Húsnæði fyrir heimilislaust fólk
Reykjavíkurborg á húsnæði fyrir fólk með fjölþættan vanda sem er í þjónustu hjá VoR-teymi. Um er að ræða herbergjasambýli, íbúðakjarna, almennar íbúðir, samliggjandi og smáhýsi.
Hvernig sæki ég um húsnæði?
Í flestum tilfellum er sótt um húsnæði fyrir heimilislaust fólk hjá ráðgjafa á þjónustumiðstöð en einnig er hægt að leggja inn umsókn á Mínum síðum eða senda umsókn í pdf-formi á VELumsokn@reykjavik.is.
Úthlutunarteymi málaflokks heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir tilkynnir þjónustumiðstöðvum þegar húsnæði er laust til úthlutunar. Úthlutunarteymi heldur úthlutunarfundi þar sem umsóknir eru teknar fyrir og úthlutun fer fram eftir faglegt mat teymisins. Ráðgjafar á þjónustumiðstöðvum sjá um að tilkynna umsækjanda um úthlutun.
Hvað gerist ef umsókn er synjað?
Ef umsókn er synjað og þú telur sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir því að veita skuli þér undanþágu frá reglum getur þú sent inn beiðni um áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs.
Stakar íbúðir
Félagslegar leiguíbúðir í eigu eða á forræði Félagsbústaða sem eru sérstaklega skilgreindar fyrir einstaklinga sem eru heimilislausir með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Íbúar fá einstaklingsmiðaðan og heildstæðan stuðning frá VoR-teymi í formi heimavitjana. VoR aðstoðar við athafnir daglegs lífs til að auka lífsgæði og færni einstaklingsins.
Samliggjandi íbúðir og herbergi
Herbergjasambýli og samliggjandi íbúðir hafa það hlutverk að veita heimilislausum einstaklingum með miklar og flóknar þjónustuþarfir búsetu og aðstoð til að eiga sjálfstætt og innihaldsríkt líf. Sólarhringsvakt er á þessum stöðum.
Smáhús
Smáhús tryggja heimilislausu fólki með fíkni- eða geðvanda öruggt heimili allan sólarhringinn. Fólk getur fengið smáhús til lengri eða skemmri tíma og þarf þá ekki lengur að nýta sér skammtímaúrræði, til dæmis neyðarskýli.