Smáhús

Smáhús tryggja heimilislausu fólki með fíkni- eða geðvanda öruggt heimili allan sólarhringinn. Bæði einstaklingar og pör geta fengið smáhús til lengri eða skemmri tíma og þurfa þá ekki lengur að nýta sér skammtímaúrræði, til dæmis neyðarskýli.

Hvernig er plássum úthlutað?

Fólk sem sækir um smáhús þarf að vera í virkri þjónustu hjá VoR-teymi. 

Sótt er um smáhýsi hjá ráðgjafa á þjónustumiðstöð. Smáhýsi eru hluti af Húsnæði fyrst og þeim fylgir þjónusta VoR teymisins. Greinagerð frá VoR teyminu fylgir umsókn. Úthlutunarteymi málaflokks heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir tilkynnir þjónustumiðstöðvum þegar smáhýsi er laust til úthlutunar. Úthlutunarteymi heldur úthlutunarfundi þar sem umsóknir eru teknar fyrir og úthlutun fer fram eftir faglegt mat teymisins. Ráðgjafar á þjónustumiðstöðvum sjá um að tilkynna umsækjanda um úthlutun.

Eftir samþykki úthlutunarteymis er gerðir viðeigandi samningar og áætlanir. 

Hvernig er stuðningi við íbúa háttað?

Íbúar í smáhúsum fá stuðning frá VoR-teymi sem er útfærður í samráði við íbúa með sérstökum dvalarsamningi sem inniheldur einstaklingsáætlun og ákvæði um greiðslur vegna húsnæðisins. Stuðningurinn getur meðal annars verið reglulegar heimsóknir og eftirlit frá sérfræðingum VoR-teymis.   

 

Spurt og svarað

Hvar eru smáhúsin staðsett?  

Unnið er að því að koma allt að 20 smáhúsum í notkun á ýmsum stöðum í Reykjavík. Lóðirnar fyrir smáhýsin eru deiliskipulagðar sérstaklega. Hægt er að flytja þau á milli staða ef þörf krefur. 

Hvernig er staðsetning smáhúsa valin?

Staðsetning smáhúsa tekur mið af því að íbúar hafi gott aðgengi að þjónustu og almenningssamgöngum og hafi kost á því að efla virkni sína og þátttöku í samfélaginu. Þar sem þess er þörf verður farið í sérstakar aðgerðir til að tryggja góða hljóðvist og setja gróður í kring til að skapa skjól og góða ásýnd.  

Hver ákveður staðsetningu smáhúsa?

Um­hverf­is- og skipu­lags­svið Reykjavíkurborgar út­vegar lóðir undir smáhús og vinnur að breytingum á deiliskipulagi. Í því ferli gefst íbúum og öðrum hagsmunaaðilum tækifæri til að koma athugasemdum og ábendingum á framfæri.  

Hvernig líta smáhús út?

Hvert smáhús er 25 fermetrar. Stofa og eldhús er í öðrum enda hússins en opinn svefnkrókur í hinum. Í miðjunni er baðherbergi og opið anddyri. Úr stofu er gengið út á lítinn pall með skjólvegg.  

Landslagsarkitekt sér um að móta umhverfi smáhúsa og er mikil áhersla lögð á að þau falli inn í umhverfið. Gætt verður að góðri lýsingu á lóð og stígum. 

Af hverju eru smáhús mikilvæg?

Húsnæði er ein af grunnþörfum hvers einstaklings en réttur til viðunandi húsnæðis hefur verið talinn til mannréttinda allt frá undirritun mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna árið 1948.  

Smáhús eru mikilvægur þáttur í að framfylgja mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og stefnu í málefnum heimilislauss fólks með miklar og flóknar þjónustuþarfir.  

Reynslan af sambærilegum smáhýsum í öðrum löndum hefur sýnt að þau bæta hag heimilislauss fólks.