Bókmenntaborgin - Bókmenntamerkingar

Bókmenntamerkingar

Víða um borgina má finna skilti með upplýsingum um bókmenntalegar tengingar staðanna.

Langibar - Adlon

Adlon bar eða Langibar, eins og hann var kallaður í daglegu tali, stóð á milli Aðalstrætis 6 og 8, það er Morgunblaðshallarinnar og Fjalarkattarins sem þá var. Langibar var athvarf unga fólksins í Reykjavík og gekk af þeim sökum einnig undir nafninu „Ungverjaland“, en enn annað nafn var „Sóðabarinn“ eftir skilti sem á stóð „Sodabar Fontaine“. Kaupmennirnir Silli og Valdi ráku staðinn sem var opnaður árið 1946 og ráku þeir hann til 1960, en þá tók smurbrauðsstofa við í sama húsnæði. 

Langibar kemur við sögu í skáldsögunni Vögguvísu eftir Elías Mar, sem kom út árið 1950 og hefur stundum verið kölluð fyrsta íslenska unglingasagan. Sagan, sem er samtímasaga, segir frá ungum pilti, Bambínó, sem lendir utangarðs og er hún meðal annars áhugaverð fyrir þá mynd sem hún bregður upp af lífinu í Reykjavík á eftirstríðsárunum, ekki síst myrkari hliðum þess. Elías kannaði einnig slangur þessa tíma við ritun bókarinnar og gefur það henni skemmtilegan blæ. Vögguvísa var endurútgefin af forlaginu Lesstofunni haustið 2012 og í þeirri útgáfu má bæði finna ítarlegan eftirmála um verkið, svo og slangurorðasafnið sem Elías safnaði við ritun þess. 

Svinggæjasjoppan Adlon, öðru nafni Ungverjaland, klúkir millum gamalla timburhúsa í miðbænum, innréttuð í forskalaðan hjall, eins og matarvagn í járnbrautarlest með bar eftir endilöngu. Pilturinn kemur sér ekki að því að fara inn á billjard fyrr en hann hefur fengið í sig volgan sopa.

Úr Vögguvísu eftir Elías Mar

Vögguvísa er fyrsta unglingasaga hins unga lýðveldis og það er skemmst frá því að segja að hún sló í gegn. Elías skrifaði hana sumarið 1949, sama sumar og hann varð 25 ára. Sagan hefst á innbroti aðfaranótt fimmtudags og endar á sunnudagskvöldi þegar Bambínó liggur í snjó, sem orðinn er að leðju, á Austurvelli fyrir utan Sjálfstæðishúsið (síðar NASA) og rifjar upp atburði síðustu daga. Bambínó er borgarbarn og dregur sitt klíkunafn af dægurlagi. Hann er fimmtán ára, yngstur í hópnum. Um hlutskipi unglinga sem búa ekki í borg er ekkert vitað. Sveitin er jafnfjarlæg og tunglið. Gamla einangraða Ísland er horfið. Ísland nútímans með peningaviðskipti og bandarísk dægurmenningaráhrif er komið til að vera.  

Unglingana í Vögguvísu dreymir ekki endurreisn íslenskrar sveitamenningar, þá dreymir um að vera stælgæjar í flottum fötum. Þeir stunda kaffihúsin og barina, spila billjard, halda partí, safna hasarblöðum og spila grammafónplötur með boogiewoogie-tónlist. Þeir telja sig ekki hafa neinum skyldum að gegna. Þeir ræna peningum til að hala sig upp úr leiðindunum í Reykjavík. Þeir ræna vegna þess að þeir aðhyllast ákveðna fagurfræði. Málfar þeirra er mjög litað af dægurlögum og kvikmyndum. Elías nam tungutakið á börum, billjardstofum og kaffihúsum og tók saman sérstakt “slang-orðasafn” til að geta skrifað þessa sögu. Hið unga lýðveldi tók einhverja allt aðra stefnu en til stóð. Elías skynjaði betur en nokkur annar árið 1949 að dægurmenning unglinganna átti eftir að leggja heiminn undir sig. Sumar sögur skynja hjartslátt tímans.

Hjálmar Sveinsson: „Nýr penni í nýju lýðveldi.“ Morgunblaðið, 28. október 2006.

Hannes Hafstein - Hannesarholt

Hannesarholt stendur við Grundarstíg 10, en það var heimili ljóðskáldsins og ráðherrans Hannesar Hafstein (1861–1922). Hannes byggði húsið árið 1915 og bjó þar með fjölskyldu sinni til dauðadags. 

Hannes Þórður Hafstein fæddist þann 4. desember að Möðruvöllum í Hörgárdal. Hann nam lögfræði í Kaupmannahafnarháskóla eftir að hafa lokið prófi frá Lærða skólanum í Reykjavík og lauk lagaprófi 1886. Hannes orti ljóð á námsárum sínum og fyrst eftir að hann sneri heim úr námi, en lagði síðan skáldskaparstörf að mestu á hilluna eftir að embættisstörf hans tóku yfir. 

Hannes settist fyrst á Alþingi árið 1900 og fór fyrir Heimastjórnarmönnum þegar Danir samþykktu að settur yrði ráðherra á Íslandi 1904 og landið fengi heimastjórn. Hannes varð þannig fyrsti ráðherra Íslands og gegndi því embætti til ársins 1909 og síðan aftur frá 1912-14. Meðal þeirra mála sem Hannes kom að í ráðherratíð sinni var „símamálið“ svokallaða, en hann beitti sér fyrir því að sími yrði lagður til landsins í gegnum sæstreng í stað þess að taka upp loftskeytasamband. 

Hannes Hafstein birti sín fyrstu kvæði þegar hann var 18 ára gamall. Hann hélt síðan áfram að yrkja næstu árin og gaf út fyrsta ljóðasafnið 1893, Ýmisleg ljóðmæli. Ljóðasafn hans kom út 1916 og það var síðan endurútgefið af skáldinu Tómasi Guðmundssyni árið 1968.  Hannes var einn þeirra sem komu að útgáfu tímaritsins Verðandi, en það flutti boðskap raunsæis sem var á þeim tíma að taka við af rómantísku stefnunni. Það er þó varla hægt að segja að ljóð Hannesar beri sterk merki raunsæisstefnu, þau eru þvert á móti þrungin tilfinningu og rómantík. 

Kona Hannesar var Ragnheiður Stefánsdóttir (1871-1913) og eignuðust þau tíu börn. Ragnheiður var látin þegar Hannes og fjölskylda hans fluttu að Grundarstíg 10, en hér bjó hann ásamt börnum sínum, móður og tengdamóður til dauðadags. 

Stormur

Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund 
og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund, 
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur 
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur. 

Þú skefur burt fannir af foldu og hól, 
þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól, 
og neistann upp blæs þú og bálar upp loga 
og bryddir með glitskrúði úthöf og voga. 

Þú þenur út seglin og byrðinginn ber 
og birtandi, andhreinn um jörðina fer; 
þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur 
og lífsanda starfandi hvarvetna vekur. 

Og þegar þú sigrandi´ um foldina fer, 
þá finn ég, að þrótturinn eflist í mér. 
Ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir, 
ég elska þig, máttur, sem þokuna leysir. 

Ég elska þig, elska þig, eilífa stríð, 
með ólgandi blóði þér söng minn ég býð. 
Þú alfrjálsi loftfari, hamast þú hraður; 
hugur minn fylgir þér, djarfur og glaður. 

Birtist í Verðandi 1882 

Hressingarskálinn

Steinn Steinarr

Hann er ekki mikill á velli, lítill vexti og grannur, höfuðið óvenjustórt miðað við búkinn, ljóst hárið þykkt og liðað. Brúnn rykfrakki hans er fráhnepptur og jakkafötin virðast allt of stór. Hann gengur slyttislega, enda er vinstri hönd hans visin og öll hlið líkamans þeim megin afllítil. 

Leið hans liggur að vanda inn á Hressingarskálann sem er stærsta og vinsælasta kaffihús bæjarins. Almenningur sækir það en jafnframt hittast þar daglega skáld, listmálarar og ýmiss konar menningarvitar.

Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr: Leit að ævi skálds, 2000: JPV útgáfa 

Saga Hressingarskálans í Austurstræti nær aftur til ársins 1932 og varð staðurinn strax mjög vinsæll, ekki síst vegna bakgarðsins þar sem veitingar voru bornar fram á góðviðrisdögum. Meðal þeirra sem fljótlega fóru að sækja staðinn voru skáld og menntafólk. Þar á meðal var ljóðskáldið Steinn Steinarr, og sat hann hin síðari ár yfirleitt á afmörkuðu svæði hægra megin við innganginn. 

Steinn Steinarr tengist sterklega sögu borgarinnar, en hann var bæði róttækur pólitískur höfundur og eitt þeirra skálda sem losaði um ljóðformið og ruddi brautina fyrir módernismann. Ljóðlist hans þótti heimspekileg og hann er með fyrstu skáldum til að yrkja um tilvistarvanda nútímamannsins á Íslandi. Hann tilheyrði hópi atómskálda, sem komu fram á sjötta áratugnum, en það voru skáld sem byltu ljóðforminu á róttækan hátt og veittu ferskum straumum frá erlendum stórborgum til landsins. Síðan er oft talað um tímabilið sem atómöld, sem vísar auðvitað fyrst og fremst til þess að þarna er nútíminn fyrir alvöru að ryðja sér til rúms í hinu hefðbundna íslenska samfélagi. 

Jón Óskar segir frá því í minnisatriðum sínum um Hernámsáraskáldin að á Hressingarskálanum hafi verið skeggrætt um allt milli himins og jarðar um bókmenntir. Meðal skálda og rithöfunda sem vermdu sæti hans voru Elías Mar, Jón Óskar, Hannes Sigfússon og Stefán Hörður Grímsson. Yngri skáld sóttu einnig staðinn og litu mjög upp til Steins, til dæmis hefur Thor Vilhjálmsson lýst  andrúmsloftinu á Hressó svo í endurminningum sínum: 

Salnum í Hressingarskálanum var skipt í álmur. Í einni þeirra sátu Ólafur Friðriksson, Jón Árnason stjörnuspekingur og Sigurður Jónasson, kallaður Seríus. Sigurður var risavaxinn maður og eftir því digur og tröllslegur. Hann hló svo hátt að glös hristust á Rifi þegar han þandi sig í Reykjavík. Hann var dulhyggjumaður mikill og fór sálförum. Ef hann þurfti að hitta mann í Bangkok fór sálin þangað eins og skryppi á meðan hylkið stóra lá í Reykjavík. Í annarri álmu héldu morgundagsins menn sig. Sigfús Daðason, Elías Mar, Jón Óskar, ég og fleiri. Við ætluðum flestir að verða skáld og sumir höfðu jafnvel gefið út. Eitt kvöldið var mikið talað um að bráðum kæmi Hannes Sigfússon heim, hann væri alltaf að lesa Dostóévskí. Ég hafði að vísu skrifað ritgerð um höfundinn og lesið úr henni fyrir hópinn en fengið slarkandi undirtektir. Menn voru á varðbergi og forðuðust að setja ljós sitt undir mæliker. Sumir voru þrúgaðir af gáfum og persónuleika Steins Steinarrs, drógu bara seiminn og sögðu: A-ha-ha-a-aa.

Thor Vilhjálmsson, Fley og fagrar árar, 1996: Mál og menning 

Miðvikudagur eftir Stein Steinarr

Miðvikudagur. ­ Og lífið gengur sinn gang, 
eins og guð hefir sjálfur í öndverðu hugsað sér það. 
manni finnst þetta dálítið skrítið, en samt er það satt, 
því svona hefir það verið og þannig er það. 

Þér gangið hér um með sama svip og í gær, 
þér sigrandi fullhugar dagsins, sem krónuna stífið. 
Í morgun var haldið uppboð á eignum manns, 
sem átti ekki nóg fyrir skuldum. ­ Þannig er lífið. 

Og mennirnir græða og mennirnir tapa á víxl, 
og mönnum er lánað, þó enginn skuld sína borgi. 
Um malbikuð strætin berst múgsins háværa ös, 
og Morgunblaðið fæst keypt niðr’á Lækjartorgi. 

Miðvikudagur. ­ Og lífið gengur sinn gang, 
og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn. 
Dagbjartur múrari eignaðist dreng í gær, 
í dag verður herra Petersen kaupmaður grafinn. 

Laugavegur 1

Laugavegurinn dregur nafn sitt af gömlu þvottalaugunum í Laugardal en þangað báru konur þvott frá Reykjavík til þess að þvo í heitu laugunum allt til ársins 1930. 

Reykvískar húsmæður og vinnukonur lögðu af stað snemma morguns og þurftu að rogast með þungan þvott og hafurtaskið sem honum fylgdi – þvottabala, bretti, sápu, sóda, þvottaklapp, fötu, kaffi og nesti – um langar vegleysur. Konur sinntu þessari vinnu yfirleitt einar, en karlmenn áttu þó til að fylgja með og nýttu erlendir sjómenn laugarnar einnig til þvotta. 

Leiðin í og úr laugunum var illfær og aðstæður oft ótryggar, þar sem lækir gátu orðið vatnsmiklir í vætutíð og flætt yfir. Þetta var erfið og hættuleg vinna, slys hentu og dæmi eru um að þvottakonur hafi fallið í vatnsmikla læki og drukknað undan þungum byrðunum. Árið 1885 var hafist handa við að leggja veg til þess að auðvelda fólki leiðina að laugunum og var vonast til að burður á þungum þvotti legðist af með bættum samgöngum. 

Notkun lauganna minnkaði þegar Hitaveita Þvottalauganna var lögð árið 1930 og eru laugarnar þurrar í dag. 

Margrét Jónsdóttir (1893-1971) skáldkona, ritstjóri og kennari, einkum þekktust fyrir að semja „Ísland er land þitt“, samdi eftirfarandi ljóð um Þórunni þvottakonu, sem þvoði þvott fyrir aðra en lifði sjálf við kröpp kjör. 

Þórunn gamla eftir Margéti Jónsdóttur

Þórunn gamla þvottakona 
þrammar áfram köld og sljó, 
eftir dagsins erfiðleika 
á hún von á hvíld og ró. 
vetur yfir veginn breiðir 
voð úr mjallahvítum snjó. 

Þórunn gamla þvottakona 
þvær hjá margri hefðarfrú, 
eftirsótt er hún við störfin, 
af því hún er dygg og trú. 
Þórunn gamla þvottakona 
þrammar yfir Tjarnarbrú. 

Bólgnar, hnýttar, bláar hendur, 
bognar herðar, fótur sár, 
þannig útlits Þórunn gamla 
þrammað hefir fjölmörg ár. 
Undan skýlu lokkur lafir, 
langt er síðan hann varð grár 

Líttu inn í ljósum prýddan, 
litum skrýddan veizlusal: 
Drifhvít hálslín, hreinir dúkar, 
hér er sveina og meyja val. 
Allt er glæst og fagurt fágað, 
fagna í kvöld og gleðjast skal. 

Þórunn gamla þvoði og fægði, 
því næst gekk hún heim til sín, 
inn í lítið, ofnlaust hreysi, 
aldrei þangað sólin skín. 
Þar er held ég heldur lítið 
hreint og strokið drifhvítt lín. 

Var hún eitt sinn ung og blómleg, 
efni í glæsta hefðarfrú? 
Átti hún bjarta æskudrauma, 
ástir, vonir, heita trú? 
Átti hún rétt á láni lífsins 
Líkt og aðrir – eg og þú? 

Vetur breiðir voðir sínar, 
Vefur jörð í mjallarlín, 
jafnar yfir allt og sléttar, 
einnig, Þórunn, sporin þín. 
Fram úr skýjum fæðist máni, 
Fölt og kalt á snæinn skín. 

Laugavegur 11

Ásta Sigurðardóttir 

Ásta Sigurðardóttir var fædd árið 1930 á Snæfellsnesi. Hún flutti ung til Reykjavíkur þar sem hún lauk landsprófi árið 1946 og í framhaldinu fór hún í Kennaraskólann og útskrifaðist þaðan 1950 með kennarapróf. Ásta fór ung að stunda ritlist og myndlist og vöktu smásögur hennar sem og myndverk fljótt athygli. Fyrsta smásögusafn Ástu Sunnudagskvöld til mánudagsmorgun vakti mikila athygli þegar það kom út 1961. 

Margt hefur verið ritað og rætt um Ástu Sigurðardóttir skáld og er hér brot af því efni sem er aðgengilegt á vefnum um hana: 

Um Ástu Sigurðardóttur skrifar Bragi Kristjónsson í vefritið Herðubreið í október 2014. 

Grein í greinarsafni Morgunblaðsins um Ástu Sigurðardóttur frá árinu 2000  

Páll Ásgeir Ásgeirsson ritaði grein um lífshlaup Ástu í tímaritið Ský árið 2007 

Laugavegur 11

Á sjötta áratug síðustu aldar var rekið vinsælt kaffihús sem bar einfaldlega nafn heimilisfangsins, Laugavegur 11. Staðurinn, sem var þar sem veitingahúsið Ítalía er nú til húsa, var mikið sóttur af listamönnum og skólafólki. Þar sátu til að mynda skáldin Dagur Sigurðarson, Ásta Sigurðardóttir, Þorsteinn frá Hamri, Jón Óskar, Thor Vilhjálmsson, Jóhann Hjálmarsson, Ari Jósefsson, Stefán Hörður Grímsson, Jónas Svafár og Elías Mar en staðurinn var ekki síst athvarf þeirra sem voru nokkuð á skjön við ríkjandi hefðir. 

Af eldri skáldum sem einnig áttu til að líta inn má nefna þá Jóhannes úr Kötlum, Stein Steinarr og Þórberg Þórðarson og segir Þorsteinn frá Hamri frá því löngu síðar að viðkomur þeirra hafi þótt mikil upphefð fyrir staðinn. Jón Óskar helgar heilan kafla í endurminningum sínum, Kynslóð kalda stríðsins (1975) þessum samkomustað ungskáldanna. 

Í viðtali við Nínu Björk Árnadóttur í Nýju lífi árið 1986 segir myndlistarmaðurinn Alfreð Flóki þetta um Laugaveg 11 þegar Nína Björk spyr hann hvort hann hafi í gegnum tíðina umgengist kollega sína mikið: 

Svokallaða kollega mína hef ég ekki umgengist, þó ég auðvitað dáist að þeim úr fjarska. Ég hef umgengist meira skáld og rithöfunda. Ég kynntist allflestum, sem eru vinir mínir í dag á Laugavegi 11, því góða kaffihúsi, en það var Sigurður Oddgeirsson, nú skólastjóri á Grænlandi, sem leiddi mig fyrst þangað inn. Þar kynntist ég Jóhanni Hjálmarssyni. Og Þorsteini frá Hamri, Ástu Sigurðardóttur, Úlfi Hjörvar, Ara heitnum Jósefssynin, Elíasi Mar, Sturlu Tryggvasyni, Braga Kristjónssyni, Helga úrsmíðarmeistara og málverkasafnara Guðmundssyni, Degi Sigurðar … Þarna var líka stofnuð svokölluð Intelligentía … í henni vorum við nokkrir útvaldir heiðursmenn og þrjár servitrísur af Laugavegi 11. 

Þegar kaffihúsinu hafði verið lokað á kvöldin var farið í langa heilsubótargöngutúra eða bíltúra og diskúterað, fílósóferað og spekúlerað um lífið og listina, allir hlutir brotnir til mergjar.

„Alfreð Flóki … Hver skyldi hann vera og hvernig skyldi hann verar?“ Nýtt líf, 8. tbl., 9. árg., 1986. 

Dagur Sigurðarson skrifaði saknaðarljóð til staðarins, „Ljóðabréf frá útlöndum”, sem segja má að sé allt annars konar ættjarðarljóð en hefðin segir til um: 

Ljóðabréf frá útlöndum

Trjástofnarnir í Edinborg: 
risavaxnir stálstaurar 
Krónurnar: ryðgaðar gaddavírs- 
flækjur huldar reykmekki 

- Lángar mig heim til Lellefs 

Fólkssauðirnir í Höfn: 
stríðaldir klunnar 

Þeir stökkva ekki yfir réttarveggi 
einsog hornfirzkir kollegar þeirra 

- Lángar mig heim til Lellefs 

Loftslagið í Vín: 
heitt eins og víti 
en ívið mollulegra 

„Die schöne blaue“ Dóná 
allsekki blá heldur 
grá og brún og skítug 

- Lángar mig heim til Lellefs 

Leggstu aldrei í útlent gras Þú 
verður öll útskriðin í pöddum 

- Lángar mig heim til Lellefs 

Melkot

Melkot var einn af síðustu torfbæjunum í Reykjavík og stóð bærinn um það bil þar sem Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu stendur í dag (í suðurhorni lóðarinnar). Þetta tómthúsbýli tilheyrði landi Melhúsa og var það byggt á 18. öld. 

Melkot, sem er fyrirmynd Brekkukots í skáldsögunni Brekkukotsannáll (1957) eftir Halldór Laxness, var rifið árið 1915, en þar kynntust foreldrar Halldórs þegar þau voru vinnufólk á bænum. Síðustu ábúendur í Melkoti voru Magnús Einarsson og Guðrún Klængsdóttir, en systir Guðrúnar var amma Halldórs og var hann vel kunnugur á bænum á barnsárum sínum. 

Úr Brekkukotsannál:

[...] sunnanvið kirkjugarðinn í höfuðstaðnum okkar tilvonandi, þar sem brekkan fer að lækka við syðri tjarnarendann, alveg á blettinum þar sem hann Guðmundur Gúðmúnsen sonur hans Jóns Guðmundssonar í Gúðmúnsensbúð reisti loks veglegt hús, þar stóð einusinni lítill torfbær með tveim burstum; og þilin tvö vissu suðrað tjörninni. Þessi litli bær hét í Brekkukoti. Í þessum bæ átti hann afi minn heima, hann Björn sálugi í Brekkukoti sem veiddi stundum hrokkelsin á vorin, og hjá honum sú kona sem hefur staðið nær mér en flestar konur þó ég vissi færra um hana, hún amma mín. Þetta litla moldarhús var ókeypis gistiherbergi handa hverjum sem hafa vildi. Í það mund sem ég var að verða til, þá var þar í kotinu mikil örtröð af því fólki sem nú á dögum heitir flóttamenn; það er að flýa land; það leggur á stað með tárum úr heimkynnum sínum og ættbygð af því svo illa er að því búið heimafyrir að börn þess ná ekki þroska heldur deya.

Pósthússtræti 5

Málfríður Einarsdóttir

Fyrsta bók Málfríðar Einarsdóttur (1899-1983), Samastaður í tilverunni, kom út þegar hún var á áttræðisaldri og vakti mikla athygli. Hún bjó lengi á efstu hæð pósthússins í Austurstræti, þar sem maður hennar Guðjón Eiríksson var húsvörður. 
Það vakti furðu að svo snjall rithöfundur skyldi brjótast fram á sjónarsviðið svo seint á æviskeiði sínu, en Málfríður hafði þó lagt stund á ritstörf um árabil áður en hennar fyrsta bók fékkst útgefin. Auk sjálfsævisögulegra bóka hennar og skáldverka birtust kvæði og greinar eftir hana í tímaritum og dagblöðum og var hún einnig mikilvirkur þýðandi. 

Bækur Málfríðar einkennast þær af frumlegum efnistökum og persónulegum tóni, sem átti sér fáar hliðstæður í íslenskum bókmenntum. Efni þeirra er sjálfsævisögulegt, en Málfríður fylgdi ekki hefðbundinni forskrift bókmenntagreinarinnar um línulega frásögn frá fæðingu til samtíðar. Frásögn verkanna er brotakennd og samhengið ekki ávallt á reiðum höndum, enda textarnir skrifaðir á löngum tíma með hléum og innskotum. 

Málfríður þjáðist af berklum um áratuga skeið og var lengi rúmföst sökum vanheilsu. Hún var að sögn sískrifandi, en eftirfarandi ritaði skáldið, og útgefandi Málfríðar, Sigfús Daðason í minnargrein um hana:

Málfríður Einarsdóttir var rithöfundur fram í fingurgóma, haldin þeirri ástríði rithöfundar sem nálgast grafómaníu. Hún skrifaði á hverjum degi ef nokkur tök voru á: nulla dies sine linea, og ég hygg að síðustu línurnar hafi hún skrifað föstudaginn 21. október, en 22. október veiktist hún og var flutt á spítala. Hún dó síðdegis 25. október.

Úr Samastað í tilverunni:

Ætíð hef ég átt samastað, að minnsta kosti hefur aldrei farið svo, að ég hafi þurft að vera hvergi. Að vísu hafa mér lokast staðir allfáir, enn fleiri aldrei opnast, á nokkrum fékk ég að hanga fyrir náð og vegna þess að lög banna að sjúkum sé úthýst úr sjúkrahúsum ef þeir brjóta ekki lög og reglur. Á heimili mínu hinu núverandi hef ég fengið einna lengst að vera. Annar sá staður sem ég dvaldist lengi á var bernskuheimili mitt, og átti ég þar reyndar ekki stað sem ég mætti kalla minn, eða væri óhult fyrir amasemi eða öðru verra; svefnstað hafði ég fyrir ofan föðursystur mína í rúmi hennar, og henni þótti vænt um þennan krakka sem enginn átti. Þetta var þröngur staður, en staður engu að síður, en þó er ég ekki fyllilega viss um að þarna hafi verið líft í eiginlegri merkingu þó ég lifði eða tórði réttara sagt. Kuldinn var mikill, hann kallaðist trekkur. Fyrir utan þetta litla, ömurlega hús, sem ekki var samastaður minn nema að ósköp litliu leyti, tók við vilpan. Í hana var ekki gott að stíga. Utan vilpunnar tóku við aðrar vilpur. Víðast var illfært. Þó kom það fyrir, að sól skini úr heiði og túnið væri þurrt, jafnvel að skondra mætti út fyrir það og koma fyrir trémönnum í vegglægju, þar sem þeir áttu að eiga bústað. Því mér var það áskapað að vilja ætla öllu samastað, einkum því sem gleymst hafði eða orðið út undan.

Málfríður Einarsdóttir, Samastaður í tilverunni, 2008: Forlagið (1. útgáfa, 1977: Ljóðhús)

Svava Jakobsdóttir

Bókmenntamerkingin var afhjúpuð þann 7. október árið 2015 á Lestrarhátíð í Bókmenntaborg, sem var tileinkuð Svövu Jakobsdóttur (1930-2004). Svava var rithöfundur og leikskáld og er þekktust fyrir skáldsögur, smásögur og leikrit. Svava sat á Alþingi Íslendinga fyrir Alþýðubandalagið árin 1971-1979.  

Um Svövu Jakobsdóttur af Bókmenntavefnum:

Á miðri tuttugustu öld efndi tímaritið Líf og list til smásagnasamkeppni. Sigurvegari var nítján ára stúlka, Svava Jakobsdóttir, og birtist sagan, „Konan í kjallaranum“, í júlíhefti ritsins 1950. Eftir því sem næst verður komist er þetta fyrsta saga Svövu sem gekk á prent. Svava tók hana ekki upp í bækur sínar síðar og hefur ef til vill talið hana til bernskubreka í ritlistinni, en sem innlegg í raunsæishefð íslensku smásögunnar stendur þessi saga vel fyrir sínu. Hún er til vitnis um að Svava hefur snemma fengið áhuga á að kafa undir yfirborð þess sögusviðs sem oft er líkt og sjálfgefinn þáttur í sagnagerð, þ.e.a.s. húsnæðis. Svövu er frá byrjun ljóst að þau híbýli sem mynda umgjörð um líf fólks eru merkingarbær í fleiri en einum skilningi; við köllum slíkt athvarf „húsnæði“, en næðið er stundum takmarkað þegar híbýli eru könnuð sem tilvistarsvið og spegill mannverunnar.

Ástráður Eysteinsson

Tryggvi Emilsson

Tryggvi Emilsson rithöfundur (1902-1993) bjó  í Blesugrófinni frá 1947 til 1956. Æviminningar hans eru mikilvæg heimild um líf og baráttu verkafólks á Íslandi á tuttugustu öld en þetta eru bækurnar Fátækt fólk, Baráttan um brauðið og Fyrir sunnan. Þær komu út á árunum 1976 – 1979 og voru tvær fyrstu bækurnar tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. 

Í þriðja bindinu lýsir Tryggvi meðal annars merkilegri uppbyggingu Blesugrófarinnar, en hann og fjölskylda hans voru meðal fyrstu íbúa hverfisins og bjó Tryggvi í húsi sem kallað var Gilhagi og stóð á grasbala milli húsanna sem nú eru númer 15 og 17. Í gangstéttinni milli þessara húsa stendur grenitré sem Tryggvi gróðursetti þar árið 1952. 

Tryggvi og fjölskylda hans voru meðal þúsunda sem flykktust til höfuðborgarinnar á fimmta áratug tuttugustu aldar, en hingað komu þau frá Akureyri.

Líklegt má telja að nafnið Blesugróf hafi orðið til vegna þess að blesótt hryssa hafi borið þar sín bein og fundist þar dauð eftir harðan vetur, kannski hefir hún ekki haft þrek til að kasta folaldi vegan megurðar, kaldir vetur léku þarfasta þjóninn oft æði grátt.

Tryggvi Emilsson: Fyrir sunnan

Blesugrófin var byggð upp af efnalitlu fólki í lok stríðsáranna sem setti niður kofa eða byggði við þá sem fyrir voru. Gilhagi var til að mynda upphaflega baðhús fyrir breska herinn en Tryggvi breytti því í tvíbýlishús eins og lesa má af lýsingu hans í bókinni. Á hernámsárunum stóð braggahverfið New Mercur Camp þar sem nú er Blesugróf. Landið var utan skipulags en þar höfðu risið nokkur býli upp úr 1930 auk sumarbústaða. Vestan við byggðina lá vegur sem var kallaður Útvarpsstöðvarvegur eða Breiðholtsvegur og var byggðin um skeið kölluð Breiðholtshverfi. Byggðin hélt áfram að þéttast þar til nýtt íbúahverfi var skipulagt á svæðinu í byrjun sjöunda áratugarins. Allnokkur húsanna frá upphafsárum hverfisins standa enn en önnur, líkt og Gilhagi, hafa vikið. 

Ingólfur Arnarson

Ingólfur Arnarson er þekktastur landnámsmanna, hann kom hingað um árið 872 og  var fyrstur til að nema land hér. Ingólfur sigldi hingað með Hjörleifi bróður sínum frá Noregi að flýja undan ofríki Hákonar hárfagra Noregskonungs. Hjörleifur var drepin af þrælum sínum stuttu eftir komuna til Íslands. Kona Ingólfs var Hallveig Fróðadóttir. Landnámi hans og staðarvali er lýst svo í Landnámu:

Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndugissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land. Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði, en Hjörleif rak vestur fyrir land, og fékk hann vatnfátt. Þá tóku þrælarnir írsku það ráð að knoða saman mjöl og smjör og kölluðu það óþorstlátt; þeir nefndu það minnþak. En er það var tilbúið, kom regn mikið, og tóku þeir þá vatn á tjöldum. En er minnþakið tók að mygla, köstuðu þeir því fyrir borð, og rak það á land, þar sem nú heitir Minnþakseyr.

Ingólfur sendir þræla sína til að leita að öndvegissúlunum og fundust þær í vík einni fullri af reyk. Þangað flutti Ingólfur bú sitt og nefndi staðinn Reykjavík. 

Margt hefur verið ritað um Ingólf og veru hans í Reykjavík. Eru þetta óljósar heimildir en sem reynt að rökstyðja með fornleifafundum í Reykjavík sbr. Landnámssýningin 872±2 þar sem reynt er að varpa ljósi á lífshætti landnámsmanna.

Ingólfur og landnám Íslands hefur einnig verið mörgum rithöfundinum uppspretta sköpunar og má nefna ljóð Þórarins Eldjárn, Ingó sem dæmi. 

Ingó

Oní fjöru Ingólfur 
er í skapi fúlu, 
fram og aftur flækist þar 
en finnur enga súlu. 

Hann finnur gamlan gúmmískó 
og grænar netakúlur, 
en ekki sínar öndvegis- 
og afbragðsgóðu súlur. 

Hann kemur auga á ótal hús, 
með uppþvotavél og síma: 
HANN ER Í RÉTTRI REYKJAVÍK 
Á RÖNGUM KOMUTÍMA. 

Hann gengur upp á grænan hól 
og gerist fyllibytta, 
og er þar síðan alla tíð 
algjör myndastytta. 

Úr bókinni Halastjarna frá 1997. Útg. Forlagið. 

Fleiri en Þórarinn Eldjárn hafa skrifað ljóð um Arnarhól og má finna brot af þeim á Ljóðakorti Reykjavíkur.

Jón Árnason

Jón Árnason (1819 – 1888) þjóðsagnasafnari var frumkvöðull í söfnun þjóðsagna á Íslandi. Hann segir frá því í endurminningum sínum að hann hafi snemma haft áhuga á að heyra sögur og enginn á æskuheimili hans slapp við að segja honum þær, jafnvel þótt drengurinn yrði svo hræddur að hann yrði að biðja móður sína að halda utan um sig í rúminu. Þjóðsagnasöfnunina hóf Jón árið 1845 ásamt Magnúsi Grímssyni og kom safn þeirra Íslenzk ævintýri út 1852. Magnús lést 1860 en Jón hélt söfnuninni áfram og kom safnið sem kennt er við hann, Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, fyrst út í tveimur bindum 1862 og 1864.  Jón var fyrsti landsbókavörður Íslands og hvatamaður að stofnun forngripasafns ásamt Sigurði Guðmundssyni málara. Saman höfðu þeir svo umsjón með safninu, sem síðar varð Þjóðminjasafn Íslands.

Bókmenntamerking um Jón Árnason er við Laufásveg 5 en Jón og kona hans Katrín Þorvaldsdóttir Sívertsen (1829 – 1895) reistu húsið að Laufásvegi 5 árið 1880 og bjó Jón hér til dauðadags. Húsið er úr höggnu grágrýti sem sett er saman með kalki úr Esjunni. Það hefur stundum verið kallað Jónshús.

Skáldastígur

Við Unuhús, sem stendur við Garðastræti 15, liggur örlítill stígur, svokallaður „Skáldastígur“ sem liggur niður að Mjóstræti í Grjótaþorpi.

Skáldastígur er hvorki malbikaður né hellulagður og er hann nánast óbreyttur frá þeirri tíð er Unuhús var athvarf skálda, listamanna og alls kyns utangarðsfólks í tíð Erlendar Guðmundssonar og móður hans Unu Gísladóttur á fyrri hluta 20. aldar. Stígurinn var kallaður svo vegna þess að þar gengu skáldin upp að Unuhúsi, enda var hann ein aðalleiðin um Grjótaþorpið, en hann gekk líka undir nafninu Götuhúsastígur eftir hjáleigunni Götuhúsum.

Unuhús er meðal annars frægt úr verkum skáldanna Halldórs Laxness og Þórbergs Þórðarsonar en það var athvarf og samkomustaður ungra listamanna á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Stígurinn hefur nú verið friðaður.

Una var ekkja og hafði hún tekjur af því að leigja út frá sér herbergi auk þess að hafa kostgangara en þau mæðgin tóku einnig að sér alls kyns utangarðsfólk. Erlendur var eina barn Unu sem komst á legg og tók hann við húsinu af móður sinni.

Erlendur var þekktur sem víðsýnn og menntaður maður þótt skólagangan væri fátækleg, og hafa skáldin sem sóttu húsið heim mært hann í skrifum sínum. Hann er sagður vera fyrirmyndin að organistanum í skáldsögu Halldórs Laxness, Atómstöðinni.

Úr Ofvitanum eftir Þórberg Þórðarson

Svona viðkunnanlega vistarveru hafði ég aldrei séð áður. Hún var skínandi björt, og allir litir í henni voru hreinir og tærir, og það var eins og hver fjöl í þiljum og lofti og hver hlutur, sem þarna var inni, talaði lifandi tungu og andaði móti manni vingjarnleik og hlýju. Þetta var líkast sjálflýsandi heimi, óháðum gráma og rigningum landsins. Og hér var enginn hlutur, sem minnti á eignarrétt. Það var eins og enginn ætti þessa stofu. Það var eins og hún stæði hér í þjóðbraut heimsins til þess að allt mannkynið gæti gengið óboðið inn í hana. Hér kunni ég vel við mig. Hér fannst mér ég ætti alltaf að eiga heima.

Reykjavík: Mál og menning, 1993

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson (1864-1940) skáld og athafnamaður bjó hér í Höfða á árunum 1914 til 1917. Einar var heimsborgari og hugsjónamaður, hann ferðaðist víða um lönd og hér heima lagði hann fram margar nýstárlegar hugmyndir sem hafa haldið nafni hans á lofti þótt ekki yrðu þær allar að veruleika. Það er þó fyrst og fremst ljóðlist Einars sem lifir, hann sendi frá sér fimm ljóðabækur og er talinn meðal helstu ljóðskálda íslensku þjóðarinnar.

Einar Benediktsson, 1864-1940, var eitt dáðasta skáld þjóðarinnar á fyrriparti 20. aldar. Auk þess að yrkja var hann lögfræðingur, sýslumaður Rangæinga, ritstjóri og útgefandi Dagskrár, einn af stofnendum Landvarnarflokksins og fjármálamaður með evrópsk sambönd og hugmyndir um stórvirkjanir á Íslandi.

Brim 

Volduga hjartaslag hafdjúpsins kalda, 
af hljóm þínum drekk ég mér kraft og frið. 
Ég heyri í þér, skammlífa, skjálfandi alda, 
skóhljóð tímans, sem fram skal halda, 
og blóð mitt þýtur með brimsins nið. 

Ég beini sál minni að helsins hafi, 
sem handan við sól drekkur lífs míns straum. 
Ég sé minn himin með sólbjarmatrafi 
við sjóndeild blandast skugganna kafi 
og sekk mér í hugar míns dýpsta draum. 

Ég sekk mér í brimhljóðsins sogandi öldu 
og sál mína að óminnisdjúpinu kný. 
Ég tel mig í ætt við unnina köldu, 
sem einn af dropunum mældu og töldu, 
sem hljómbrot í eilífðarhafsins gný. 

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur ritaði ævisögu Einars Benediktssonar sem gefin var út árið 1997 og hlaut höfundurinn Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir verkið. 

Torfhildur Hólm

Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm (1845-1918) er jafnan kölluð fyrsti atvinnurithöfundur Íslands þar sem hún hlaut skáldalaun fyrst íslenskra höfunda. Nafninu á skáldastyrknum, sem Alþingi veitti henni árið 1889, var að vísu breytt í „ekknabætur“ þar sem skáldalaununum var harðlega mótmælt. Sjálf sagði Torfhildur í bréfi frá aldamótunum  1900 að hún hafi verið fyrsta konan hér á landi sem „… náttúran dæmdi til þess að uppskera hina beisku ávexti gamalla, rótgróinna hleypidóma gegn litterær dömum.“

Torfhildur skrifaði einkum sögulegar skáldsögur, en þar var hún einnig brautryðjandi þar sem slíkt hafði ekki tíðkast hér áður. Að auki fetaði Torfhildur ótroðnar slóðir þegar hún fyrst íslenskra kvenna gaf út og ritstýrði tímariti en hún hóf útgáfu tímaritsins Draupnis árið 1891. Draupnir var dægurtímarit fyrir konur og birtust gjarna í því fréttir af kvennabaráttunni í Bandaríkjunum.

Torfhildur bjó í Ingólfsstræti 18 síðustu æviárin, en hún lést úr spænsku veikinni árið 1918.

Á vefnum Snerpa.is er að finna söguna „Týndu hringarnir“ eftir Torfhildi.

Theodóra Thoroddsen

Theodóra Thoroddsen (1863-1954) skáld er einkum þekkt fyrir þulur sínar. Þær voru fyrst gefnar út á bók árið 1916 með myndskreytingum Guðmundar Thorsteinsson (Muggs), systursonar hennar. Bókin var endurútgefin árið 1938 og myndskreytti Sigurður Thoroddsen ásamt Muggi þá útgáfu sem hefur síðan verið endurútgefin þrisvar, síðast árið 2000. Ritsafn Theodóru kom síðan út árið 1960.

Kvæði, stökur og sagnir Theodóru birtust  víða, meðal annars í Mánaðarriti Lestrarfélags kvenna í Reykjavík (1911-1931). Hún þýddi sögur úr öðrum málum og safnaði einnig þjóðsögum. Islandsk folketru var útgefin í Kristjaníu árð 1924, eftir handriti hennar. Theodóra var einnig listfeng hannyrðakona og hafa sýningar verið haldnar með verkum hennar.

Theodóra var gift Skúla Thoroddsen og eignuðust þau þrettán börn. Þótti uppeldi þeirra nokkuð frjálslegt á þeirra tíma mælikvarða.  Fjölskyldan flutti  í Vonarstræti 12 árið 1908, en húsið var flutt í Kirkjustræti árið 2010 þar sem það stendur nú og er það í eigu Alþingis. Í bakhúsinu var prentsmiðja sem Skúli rak og þar var dagblaðið Þjóðviljinn til að mynda prentað um tíma.

Söguleg skáldsaga Ármanns Jakobssonar, Vonarstræti (2008) fjallar um þau Theodóru og Skúla og er ekki síst helguð sögu þessa sögufræga húss. 

Mitt var starfið

Mitt var starfið hér í heimi 
heita og kalda daga 
að skeina krakka og kemba þeim 
og keppast við að staga. 

Eg þráði að leika lausu við 
sem lamb um grænan haga, 
en þeim eru ekki gefin grið, 
sem götin eiga að staga. 

Langaði mig að lesa blóm 
um langa og bjarta daga, 
en þörfin kvað með þrumuróm: 
„Þér er nær að staga.“ 

Heimurinn átti harðan dóm 
að hengja á mína snaga, 
hvað eg væri kostatóm 
og kjörin til að staga. 

Komi hel með kutann sinn 
og korti mína daga, 
eg held það verði hlutur minn 
í helvíti að staga. 

Goðahverfið

Í kringum Skólavörðuholtið eru götur sem sækja nöfn í norræna goðafræði. Þar eru til að mynda Freyjugata, Njarðargata, Urðarstígur, Lokastígur, Nönnugata, Haðarstígur og Þórsgata. Hverfið er stundum kallað „goðahverfið“ af þessum sökum og mun það raunar upphaflega hafa átt að heita Ásgarður, en nafnið vann sér ekki sess.

Helstu heimildir okkar um norræna goðafræði og heiðinn átrúnað er að finna í Eddu Snorra Sturlusonar og Eddukvæðum. Konungsbækur Snorra-Eddu og Eddukvæða eru báðar varðveittar í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík.

Snorra-Edda

Snorri Sturluson ritaði Eddu um 1220 en Snorra-Edda er ein helsta heimild okkar um heiðinn átrúnað og norræna goðafræði, auk Eddukvæðanna.

Um Snorra-Eddu segir á vef Árnastofnunnar:

Edda Snorra skiptist í fjóra hluta. Fyrst er formáli sem líta má á sem eins konar heimspekilegan inngang að öllu verkinu. Þar eru heiðin trúarbrögð rakin til fornrar dýrkunar á náttúrunni og norrænu goðin talin afkomendur Priams Trójukonungs sem fluttust til Norðurlanda og voru teknir þar í guðatölu.

Annar hlutinn er Gylfaginning sem er rammafrásögn í formi spurningarkeppni milli þriggja ása og Gylfa konungs úr Svíþjóð sem kemur á þeirra fund dulbúinn sem förumaðurinn Gangleri. Í svörum ásanna við spurningum Gylfa er fólgið ítarlegt yfirlit yfir norrænar goðsagnir allt frá tilurð jötna og goða og sköpun heimsins til tortímingar hans í ragnarökum. Víða er vitnað til vísna úr Eddukvæðum eins og Völuspá, Vafþrúðnismálum og Grímnismálum og þá stundum til annarrar gerðar en þeirrar sem varðveitt er í Konungsbók kvæðanna.

Þriðji hluti Eddu, Skáldskaparmál, hefst einnig í formi viðræðu milli Braga, guðs skáldskaparins, og Ægis, sjávarguðsins, en þar segir Bragi honum ýmsar goðsagnir í upphafi en svo hverfur frásögnin frá samtalsforminu og snýst yfir í skýringar og yfirlit yfir skáldskaparmálið. Tekin eru fjöldamörg dæmi um notkun kenninga og heita úr kvæðum norskra og íslenskra skálda frá ýmsum tímum og iðulega vitnað til kvæða sem nú eru glötuð. Einnig er skotið inn frásögnum úr goðsögnum og hetjusögnum til skýringar á uppruna kenninga.

Síðasti hluti Eddu er Háttatal sem er þrískipt kvæði, 102 vísur sem sýna eiga hina ýmsu bragarhætti.

Snorra-Edda er varðveitt í nokkrum útgáfum, einna merkust þeirra er Konungsbók, skinnbók sem er rituð af óþekktum skrifara snemma á 14. öld. Aðrar útgáfur eru Uppsalabók og Ormsbók sem einnig eru skinnbækur frá 14. öld og Trektarbók, pappírsuppskrift frá því um 1600.

  • Nánar um Snorra-Eddu á vef Árnastofnunar

Konungsbók eddukvæða

Handritið er ritað af óþekktum skrifara á síðari hluta 13. aldar en Konungsbók er elsta safn eddukvæða sem varðveist hefur og má segja að hún sé þekktasta bók Íslendinga.

Eddukvæði segja frá heiðnum goðum og hetjum, en hefð er fyrir að skipta þeim í goða- og hetjukvæði. Meðal goðakvæðanna eru Völuspá og Hávamál, Þrymskviða, Vafþrúðnismál, Skírnismál, Hymiskviða og Lokasenna. Meðal hetjukvæðanna eru Völundarkviða, Fáfnismál, Helreið Brynhildar, Guðrúnarkviður, Atlakviða, Oddrúnargrátur og Sigurðarkviður.

Konungsbók er án efa merkasta handrit í eigu Íslendinga og frægust allra íslenskra bóka á heimsvísu, enda hafa sumir viljað kalla hana Monu Lisu okkar Íslendinga. Fjölmargir seinni tíma höfundar hafa sótt í smiðju kvæðanna í öllum tegundum skáldskapar. Eitt nýjasta dæmið er ljóðabók Gerðar Kristnýjar frá 2010, Blóðhófnir, en hana byggir Gerður á Skírnismálum og túlkar hún kvæðið á annan hátt en hin hefðbundna túlkun segir til um. Konungsbók er í aðalhlutverki í samnefndri skáldsögu Arnaldar Indriðasonar, svo aðeins tvö og gerólík dæmi af fjölmörgum séu nefnd.

Konungsbók er eins og áður segir varðveitt í Árnastofnun hér í Reykjavík. Hún var lengi varðveitt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn en kom aftur heim til Íslands í apríl 1971.