Heimahjúkrun | Reykjavíkurborg

Heimahjúkrun

Heimaþjónusta Reykjavíkur veitir hefðbundna heimahjúkrun.  Markmið þjónustunnar er að gera þeim sem hennar njóta kleift að búa heima  þrátt fyrir veikindi eða heilsubrest. Þjónustan er veitt  náinni samvinnu við íbúann sjálfan  og aðstandendur þeirra.  Allar beiðnir um heimahjúkrun og beiðnir um heimaþjónustu frá LSH berast rafrænt. Þeir sem leita að félagslegri heimaþjónustu fyrir t.d. þrif og innlit geta fundið hana á tengli hér til hægri á síðunni.

Fyrir hverja er heimahjúkrun?

Félagsleg heimaþjónusta og heimahjúkrun er fyrir alla aldurshópa.Heimahjúkrun  er hjúkrunarþjónusta sem veitt er í heimahúsum, að undangengnu mati, og er ætluð fyrir fólk sem  búsett er í Reykjavík og á Seltjarnarnesi.

Markmið heimahjúkrunar er að veita einstaklingshæfða og markvissa hjúkrun.

Heimahjúkrun er veitt án endurgjalds. Skjólstæðingi ber þó að útvega og greiða fyrir ýmis hjálpartæki og áhöld sem hann þarf á að halda samkvæmt reglum Sjúkratrygginga Íslands. Einstaklingshæfð og markviss heimahjúkrun er sérsniðin að þörfum hvers og eins. 

Ferill umsóknar/þjónustu

  • Beiðni/umsókn um heimahjúkrun verður að berast skriflega frá heilbrigðisstarfsmönnum (heilbrigðisstofnunum og   starfsfólki í heilbrigðis- eða félagsþjónustu).
  • Umsókn skal fyllt út og síðan má senda beiðnina í pósti eða rafrænt.
  • Heilsugæslan og Landspítali nota beiðni um heimahjúkrun í Sögu og senda hana rafrænt.
  • Mikilvægt er að tilgreina tilefni umsóknarinnar, sjúkdómsgreiningar og hjúkrunarvandamál. 
  • Óskað er eftir að hjúkrunar- og/eða læknabréf fylgi umsókn. 
  • Sótt er um heimahjúkrun utan Reykjavíkur á hverri heilsugæslustöð fyrir sig, nema fyrir Seltjarnarnes hjá Heimaþjónustu Reykjavíkur. 

Um heimaþjónustu

Heimaþjónusta Reykjavíkur ber ábyrgð á  allri heimahjúkrun í Reykjavík og Seltjarnarnesi, heimahjúkrun um kvöld og helgar í Mosfellsbæ og næturþjónustu fyrir allt höfuðborgarsvæðið.  Auk þess sér hún um félagslega kvöld- og helgarþjónustu í  Reykjavík sem og sérhæft geðteymi/Geðheilsustöð Breiðholts. Sótt er um þjónustuna hjá þjónustumiðstöðvum borgarinnar.  Ef ná þarf tali að kvöld- og helgarþjónustu utan skrifstofutíma er hægt að hringja í miðlægt númer 411 9600, sem temgir þig við vaktþjónustu í viðkomandi hverfi.


Hlutverk heimaþjónustu Reykjavíkur

Heimahjúkrun felur í sér skipulagðar heimsóknir til einstaklinga.  Heimahjúkrun er sinnt af hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.
Ákvörðun um að veita heimahjúkrun byggist á upplýsingasöfnun og faglegu mati hjúkrunarfræðings. Áhersla er lögð á að meta hvort og hvernig heimahjúkrun mun bæta/styðja við heilbrigði einstaklingsins og fjölskyldu hans.
Heimahjúkrun sinnir:
 
Einstaklingum sem þurfa skilgreindan stuðning.
Einstaklingum sem þarfnast sérhæfðrar hjúkrunar.
Einstaklingum sem þarfnast víðtækrar hjúkrunar daglega eða oft á dag.
 

Framkvæmd þjónustu

Stefnt er að því að þjónustan hefjist innan 2-3 daga  frá því að beiðni liggur fyrir. Ef beiðni berst eftir kl. 12 á föstudegi er ekki hægt að tryggja þjónustu fyrr en næsta virka daga á eftir.

Í fyrstu heimsókn aflar hjúkrunarfræðingur  upplýsinga,  skoðar aðstæður og metur þörf fyrir þjónustu í samráði við skjólstæðing og/eða aðstandendur.  Sé talin þörf á hjálpartækjum eða breytingum innan heimilis áður en heimahjúkrun getur hafið þjónustu er fengið mat frá iðjuþjálfa. Þörf fyrir þjónustu er endurskoðuð reglulega.
 

Vinnuumhverfi heimahjúkrunar

Starfsemi heimahjúkrunar sem fram fer á einkaheimilum fellur undir lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (2. gr. laga nr. 46/1980). Ber atvinnurekanda að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar á þeim stað þar sem starfsmaðurinn starfar.

Starfsmenn Heimaþjónustu Reykjavíkur hafa undirritað þagnareið og helst þagnarskyldan þótt starfsmaður láti af störfum.
 
Samskiptabók skal vera hjá hverjum þeim sem þiggur heimahjúkrun. Henni er ætlað að hafa upplýsingalegt gildi fyrir skjólstæðinginn, aðstandendur, heilbrigðisstarfsmenn og starfsmenn félagsþjónustu. Þar skal skrá helstu upplýsingar um meðferð og niðurstöður mælinga.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Íbúum Laugardals og Háaleitis er veitt þjónustu frá Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleits að Efstaleiti 1. Sími 411 1500/411 1590.  Deildarstjóri er Ragna Lilja Garðarsdóttir, ragna.l.gardarsdottir@reykjavik.is

Íbúum Breiðholts, Árbæjar,Grafarholts og Grafarvogs er veitt þjónusta frá  Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts, aðsetur að Hraunbæ 119. Sími 411 9600. Deildarstjóri er Dagný Hængsdóttir, dagny.haengsdottir@reykjavik.is

Íbúum í Hlíðum, Miðbæ, Vesturbæ og Seltjarnarnesi er veitt þjónusta frá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, aðsetur að Vitatorgi/ Lindargötu 59. Sími 411 9650. Deildarstjóri er Kristín Blöndal , kristin.blondal@reykjavik.is

 

Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á heima@reykjavik.is

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

2 + 5 =