Heimsendur matur
Það er mikilvægt fyrir allt fólk að geta fengið sér staðgóða og næringarríka máltíð á hverjum degi. Heimsending matar er fyrir fólk sem ekki getur annast matseld sjálft og hefur ekki tök á að borða í einum af félagsmiðstöðvum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Maturinn er framleiddur í framleiðslueldhúsi velferðarsviðs á Vitatorgi.
Hvernig virkar þjónustan?
Heimsendur matur er ekinn út þrisvar í viku, á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum.
Fyrir matarskammta sem berast á mánudögum, sem er matur fyrir mánudaga og þriðjudaga, þurfa pantanir að berast fyrir 14 á föstudegi. Fyrir matarskammta sem berast á miðvikudögum, sem er matur fyrir miðvikudaga og fimmtudaga, þurfa pantanir að berast fyrir 14 á mánudegi. Fyrir matarskammta sem berast á föstudegi, sem er matur fyrir föstudaga, laugardaga og sunnudaga, þurfa pantanir að berast fyrir 14 á miðvikudegi.
Ef þú vilt gera breytingar skaltu hafa samband í síma 411-1111 eða senda póst á maturinnheim@reykjavik.is.
Matseðill – hvað er í matinn?
- Heimsendur matur 18. nóvember til 24. nóvember
- Heimsendur matur 25. nóvember til 1. desember
- Heimsendur matur 2. desember til 8. desember
- Heimsendur matur 9. desember til 15. desember
Get ég fengið heimsendan mat?
Til að geta fengið heimsendan mat þarft þú að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Eiga lögheimili í Reykjavík
- Vera eldri en 18 ára
- Búa sjálfstætt
- Vera metinn í þörf fyrir heimsendan mat samkvæmt reglum um stuðningsþjónustu
Hvernig sæki ég um heimsendan mat?
Þú sækir um heimsendan mat á rafrænan hátt á Mínum síðum.
Einnig er hægt að fylla út umsókn á PDF-formi og senda á maturinnheim@reykjavik.is.
Hvað gerist ef umsókn er synjað?
Ef umsókn er synjað og þú telur sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir því að veita skuli þér undanþágu frá reglum getur þú sent inn beiðni um áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs.
Hvað kostar heimsendur matur?
Hver máltíð kostar 940 krónur. Aksturskostnaður er 255 krónur. Samtals kostar máltíð 1.195 krónur.
Greiðsluseðill fyrir heimsendan mat er sendur út mánaðarlega í heimabanka.