Heimahjúkrun

Heimahjúkrun er fyrir fólk á öllum aldri sem býr heima hjá sér og þarfnast reglulegrar heilbrigðisþjónustu. Hún felur í sér heimsóknir hjúkrunarfræðinga eða sjúkraliða og er veitt í náinni samvinnu við notendur og aðstandendur.

Hvernig sæki ég um heimahjúkrun?

Fyrsta skrefið er að leita til heilbrigðisstarfsfólks, til dæmis lækna og hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvum eða sjúkrahúsum. Það leggur mat á þörf fyrir heimahjúkrun og sendir beiðni um þjónustuna til Reykjavíkurborgar. Heimahjúkrun hefst venjulega tveimur til þremur virkum dögum eftir að beiðni er móttekin.

Hvað gerist næst?

Í upphafi heimahjúkrunar kemur hjúkrunarfræðingur í heimsókn og leggur frekara mat á hversu mikla þjónustu þú þarft. Það er gert í samráði við þig og aðstandendur þína eftir atvikum.

Hvað kostar heimahjúkrun?

Heimahjúkrun er þér að kostnaðarlausu.

SELMA - vitjanir og símaráðgjöf

SELMA er teymi hjúkrunarfræðinga og lækna sem hefur það markmið að efla heilbrigðisþjónustu við fólk sem notar heimahjúkrun og verður fyrir skyndilegum veikindum eða versnun á heilsufari. Tilgangurinn er að forða fólki frá innlögn á bráðamóttöku vegna veikinda sem hægt er að meðhöndla heima fyrir.

Heimastuðningur

Heimastuðningur mætir fólki á þeim stað sem það er í lífinu og fer fram á heimili þess, í gegnum rafrænar lausnir eða þar sem best hentar. Þjónustan felur í sér stuðning við dagleg verkefni og almennt heimilishald. Þú getur átt rétt á heimastuðningi ef þú þarft aðstoð vegna skertrar getu, álags, veikinda eða fjölskylduaðstæðna.

Hvar fæ ég frekari upplýsingar?

Þú getur hringt í 411 9600 eða sent póst á netfangið heima@reykjavik.is. Starfsfólk þjónustumiðstöðva veitir einnig upplýsingar.

  • Íbúar Laugardals og Háaleitis fá þjónustu frá Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. Deildarstjóri er Ragna Lilja Garðarsdóttir, sími 411 1590. 
  • Íbúar í Breiðholti, Árbæ, Grafarholti og Grafarvogi fá þjónustu frá Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts. Deildarstjóri er Ragnheiður Þórisdóttir, sími 411 9600.
  • Íbúar í Hlíðum, Miðbæ, Vesturbæ og Seltjarnarnesi fá þjónustu frá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. Deildarstjóri er Ása Kolbrún Hauksdóttir , sími 411 9650.