Skóla- og frístundasvið

Skóla- og frístundasvið veitir börnum og fjölskyldum í borginni heildstæða skóla- og frístundaþjónustu í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, skólahljómsveitum og fleiri stofnunum í öllum hverfum borgarinnar. 

Um sviðið

Allt faglegt starf í uppeldi og menntun barna og ungmenna byggir á Menntastefnu Reykjavíkurborgar; Látum draumana rætast. Stefnan grundvallast á grunnstefjum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að menntun barns skuli beinast að því að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess. Tilgangurinn er að búa börn undir að lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, gagnkvæmrar virðingar, mannréttinda og vinsemdar.

Í kraftmiklu og framsæknu skóla- og frístundastarfi er unnið að því að börn og unglingar öðlist menntun og reynslu til að láta drauma sína rætast og hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag.

Alls starfa um 6.115 starfsmenn hjá skóla- og frístundasvíði í um 4.671 stöðugildum.

Undir skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar heyra um 170 starfsstaðir:

  • 68 leikskólar, þar af þrír samreknir með grunnskólum, auk 17 sjálfstætt starfandi leikskóla. Samtals dvelja þar um 6.300 börn. Um 400 börn dvelja að jafnaði hjá um 125 dagforeldrum;
  • 38 grunnskólar auk 6 sjálfstætt starfandi grunnskólar, með alls um 15.440 nemendur. 
  • 37 frístundaheimili, þar af fimm samrekin með grunnskólum, með alls um 4.300 börn. 
  • 25 félagsmiðstöðvar með um 130 þúsund skráðar heimsóknir á ári, þar af fjórar sértækar félagsmiðstöðvar. 
  • 4 skólahljómsveitir þar sem um 520 nemendur læra á hljóðfæri;
  • 1 tónlistarskóli samrekinn með grunnskóla, leikskóla og frístundastarfi, að auki eru 18 tónlistarskólar með þjónustusamning við Reykjavíkurborg.

Skóla- og frístundasvið veitir þjónustu í fjölbreytilegu samfélagi

  • Börnin í borginni eru af minnst 97 þjóðernum og tala yfir 70 tungumál.
  • Nær 3.000 grunnskólanemar fá kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.
  • Um 8% leikskólabarna og 25% nemenda í grunnskólum fá stuðning eða sérkennslu. Um 7% barna í frístundastarfi fá sérstakan stuðning. Að auki eru starfræktir fjórir frístundaklúbbar fyrir börn með fatlanir.

Menntastefna - Látum draumana rætast

Menntastefna Reykjavíkur til ársins 2030 byggir á grunnstefjum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að menntun barns skuli beinast að því að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess. Ríkur samhljómur er með menntastefnunni, aðalnámskrám leik- og grunnskóla og núgildandi stefnum skóla- og frístundasviðs og Reykjavíkurborgar.

Menntastefnan var mótuð í samstarfi þúsunda borgarbúa; með aðkomu barna í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi, foreldra, starfsfólks skóla- og frístundasviðs, kjörinna fulltrúa, innlendra og erlendra ráðgjafa og almennings. 

Skrifstofa skóla- og frístundasviðs 

Skrifstofa skóla- og frístundasviðs er að Höfðatorgi, Borgartúni 12-14. Þar er haldið utan um stefnumótun, þróun og faglega stjórnun þeirrar fjölbreyttu þjónustu og verkefna sem unnið er að á sviðinu, auk umsýslu vegna funda skóla- og frístundaráðs. Undir skrifstofuna heyra skóla- og frístundaskrifstofur í fjórum borgarhlutum, Nýsköpunarmiðja menntamála, Miðja máls og læsis, Miðstöð útivistar og útináms, Mixtúra og fleiri undirstofnanir sem sinna formlegu og óformlegu námi barna og ungmenna. 

Skóla- og frístundaþjónusta í borgarhlutum

Ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna krefjast nýrra vinnubragða í samskiptum þeirra sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu. Innleiðing á verkefninu Betri borg fyrir börn í öllum borgarhlutum er liður í breyttum vinnubrögðum. Lögð er áhersla á að þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs með það að markmiði að samhæfa og bæta þjónustu við notendur, börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Jafnframt er markmiðið að bæta stjórnun og auka stuðning við stjórnendur og starfseiningar skóla- og frístundasviðs í borgarhlutum með fagstjórum leik- og grunnskóla og mannauðs- og fjármálaráðgjöfum.  

Tölfræði, rannsóknir og mat á skóla- og frístundastarfi

Sviðsstjóri

Sviðsstjóri er Helgi Grímsson.

Skipurit

 

Hafðu samband

Erindi og fyrirspurnir má senda í tölvupósti á sfs@reykjavik.is.

Skóla- og frístundasvið er líka á Facebook og Instagram.