má hafa samband við verkefnastýru kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar.