Bókmenntaborgin - Verkefni

Verkefni

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO er menningarskrifstofa sem hafur það hlutverk að miðla bókmenningu og orðlist til borgarbúa og gesta borgarinnar.

Hún stendur fyrir lestrarhvetjandi verkefnum fyrir börn og fullorðna, eflingu bókmennta- og orðlistalífs í borginni og að bókmenningarsaga borgarinnar verði aðgengileg í borgarlandinu.

Hún styður ímynd Reykjavíkurborgar sem borg orðlistar, innanlands sem utan- og tekur þátt í alþjóðlegu starfi með öðrum skapandi borgun UNESCO ásamt fleirum.

Bókmenntaborgin vinnur eftir leiðarljósi Skapandi borga UNESCO.

Bókamessan

Félag íslenskra bókaútgefenda og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO standa að Bókamessunni sem haldin hefur verið árlega í Reykjavík frá árinu 2011.

Bókaútgefendur, höfundar og lesendur koma saman þessa helgi þar sem orðlistin er í öndvegi. Boðið er upp á fjölbreytta og skemmtilega bókmenntadagskrá auk þess sem lesendur geta nælt sér í glóðvolgar bækur á góðu verði beint frá útgefendum.

Aðgangur er ókeypis.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt árlega og hefðinni samkvæmt afhent síðasta vetrardag við hátíðlega athöfn í Höfða.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu og er helsta markmið þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert í bókaútgáfu fyrir unga lesendur og hvetja þá til bóklesturs.

Barnabókaverðlaunin og verkefni henni tengd eru unnin í samvinnu skóla- og frístundaráðs og menningar-, íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar í bókmenntaborginni Reykjavík.

Verðlaunin eru veitt rithöfundum, myndhöfundum og þýðendum barnabóka fyrir metnaðarfullar ritsmíðar og þýðingar fyrir börn. Markmið þessara virtu verðlauna er að vekja athygli á þýðingu góðra bókmennta fyrir börn og ungmenni og því sem vel er gert á þessum mikilvæga vettvangi íslenskrar bókaútgáfu. 

Verðlaunin eru því þrískipt, þ.e. veitt eru verðlaun fyrir bestu frumsömdu íslensku barnabókina, bestu þýðingu á barnabók yfir á íslensku og bestu myndlýsingu í íslenskri barnabók.

Fimmtán bækur, fimm í hverjum flokki, eru tilnefndar; fyrir bestu frumsömdu barna- og unglingabókina, bestu þýðingu á erlendri barna- og unglingabók og fyrir bestu myndlýsingu.

Dómnefnd barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar er skipuð þrem fulltrúum sem eru skipaðir af Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, Rithöfundasambandi Íslands og Fyrirmynd, félagi myndhöfunda.

Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur voru stofnuð árið 2018 til heiðurs Guðrúnu Helgadóttur rithöfundi. Verðlaunin eru veitt árlega fyrir óprentað handrit að barna- eða ungmennabók og styðja þannig við nýsköpun í greininni. 

Hver eru verðlaunin?

Verðlaunahafi hlýtur verðlaunafé. Verðlaunaféð er greitt af Reykjavíkurborg og eru ein verðlaun veitt árlega að vori samhliða verðlaunaafhendingu Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar. Upphæð verðlaunanna er ein milljón króna.

Hvenær er skilafrestur?

Skilafrestur handrita fyrir samkeppnina árið 2024 er 1. apríl 2024 

Senda skal inn til Reykjavíkurborgar óbirt handrit að skáldverki fyrir börn eða unglinga, frumsömdu á íslensku. Handritum sem keppa til verðlaunanna þarf að skila í þríriti merktum dulnefni, en nafn og heimilisfang fylgi með í lokuðu umslagi. Handrit berist í síðasta lagi 1. apríl 2024. 

Utanáskrift handrita:

Bókmenntaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur
b.t. Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO 
Borgartúni 12-14 
105 Reykjavík 

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar eru veitt ár hvert í minningu Tómasar Guðmundssonar fyrir óprentað handrit að ljóðabók. Dómnefnd verðlaunanna er skipuð af borgarráði og er hún skipuð þremur einstaklingum.

Hver eru verðlaunin?

Verðlaunahafi hlýtur verðlaunafé. Það er greitt af Reykjavíkurborg og eru ein verðlaun veitt árlega í vetrarbyrjun. Upphæð verðlaunanna er 1.000.000 krónur.

Hver skipar dómnefnd?

Dómnefnd til verðlaunanna er skipuð af menningar- og ferðamálaráði til eins árs í senn. Hana skipa þrír fulltrúar, þar af einn samkvæmt tilnefningu Rithöfundasambands Íslands, annar samkvæmt tilskipun Félags íslenskra bókaútgefenda og þriðji samkvæmt skipun Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO, sem jafnframt skipar formann.

Hvernig tek ég þátt?

Senda skal inn til Reykjavíkurborgar áður óútgefið handrit að ljóðabók, frumsamið á íslensku. Handritum sem keppa til verðlaunanna þarf að skila í þremur eintökum, merktum dulnefni, en nafn og símanúmer fylgi með í lokuðu umslagi.

Handrit berist í síðasta lagi miðvikudaginn 1. apríl 2024.

Utanáskrift sendinga:

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 
b.t. Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO 
Borgartúni 12-14 
105 Reykjavík

Útgáfuréttur verðlaunahandrits er í höndum höfundar eða þess forlags sem hann ákveður að starfa með. Sé dómnefnd á einu máli um að ekkert þeirra verka sem borist hafa fullnægi þeim kröfum sem hún telur að gera verði til verðlaunaverka, má fella verðlaunaafhendinguna niður það ár.

Skapandi borgir

Samtök skapandi borga UNESCO Creative Cities network samanstanda af borgum sem státa af menningarlegri arfleifð á einhverju af sjö listsviðum og leggja áherslu á að rækta og styðja við hana í samtímanum. Sviðin eru bókmenntir, tónlist, handverk og alþýðulist, kvikmyndir, hönnun, margmiðlunarlist og matargerðarlist. Borgir geta sótt um að verða aðilar að samtökunum, en þær borgir sem hljóta inngöngu þurfa einnig að sýna fram á metnað til framtíðar. Reykjavík var útnefnd Bókmenntaborg UNESCO árið 2011. 

Samtök Skapandi borga UNESCO eru ört vaxandi og eru nýjar borgir útnefndar á tveggja ára fresti. Titillinn er varanlegur svo lengi sem borgirnar taka þátt í starfi samtakanna og sýna fram á öflugt menningarlíf á sínu sviði, en skila þarf framgangsskýrslu til UNESCO á fjögurra ára fresti. 

Skapandi borgir UNESCO starfa samkvæmt leiðarljósi samtakanna.

Bókmenntaborgir UNESCO í þeirri röð sem þær voru útnefndar:

Á sameiginlegum vef Bókmenntaborga UNESCO er að finna efni um Bókmenntaborgirnar og fleira sem rithöfundar og bókmenntaáhugafólk gæti haft áhuga á.  

Þar er að finna upplýsingar fyrir fjölmiðla og borgir sem hafa áhuga á að ganga í samtökin svo og almenna kynningu á netinu.

Borgir sem óska eftir að ganga í Samstarfsnet skapandi borga UNESCO skila umsókn til UNESCO sem er metin og eru nýjar borgir teknar inn annað hvert ár.

Þær borgir sem fá inngöngu skila stöðuskýrslu til UNESCO á fjögurra ára fresti sem liggur til grundvallar mati á hæfni þeirra til að vera áfram í netinu.