Bókmenntaborgin - Gröndalshús

 

Vinnuaðstaða

Í risi Gröndalshúss er vinnuaðstaða til leigu fyrir einstaklinga eða hópa í orðlistum. Um er að ræða 5 skrifborð í risi og 5 skrifborð á miðhæð austanmegin í húsinu.

Skrifborð leigjast út á 20.000 krónur, styst  3 mánuði, lengst 12 mánuði samfleytt.

Innifalið í leigu er netaðgangur og þrif. Í eldhúsi er ísskápur, kaffivél, hraðsuðuketill og borðbúnaður. Einnig fylgja afnot af fundarherbergi á aðalhæð hússins fyrir smærri viðburði fyrir, svo sem stofuspjall, samskrif, vinnustofur eða álíka menningarviðburði í samráði við Bókmenntaborgina.

Dagatal

 

 

Gröndalshús – Bókmenntahús

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO rekur menningarhús í miðborg Reykjavíkur kennt við skáldið Benedikt Gröndal (1826-1907) sem þar bjó. Húsið stendur á horni Fishersunds og Mjóstrætis eftir flutning þess frá Vesturgötu 16a þar sem það stóð upphaflega í flæðarmálinu.

Benedikt Gröndal var stórhugi á sínum tíma og má kalla hann glæsilegan fulltrúa nítjándu aldarinnar sem og húsið sem við hann er kennt. Benedikt var skáld, náttúrufræðingur, myndlistarmaður og kennari. Hann var einnig áhugamaður um mótun bæjarins og þróun Reykjavíkur sem höfuðstaðar Íslands eins og grein hans Reykjavík um aldamótin 1900 ber vitni um, en hún hefur nú verið gefin út á bók. Auk ljóða og prósatexta liggja eftir hann greinar um lífið í bænum þar sem hann leggur til umbætur á höfuðstaðnum í anda þess sem tíðkast í erlendum stórborgum. Minning Gröndals dofnaði um miðbik síðustu aldar en mikilvægi hans í íslenskri bókmennta og menningarsögu hefur verið staðfest síðastliðin ár með útgáfu á verki hans Íslenskir fuglar og endurútgáfu á sjálfsævisögu hans Dægradvöl, sem er ein rómaðasta sjálfsævisaga íslenskra bókmennta.

Endurgert Gröndalshús var opnað í júní 2017. Á aðalhæð þess og í risi er vinnuaðstaða fyrir orðlistafólk, í kjallara er gestaíbúð fyrir erlenda rithöfunda, þýðendur og fræðimenn.

 

Gestadvöl

Rithöfundum frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO gefst kostur á að sækja um mánaðardvöl í Gröndalshúsi á hverju ári. Fyrsti höfundurinn, Chantal Ringuet, dvaldi í húsinu í október 2019 en hún er fædd og uppalin í Québec City, sem hefur verið Bókmenntaborg UNESCO frá 2017.

Vegna heimsfaraldurs Covid-19 féll gestadvölin niður árið 2020 en í október 2021 verður Fiona Khan frá Bókmenntaborginni Durban í S-Afríku gestahöfundur í Gröndalshúsi.

Haustið 2022 dvaldi ástralski höfundurinn Ronnie Scott frá bókmenntaborginni Melbourne í Gröndalshúsi. Hann var valinn úr hópi rúmlegra 100 umsækjenda frá Bókmenntaborgum UNESCO.

Ronnie Scott er dósent í ritlist við RMIT háskóla í Melbourne. Skáldsaga hans, The Adversary (2020) var á styttri lista tilnefndra verka til Queensland bókmenntaverðlaunanna og var einnig tilnefnd til verðlaunanna Australian Literature Society Gold Medal. Hann hefur skrifað tvær bækur fyrir Listasafn Viktoríufylkis (National Gallery of Victoria) og einnig sérritið Salad Days sem var gefið út af Penguin (2014). Þá rannsakar hann og skrifar um myndasögur fyrir Folio: Stories of Contemporary Australian Comics.