Hinsegin málefni

Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar kemur fram að óheimilt er að mismuna fólki vegna kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna. Ekki skal ganga út frá því að allt fólk sé gagnkynhneigt og sís, meðal starfsfólks, þjónustuþega, í uppeldis- og tómstundastarfi, menntunar og menningarstarfi. Í aðgerðaráætlun í mannréttinda- og lýðræðismálum 2019-2023 má sjá verkefni sem varða hinsegin málefni.
Regnbogavottun Reykjavíkurborgar
Allir starfsstaðir Reykjavíkurborgar geta fengið regnbogavottun. Til þess að fá vottunina þarf starfsfólk að taka þátt í fræðslu um hinsegin málefni og rýna þjónustuna sem veitt er á starfsstaðnum. Að auki þarf að útbúa aðgerðaráætlun í þeim tilgangi að gera starfsstaðinn hinseginvænni.
Hinsegin kennslu- og fræðsluefni
Það á að kenna um málefni hinsegin fólks á öllum skólastigum samkvæmt lögum. Á þessari síðu má finna samansafn fjölbreytts efnis sem má nýta í kennslu og umfjöllun um hinsegin málefni. Efnið nýtist kennurum jafnt sem öðrum sem vinna með börnum og ungmennum í sínum störfum.
Hinsegin börn og skólar
Það eru hinsegin börn í öllum skólum og eru þau alls konar, rétt eins og önnur börn. Hinsegin börn eiga það þó sameiginlegt að falla út fyrir það sem telst normið hvað varðar kynhneigð, kyntjáningu, kyneinkenni og/eða kynvitund. Á síðunum um hinsegin börn og trans börn má finna efni á borð við gátlista, stuðningsáætlanir skilgreiningar og efni um hinsegin fjölskyldur meðal annars.
Heilsa og líðan hinsegin fólks
Heilsa og líðan hinsegin fólks er rannsóknarverkefni sem miðaði að því að kanna lykilþætti í heilsu og líðan hinsegin einstaklinga á Íslandi, í því augnamiði að varpa ljósi á heilsutengdar áskoranir hinsegin samfélagsins.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að hinsegin fólk býr almennt við verri heilsu og líðan en þau sem eru ekki hinsegin. Ljóst er að ráðast þarf í aðgerðir til að bæta þar úr.
Útgefið efni
Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar.
- Árið 2024 var gerð rannsókn á Heilsu og líðan hinsegin fólks sem var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.
- Árið 2024 var veggspjaldið Að styðja hinsegin fólk gefið út og dreift á starfsstaði borgarinnar.
- Árið 2023 var gefinn út blöðungur um sérklefa í sundlaugum Reykjavíkur ásamt upplýsingum um verklag fyrir starfsfólk og um helstu notendur þeirra. Hann var einnig gefinn út á ensku og pólsku.
- Árið 2022 skilaði starfshópur um stöðu kynja- og hinseginfræðslu í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar skýrslu sem inniheldur upplýsingar um stöðu mála, rannsóknir, könnun á starfsfólk ásamt tillögum til úrbóta.
- Árið 2021 var gerð rannsókn á Kennsluefni fyrir kynja- og hinseginfræði í leik- og grunnskólum sem var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.
- Árið 2021 skilaði starfshópur um ókyngreinda aðstöðu í skóla- og frístundahúsnæði Reykjavíkurborgar skýrslu sem inniheldur upplýsingar um stöðuna, stefnu borgarinnar ásamt tillögum til úrbóta.
- Árið 2021 gaf Reykjavíkurborg út bækling með leiðbeiningum og upplýsingum um Hvernig skal bregðast við spurningum um trans fólk í kyngreindum rýmum, á íslensku og ensku. Bæklingurinn var einnig gefin út á íslensku og pólsku
- Árið 2020 gáfu Reykjavíkurborg og Samtökin '78 út uppfærða útgáfu af bæklingnum Hvað er hinsegin? sem er bæði á íslensku og ensku, en einnig á pólsku: Co to jest Queer?
- Árið 2019 var gefinn út bæklingurinn Hinsegin fólk og heimilisofbeldi, sem er hluti af verkefninu Saman gegn ofbeldi
- Árið 2015 var gerð rannsókn á hinsegin kynfræðslu í grunnskólum Reykjavíkurborgar, Typpið mun finna þig: Gagnkynhneigð, grunnskólinn og hinsegin kynfræðsla
- Árið 2014 var gerð rannsókn á meðal hinsegin starfsfólks Reykjavíkurborgar, „Við erum alltaf gay. Ekki bara þegar hinum hentar“ Reynsla og upplifun hinsegin starfsfólks hjá Reykjavíkurborg
Hægt er að hafa samband við Þórhildi Elínardóttur Magnúsdóttur, sérfræðing skrifstofunnar í málefnum hinsegin fólks til að bóka fræðslu eða fá frekari upplýsingar: thorhildur.elinard.magnusdottir@reykjavik.is