Verkefni - Bókmenntaborgin

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt árlega og hefðinni samkvæmt afhent síðasta vetrardag við hátíðlega athöfn í Höfða.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu og er helsta markmið þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert í bókaútgáfu fyrir unga lesendur og hvetja þá til bóklesturs.

Verðlaunin eru veitt rithöfundum, myndhöfundum og þýðendum barnabóka fyrir metnaðarfullar ritsmíðar og þýðingar fyrir börn. Markmið þessara virtu verðlauna er að vekja athygli á þýðingu góðra bókmennta fyrir börn og ungmenni og því sem vel er gert á þessum mikilvæga vettvangi íslenskrar bókaútgáfu. 

Fimmtán bækur, fimm í hverjum flokki, eru tilnefndar. Verðlaunin eru þrískipt, þ.e. veitt eru verðlaun fyrir frumsamda íslenska barnabók, þýðingu á barnabók yfir á íslensku og myndlýsingu í íslenskri barnabók.

Dómnefnd barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar er skipuð þrem fulltrúum sem eru skipaðir af Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, Rithöfundasambandi Íslands og Fyrirmynd, félagi myndhöfunda.

Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur voru stofnuð árið 2018 til heiðurs Guðrúnu Helgadóttur rithöfundi. Verðlaunin eru veitt árlega fyrir óprentað handrit að barna- eða ungmennabók og styðja þannig við nýsköpun í greininni. 

Opnað hefur verið fyrir rafræna innsendingu handrita fyrir árið 2025 og verður opið fyrir innsendingu til 1. maí 2025. Tekið hefur verið mikilvægt skref í átt að auknu öryggi, skilvirkni og umhverfisvænum lausnum með því að innleiða nýtt rafrænt innsendingaferli handrita, í stað skila á pappír í þríriti líkt og áður var. Smelltu á hlekkinn til að skila inn handriti á síðu verðlaunanna.

Hver eru verðlaunin?

Verðlaunahafi hlýtur verðlaunafé ásamt viðurkenningunni sjálfri. Verðlaunaféð er greitt af Reykjavíkurborg og eru ein verðlaun veitt árlega í kring um afmælisdag Guðrúnar Helgadóttur 7. september. Árið 2025 verður upphæð verðlaunanna 1.000.000 krónur.

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar eru veitt ár hvert í minningu Tómasar Guðmundssonar fyrir óprentað handrit að ljóðabók. Dómnefnd verðlaunanna er skipuð af borgarráði og er hún skipuð þremur einstaklingum.

Opnað hefur verið fyrir rafræna innsendingu handrita fyrir árið 2025 og verður opið fyrir innsendingu til 1. maí 2025. Tekið hefur verið mikilvægt skref í átt að auknu öryggi, skilvirkni og umhverfisvænum lausnum með því að innleiða nýtt rafrænt innsendingaferli handrita, í stað skila á pappír í þríriti líkt og áður var. Smelltu á hlekkinn til að skila inn handriti á síðu verðlaunanna.

Hver eru verðlaunin?

Verðlaunahafi hlýtur verðlaunafé. Það er greitt af Reykjavíkurborg og eru ein verðlaun veitt árlega í vetrarbyrjun. Upphæð verðlaunanna er 1.000.000 krónur.

Hver skipar dómnefnd?

Dómnefnd til verðlaunanna er skipuð af menningar- og ferðamálaráði til eins árs í senn. Hana skipa þrír fulltrúar, þar af einn samkvæmt tilnefningu Rithöfundasambands Íslands, annar samkvæmt tilskipun Félags íslenskra bókaútgefenda og þriðji samkvæmt skipun Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO, sem jafnframt skipar formann.

Hvernig tek ég þátt?

Handritum skal skilað rafrænt á .pdf-formi hér á síðunni og verður það hægt til 1. maí 2025. Handritin eru geymd á læstu svæði og eytt tveimur vikum eftir að dómnefnd hefur komist að niðurstöðu. Nafnleynd höfunda verður eftir sem áður tryggð í þessu ferli, þar sem innsendingarnar verða unnar í aðgangsstýrðu kerfi sem tryggir að dómnefnd fær handritin einungis merkt dulnefnum, rétt eins og áður.

Útgáfuréttur verðlaunahandrits er í höndum höfundar eða þess forlags sem hann ákveður að starfa með. Sé dómnefnd á einu máli um að ekkert þeirra verka sem borist hafa fullnægi þeim kröfum sem hún telur að gera verði til verðlaunaverka, má fella verðlaunaafhendinguna niður það ár.