Bókmenntaborgin - Forsíða

 

Bókmenntaborg UNESCO

Reykjavík var útnefnd Bókmenntaborg UNESCO (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization) árið 2011. Hún er sterk miðja í orðlistalífi borgarinnar og tengipunktur við alþjóðlegt bókmenntalíf í ört vaxandi neti Skapandi borga UNESCO sem hún er hluti af.  

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO snertir á öllum stærstu viðburðum í bókmenntalífi borgarinnar, liðsinnir nýjum höfundum og veitir hvort í senn ráðgjöf og stuðning vegna stakra og stærri, fjölþættari verkefna. Þá er öllum sem leggja stund á orðlist frjálst að leita til Bókmenntaborgarinnar, hvort sem þau hyggja á samstarf eða vilja leita sér upplýsinga.  

Menningarhöfuðborg 

Reykjavík er höfuðborg og í raun eina borg landsins og sem slík gegnir hún lykilhlutverki í öllu menningarlífi. Helstu menningarstofnanir landsins eru í Reykjavík og listalífið stendur með blóma, enda er borgin þekkt sem skapandi borg með virku grasrótarstarfi.

 

Flestir rithöfundar þjóðarinnar búa og starfa á höfuðborgarsvæðinu og borgin er einnig sögusvið í stórum hluta nútímabókmennta, en sú þróun hefur farið vaxandi með örri stækkun borgarinnar síðustu 100 árin. 

Bókmenntaarfleifð 

Miðaldabókmenntir Íslendinga eru varðveittar í Reykjavík, meðal annars handrit Íslendingasagna og Eddukvæða, sem hafa gert Íslendinga að einni af þekktustu bókmenntaþjóðum heims. Þessi bókmenntaarfleifð myndar kjarnann í sjálfsmynd þjóðarinnar og frásagnarlist er sterkasti þráðurinn í menningarsögu hennar.

 

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er miðstöð miðaldabókmenntanna. Stofnunin varðveitir handrit, stundar á þeim rannsóknir og gerir þau aðgengileg almenningi, auk þess sem hún býður upp á rannsóknaraðstöðu og kennslu fyrir innlenda og erlenda náms- og fræðimenn.

 

Handritasafn Árna Magnússonar, sem Árnastofnun í Reykjavík og Árnasafn í Kaupmannahöfn varðveita, var sett á varðveisluskrá UNESCO yfir andleg minni heimsins árið 2009 (Memory of the World Register). 

Íslensk tunga

Ísland er með smærri málsvæðum í heiminum, á landinu búa einungis um 370.000 og fáir tala málið utan þess. Tungumálið er eitt af sérkennum þjóðarinnar, íslenska hefur breyst mun minna en önnur norræn mál frá því að landið byggðist og geta nútíma Íslendingar lesið miðaldabókmenntirnar án teljandi vandræða. 

 

Hvergi í Evrópu er saga bókmenntanna eins óslitin hvað þetta varðar. Bókmenntir gegna lykilhlutverki við varðveislu og þróun málsins, bæði frumsamin verk og þýðingar. Tungumálið er ekki síst endurnýjað í skáldskap og þýðingar hafa einnig skipt sköpum við að halda þessu þúsund ára gamla bókmenntamáli lifandi.  

Bókmenntahátíðir

Bókmenntahátíðin í Reykjavík var fyrst haldin árið 1985 og fer hún fram annað hvert ár.

 

Margir þekktir höfundar hafa verið gestir hátíðarinnar, svo sem A.S. Byatt, Kurt Vonnegut, Günter Grass, Isabel Allende, J.M. Coetzee, Margaret Atwood, Paul Auster, Haruki Murakami, Ngugi wa Thiong’o, Seamus Heany, Swetlana Alexievich og Taslima Nasrim.  

 

Alþjóðleg barnabókmenntahátíð hefur einnig verið haldin í borginni annað hvert ár frá 2001. Bókmenntir eru ávallt hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík, en það sama má segja um borgarhátíðirnar Menningarnótt, Vetrarhátíð og Barnamenningarhátíð. 

Lifandi bókmenning

Í Reykjavík eru boðið upp á mikinn fjölda bókmenntaviðburða allt árið um kring. Menningarstofnanir, skólar, félagasamtök og ýmsir einkaaðilar bjóða upp á þessa viðburði, oft í samvinnu sín á milli.

 

Meðal fastra viðburða eru vika bókarinnar í apríl, bókmenntagöngur Borgarbókasafns, ráðstefnur og málþing á vegum Háskóla Íslands og annarra og ýmsar ljóðauppákomur skálda og grasrótarsamtaka.

 

Þátttaka almennings í menningarviðburðum er mikil, kannanir hafa sýnt að meira en helmingur þjóðarinnar tekur þátt í menningarviðburðum af ýmsu tagi. 

Verðlaunahöfundar

Margir íslenskir höfundar hafa hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir verk sín. Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955 fyrir „litríkan sagnaskáldskap sem hefur endurnýjað stórbrotna íslenska frásagnarlist“. Á Gljúfrasteini, þar sem skáldið bjó í meira en hálfa öld, er nú starfrækt safn sem er opið almenningi allt árið.

 

Meðal höfunda sem hafa tekið við Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs má nefna Thor Vilhjálmsson, Einar Má Guðmundsson, Fríðu Á. Sigurðardóttur og Sjón, og nokkrir íslenskir höfundar hafa hlotið Norrænu barnabókaverðlaunin, svo sem Guðrún Helgadóttir, Kristín Steinsdóttir, Ragnheiður Gestsdóttir og Áslaug Jónsdóttir.

 

Arnaldur Indriðason er handhafi Gullrýtingsins og fleiri alþjóðlegra glæpasagnaverðlauna, Andri Snær Magnason hefur hlotið Kairos verðlaunin, Guðbergur Bergsson og Einar Már Guðmundsson Norræn verðlaun sænsku akademíunnar og Auður Ava Ólafsdóttir Prix de Page, svo eitthvað sé nefnt. Íslenskur samtímaskáldskapur er nú í auknum mæli þýddur á önnur tungumál.  

Bókasöfn og rafræn miðlun

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta almenningsbókasafn landsins. Bókasafnið býður upp á fjölbreytta þjónustu og styður við bókmenntir og lestur á margvíslegan hátt. 

 

Landsbókasafn Íslands hefur aðsetur í Reykjavík, en safnið geymir allt útgefið efni á Íslandi auk þess að safna markvisst handritum, meðal annars frá íslenskum rithöfundum.

 

Bókasöfn á Íslandi eru með sameiginlegt bókasafnskerfi, Leitir, auk rafræns landsaðgangs að gagnasöfnum sem allir landsmenn geta notað endurgjaldslaust. 

Alþjóðleg tungumálamiðstöð

Vigdísarstofnun, alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar, er starfrækt við Háskóla Íslands í Reykjavík. 

 

Miðstöðin er starfrækt á grundvelli samkomulags milli íslenskra stjórnvalda og UNESCO. Hún er þverfaglegur vettvangur fyrir rannsóknir og miðlun þekkingar á sviði menningar- og tungumálarannsókna, málræktar og málstefnu þar sem stuðlað er að samstarfi við stofnanir og einstaklinga um víða veröld, með áherslu á samstarf norðurs og suðurs.

 

Miðstöðin styður við framgang markmiða UNESCO um fjöltyngi og margbreytileika tungumála og leggur sitt af mörkum með þátttöku í stefnumótun, þekkingarleit og menntun á sviðum tungumála og menningar. 

Gestir á tungumálasýningu í Vigdísarstofnun.

Bókaútgáfa

Nær hvergi í heiminum eru gefnir út eins margir titlar á íbúa og á Íslandi. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni eru gefnir út fimm titlar á hverja 1000 íbúa, en sambærilegar tölur frá öðrum Norðurlöndum eru 2–2,5.

 

Meðalupplag skáldverka eru 1.000 eintök, sem jafngildir milljón eintökum í Bandaríkjunum svo dæmi sé tekið. Flest bókaforlög á landinu eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu. 

Jólabókaflóðið

Segja má að í jólabókaflóðinu, hvað sem fólki annars finnst um það, sé fólgið eitt helsta lestrarátak á landinu.

 

Eins og alþjóð veit er tímabilið frá því síðla hausts og fram að jólum undirlagt af útgáfu bóka og útgefendur, bókasöfn, alls kyns stofnanir og félagasamtök, auk höfundanna sjálfra, keppast við að kynna þær.

 

Bækur eru enn meðal vinsælustu jólagjafa og á þessum tíma er umræða um bækur meiri en á nokkrum öðrum tíma ársins. 

Bókmenntaborgin

Reykjavík var útnefnd Bókmenntaborg UNESCO (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization) árið 2011.

  • Borgartúni 12-14
  • 105 Reykjavík

Þú getur haft samband með því að senda tölvupóst á netfangið bokmenntaborgin@reykjavik.is