Heimilislaust fólk

Það er mikilvægt að fólk fái stuðning til betra lífs þegar aðstæður þess eru krefjandi og flóknar. Reykjavíkurborg veitir margvíslegan stuðning til fólks sem er heimilislaust og glímir við vímuefnavanda eða geðrænan vanda. Stuðningur við heimilislaust fólk byggist á hugmyndafræðinni um Húsnæði fyrst og skaðaminnkun.

Neyðarskýli

Í Reykjavík eru þrjú neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk. Þau eru opin alla daga frá kl. 17 til kl. 10 næsta dag. Boðið er upp á kvöldverð og morgunmat auk stuðnings og þjónustu frá VoR-teymi og starfsfólki neyðarskýlanna. Ákveðinn fjöldi gistiplássa er í hverju neyðarskýli.

Vettvangs- og ráðgjafateymi

Vettvangs- og ráðgjafateymi (VoR) aðstoðar fólk sem er heimilislaust og með vímuefnavanda og geðvanda. Teymið veitir einstaklingsmiðaða ráðgjöf og stuðning á vettvangi. 

Húsnæði fyrir heimilislaust fólk

Reykjavíkurborg á húsnæði fyrir fólk með fjölþættan vanda sem er í þjónustu hjá VoR-teymi. Um er að ræða herbergjasambýli, íbúðakjarna, almennar íbúðir og smáhús.