Þekkingarkista um loftslagsmál
Loftslagsmál eru eitt stærsta viðfangsefni samtímans en áhrif þeirra á líf fólks geta verið ólík eftir stöðu fólks í samfélaginu. Hér er búið að kortleggja helstu kynja- og jafnréttissjónarmið sem horfa þarf til samhliða þróun samfélagsins í átt að kolefnishlutleysi.
Um verkefnið
Til þess að aðgerðir sem gripið er til í umhverfis- og loftslagsmálum beri árangur og stuðli að jafnrétti, jöfnum tækifærum og félagslegu réttlæti er mikilvægt að opinber stefnumótun og ákvarðanataka taki mið af ólíkri stöðu fólks innan samfélagsins. Þekkingarkistan er afurð rannsóknar sem fékk styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2022 og var unnið í samstarfi við Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar og Kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Miðaði verkefnið að því að kortleggja kynja- og jafnréttissjónarmið sem horfa þarf til samhliða þróun Reykjavíkurborgar í átt að kolefnishlutleysi en vonast er til að þessi þekkingarkista nýtist einnig öðrum sveitarfélögum, stjórnvöldum og stofnunum í vegferð sinni að réttlátum umskiptum í umhverfis- og loftslagsmálum.
Skýrslan Réttlát umskipti á leiðinni til kolefnishlutleysis
Grundvöllur þekkingarkistunnar er rannsókn og skýrsla sem unnin var af Brynhildi Hallgrímsdóttur sumarið 2022. Í skýrslunni er að finna nánari upplýsingar um rannsóknina, aðferðafræðina og niðurstöður ásamt því að vitnað er til heimilda.
Venjur og hegðun
Stefnur sem fela í sér aukna ábyrgð einstaklinga til að breyta hegðun sinni munu hafa ólík áhrif á mismunandi samfélagshópa. Samkvæmt rannsóknum og könnunum eru konur líklegri til að breyta hegðun sinni, tilbúnar að fórna og eyða meiru í þágu umhverfisins en karlar.
Samgöngur
Ferðamynstur- og hættir fólks er mismunandi eftir því hvaða þjóðfélagshópi það tilheyrir. Flestar rannsóknir sem til eru fjalla um mismunandi ferðavenjur- og hætti karla og kvenna. Þá sýna íslenskar kannanir fram á að skipting kynjanna sem ferðast með almenningssamgöngum sé frekar jöfn á meðan erlendar rannsóknir benda til þess að konur ferðist miklu meira með almenningssamgöngum.
Gildi og stefnumótun
Stjórnvöld og sveitarfélög leggja mikla áherslu á samgöngumál, landbúnað, innviðafjárfestingu, breytingar á neysluvenjum fólks og nýsköpun í grænum umskiptum. Þetta eru yfirleitt atvinnuvegir og greinar þar sem karlar eru í miklum meirihluta.
Atvinnumál
Mikla vinnu og natni þarf að leggja í umskipti starfa vegna umhverfis- og loftslagsmála. Það þarf að víkka skilgreininguna á grænum störfum svo ákveðnir hópar missi ekki störf sín og aukinn ójöfnuður myndist ekki í samfélaginu. Þá er áherslan á tækniþróun, vísindi, innviðauppbyggingu, skógrækt og landbúnað karllæg í eðli sínu og líklegt að aðrir hópar muni eiga í erfiðleikum að komast að í slíkum störfum ef ekki verður ráðist í kerfislæga breytingu.
Náttúruvá
Lítið er til af rannsóknum um áhrif náttúruhamfara á mismunandi hópa fólks í vestrænum samfélögum, og ennþá minna til af þeim á Norðurlöndunum. Almennar rannsóknir benda þó til að eldra fólk, fátækt fólk, börn og fatlað fólk fari verr út úr náttúrhamförum og eiga þessir hópar oft erfiðara með að aðlaga sig að samfélaginu eftir að náttúrhamfarir eiga sér stað.
Nánari upplýsingar
Ábyrgðaraðili síðunnar er verkefnastýra kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg.
- Netfang: sigridur.finnbogadottir@reykjavik.is
- Sími: 411 4159