Jafnlaunastefna

Jafnlaunastefna Reykjavíkurborgar nær til alls starfsfólks borgarinnar. Borgarráð ber ábyrgð á jafnlaunastefnunni.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar skal njóta jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu og/eða jafnverðmæt störf. Enginn óútskýrður kynbundinn launamunur skal vera til staðar.

Jafnlaunastefna Reykjavíkurborgar 2022-2030 (PDF)
The City of Reykjavik's Equal Pay Policy 2022-2030 (PDF)
Polityka Równych Płac Miasta Reykjavik 2022-2030 (PDF)

Áhersla á jafnrétti

Reykjavíkurborg hefur í gegnum árin lagt mikla áherslu á jafnrétti og innan borgarinnar hefur verið unnið markvisst að því að útrýma kynbundnum launamun. Þess má sjá merki í ýmsum áætlunum, stefnum og aðgerðum á vegum borgarinnar.

Jafnlaunastefna Reykjavíkurborgar var samþykkt 24. maí 2022.

Ábyrgð

Sviðsstjóri mannauðs- og starfsumhverfissviðs ber ábyrgð á jafnlaunakerfinu og að það standist lög og alþjóðlegar skuldbindingar varðandi jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Sviðsstjórinn er fulltrúi yfirstjórnar Reykjavíkurborgar varðandi jafnlaunakerfið og er ábyrgur fyrir innleiðingu og viðhaldi þess í samræmi við ÍST 85:2012. Einnig er sviðsstjóri mannauðs- og starfsumhverfissviðs ábyrgur fyrir að allt starfsfólk sem kemur að launaákvörðunum hjá Reykjavíkurborg sé vel upplýst um jafnlaunakerfið, verklagsreglum því tengdu sem og lögum og reglum sem gilda í jafnlaunamálum.

Reykjavíkurborg skuldbindur sig til þess að innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur ÍST 85:2012. Reykjavíkurborg hefur innleitt verklag og skilgreint launaviðmið til að tryggja að starfsfólk fái greitt fyrir störf sín út frá verðmæti þeirra óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum sjónarmiðum.

Reykjavíkurborg er einn vinnustaður og leggur áherslu á jafnrétti og jöfn tækifæri og að fjölbreytni starfsmannahópsins endurspegli margbreytileika samfélagsins og borgarlífsins.

Markmið

Til þess að ná settum markmiðum mun Reykjavíkurborg;

  • Innleiða vottað jafnlaunakerfi byggt á ÍST 85:2012, skjalfesta það og viðhalda.
  • Fylgja öllum viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem gilda á hverjum tíma og staðfesta hlítingu við lög.
  • Framkvæma innri úttektir og rýni stjórnenda árlega.
  • Framkvæma launagreiningu árlega þar sem jafnverðmæt störf eru borin saman til að tryggja að kynbundinn launamunur sé ekki til staðar. Helstu niðurstöður skulu kynntar fyrir starfsfólki.
  • Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugu eftirliti og umbótum þar sem þess er þörf.
  • Kynna jafnlaunastefnu sína fyrir starfsfólki og hafa hana aðgengilega á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Með samþykkt jafnlaunastefnu þessarar fellur úr gildi fyrri launastefna Reykjavíkurborgar. Jafnlaunastefna þessi er órjúfanlegur hluti af mannauðsstefnu og mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.

Kynbundinn launamunur

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi launagreiningu til að skoða hvort munur sé á launum kvenna og karla sem starfa hjá Reykjavíkurborg.

 

Samkvæmt greiningunni hefur dregið úr kynbundnum launamun starfsfólks borgarinnar síðan mælingar á honum hófust.