Íbúaráð Grafarvogs

Íbúaráð eru lifandi samstarfsvettvangur samráðs íbúa, bakhóps hverfisins, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda. Íbúaráðin eru virkir þátttakendur í útfærslu á allri stefnumörkun hverfanna, ráðgefandi fyrir starfsemi þjónustumiðstöðva í hverfum og stuðla að eflingu félagsauðs í hverfum Reykjavíkurborgar.

Íbúaráð Grafarvogs starfar í umboði borgarráðs með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í samþykkt fyrir íbúaráð og samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019.

Hlutverk íbúaráða er að styrkja tengingu og stytta boðleiðir milli íbúa og stjórnsýslu borgarinnar, stuðla að aukinni upplýsingagjöf til íbúa, styrkja möguleika þeirra til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og vekja athygli á áskorunum innan hverfisins.

Íbúaráð eru lifandi samstarfsvettvangur samráðs íbúa, bakhóps hverfisins, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda. Íbúaráðin eru virkir þátttakendur í útfærslu á allri stefnumörkun hverfanna, ráðgefandi fyrir starfsemi þjónustumiðstöðva í hverfum og skulu stuðla að eflingu félagsauðs í hverfum Reykjavíkurborgar.

Þá stuðla íbúaráð að kynningu skipulags, framkvæmda og þjónustu borgarinnar í hverfunum og beita sér fyrir því að samráð verði haft við íbúa, allt eftir eðli máls hverju sinni. Íbúaráð skulu fá til kynningar auglýstar breytingar á skipulagsáætlunum er snerta hverfið, meginbreytingum á þjónustu auk kynninga á stærri framkvæmdum s.s. við umhirðu borgarlandsins og vor- og vetrarþjónustu.

Hverfissjóður Reykjavíkurborgar styrkir hverfisbundin félagasamtök, íbúa og aðra þá sem vilja leggja sitt af mörkum og standa fyrir hverfistengdum verkefnum og/eða viðburðum með framangreind markmið til hliðsjónar. Ákvörðun um úthlutun úr Hverfissjóði Reykjavíkurborgar er tekin af íbúaráðum Reykjavíkurborgar.

Íbúaráð eru skipuð sex fulltrúum. Borgarstjórn kýs þrjá fulltrúa og þrjá til vara. Tveir fulltrúar borgarstjórnar að lágmarki skulu vera úr hópi borgarfulltrúa eða varaborgarfulltrúa. Einn fulltrúi og annar til vara er skipaður af íbúasamtökum hverfisins og einn fulltrúi og einn til vara af foreldrafélögum hverfisins. Einn fulltrúi og annar til vara er valinn með slembivali úr hópi íbúa hverfisins. Borgarstjórn kýs formann íbúaráðs úr hópi kjörinna fulltrúa en íbúaráðin skipta að öðru leyti með sér verkum.

Borgarstjórn kaus í íbúaráð Grafarvogs þann 7. júní 2022. Formaður er Fanný Gunnarsdóttir og var kjörinn án atkvæðagreiðslu.

Íbúaráð eru vistuð á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu og sér skrifstofan um skrifstofuhald fyrir ráðin. Starfsmaður íbúaráða er Heimir Snær Guðmundsson verkefnastjóri á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.

Netfang íbúaráðsins er ibuarad.grafarvogur@reykjavik.is