Hinsegin börn og skólar

Það eru hinsegin börn í öllum skólum og eru þau alls konar, rétt eins og önnur börn. Hinsegin börn eiga það þó sameiginlegt að falla út fyrir það sem telst normið hvað varðar kynhneigð, kyntjáningu, kyneinkenni og/eða kynvitund. 

Aðalnámskrá, jafnréttislög og mannréttindastefna Reykjavíkurborgar skylda skóla til þess að taka mið af og kenna um hinsegin fólk og málefni. Á þessari síðu má finna efni sem vonandi auðveldar skólum það verkefni.

Hinsegin félagsmiðstöð

Hinsegin félagsmiðstöð Tjarnarinnar er fyrir öll ungmenni í 8-10 bekk sem eru hinsegin eða tengja við hinsegin málefni á einn eða annan hátt. Félagsmiðstöðin er til húsa í Spennistöðinni við Austurbæjarskóla og er opin öll þriðjudagskvöld frá 19:30-22:00. Einnig er í boði félagsstarf fyrir 10-12 ára hinsegin börn og börn sem tengja við hinsegin málefni. Forstöðukona félagsmiðstöðvarinnar er Hrefna Þórarinsdóttir. Hægt er að hafa samband við Hrefnu í gegnum tölvupóst hrefna.thorarinsdottir@rvkfri.is eða í síma 6908904.

Samtökin '78 halda einnig úti hópi fyrir hinsegin ungmenni 16 ára og eldri í húsnæði Samtakanna '78. Hægt er að fá frekari upplýsingar frá Hrefnu eða Samtökunum '78

Hinsegin fræðsluefni

Hér má nálgast lista yfir hinsegin fræðsluefni sem inniheldur bækur, greinar, myndbönd o.fl. sem fjalla um hinsegin málefni, þ.m.t. málefni trans barna og fólks. Við hvert atriði er stutt lýsing á efninu sem og tungumáli þess sem og fyrir hvern það gæti hentað. Þegar um barnaefni er að ræða er gott að nýta efnið sem kveikju og í kjölfarið vera með umræður og úrvinnslu úr því.

Einnig má skoða skýrslu um kennsluefni fyrir kynja- og hinseginfræði frá 2021, en í henni er efnið flokkað eftir kennslustigi. 

Hinseginvænir skólar

Skólar sem vilja vera hinseginvænir geta nýtt sér gátlistann sem er hér fyrir neðan en honum er skipt upp í þrjá hluta: nemendur, kennarar og skólinn. 

 

Allir skólar geta nýtt sér gátlistann óháð skólastigi, en einhver atriði eiga betur við um eldri börn en yngri og öfugt. 

 

Einnig hafa verið teknar saman upplýsingar og leiðbeiningar fyrir skóla um afmæli og afmælishópa sem eru ekki kynjaskiptir.

Hinsegin fjölskyldur

Mikilvægt er að gera ráð fyrir því að foreldrar, forsjáraðilar og fjölskyldur nemenda geta verið hinsegin. Huga þarf að ýmsum þáttum til þess bæði að tryggja það að hinsegin fjölskyldur séu teknar með í reikninginn, finni fyrir því að þær séu velkomnar og gert sé ráð fyrir þeim, en einnig til þess að nemendur upplifi sig ekki út undan eða frávik fyrir það að eiga hinsegin fjölskyldu. Það þarf að huga að því hvernig fjölskyldur eru ávarpaðar, hverjum er gert ráð fyrir á eyðublöðum, hvernig þeim er boðið að taka þátt í skólastarfi, hvernig talað er um fjölskyldur í skólastofunni o.s.frv. 

 

Rétt eins og með hinsegin nemendur er vert að spyrja sig: „Hvernig vita hinsegin foreldrar og fjölskyldur að þau séu velkomin og að hér sé að finna stuðningsríkt umhverfi?“ Svo getur verið að starfsfólk skólans eigi börn, foreldra, systkini eða aðra fjölskyldumeðlimi sem eru hinsegin og er því mikilvægt að tryggja hinseginvæna orðræðu.

Líðan hinsegin barna og ungmenna

Við búum í samfélagi þar sem gagnkynhneigð og sís (það að vera ekki trans) eru viðmiðin og á hinsegin fólk því á meiri hættu á útilokun, mismunun, fordómum, einelti og annars konar ofbeldi.

 

Þetta birtist víða og ekki síst innan skólakerfisins þar sem börn eyða drjúgum tíma og verða fyrir mikilli mótun, nokkuð sem könnun á líðan hinsegin ungmenna í íslensku skólaumhverfi staðfestir.

Líðan og staða hinsegin barna og ungmenna í skólum

Innlendar sem og erlendar rannsóknir sýna að hinsegin nemendum líður oft verr í skóla en öðrum og að kennsluhættir, kennsluefni og orðræðan er oft á tíðum útilokandi og jafnvel niðrandi í garð hinsegin fólks. Það virðist oft vera sem svo að þögn og vandræðagangur ríki í kringum hinseginleikann og heyra börn oft hinsegin hugtök notuð í neikvæðum skilningi áður en þau læra hvað hugtökin þýða í raun og veru.

 

Nýleg könnun á upplifun hinsegin ungmenna á skólaumhverfinu á Íslandi sýndi hversu mikil og jákvæð áhrif styðjandi kennarar og fjölbreytt kennsluefni og umræða (sem tekur mið af hinseginleika) getur haft. 

Frekari upplýsingar, fræðsla og ráðgjöf

 

Hægt er að óska eftir samtali, ýmis konar hinseginfræðslu og ráðgjöf hjá eftirfarandi aðilum.

 

  • Hægt er að sækja um hinseginfræðslu frá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu sem hægt er að sníða að þörfum hvers staðar. Einnig er hægt að óska eftir Regnbogavottun með því að hafa samband við hinsegin@reykjavik.is. Einnig er veitt ráðgjöf og stuðningur á sviði hinsegin málefna.
     
  • Jafnréttisskólinn veitir stuðning og ráðgjöf ásamt því að sinna fræðslu um jafnréttismál í bæði skólum og frístundaheimilum  borgarinnar. Verkefnastýrur Jafnréttisskólans eru Maríanna Guðbergsdóttir marianna.gudbergsdottir@reykjavik.is og Indíana Rós Ægisdóttir indiana.ros.aegisdottir@reykjavik.is 
     
  • Samtökin ´78 eru með samning við Reykjavíkurborg og veita fræðslu til nemenda um hinsegin fólk og málefni þeirra skólum Reykjavíkurborgar að kostnaðarlausu. Einnig er ráðgjöf í boði hjá samtökununum fyrir hinsegin börn/fólk og aðstandendur þeirra að kostnaðarlausu. Þú getur bókað fræðslu á vefsíðu Samtakanna ´78
     
  • Hinsegin félagsmiðstöð Samtakanna ´78 og Tjarnarinnar er fyrir öll ungmenni á aldrinum 13-18 ára sem eru hinsegin eða tengja við hinsegin málefni á einn eða annan hátt. Félagsmiðstöðin er opin öll þriðjudagskvöld frá 19:30-22:00. Forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar er Hrefna Þórarinsdóttir. Hægt er að hafa samband við forstöðumann í gegnum tölvupóst hrefna.thorarinsdottir@rvkfri.is eða í síma 6908904.